Ein af fréttum gærdagsins hófst á því að sagt var frá því að það kostaði á bilinu 1.000.000 króna til 1.250.000 krónur að ættleiða barn frá útlöndum. Sjálfsagt hefur margur hugsað með sér að þetta sé nú ekki óskaplegur peningur fyrir heilt barn, nýjan fjölskyldumeðlim. Fréttin hefði þess vegna getað snúist upp í vangaveltur um hve mikið má fá fyrir lítið með því að ættleiða barn. Hægt sé að fá heilt barn fyrir sama verð og á að giska fjögurra ára Volkswagen Golf. Eða 35 upphækkun á jeppann. Það hefði sum sé verið hægt að ræða málið út frá því hve lítill kostnaður þetta er nú miðað við alla þá hamingju sem börn geta veitt foreldrum sínum. En, nei, það var nú ekki til umræðu. Í annarri setningu fréttarinnar var hlustendum í staðinn skýrt frá því að íslenska ríkið tæki engan þátt í kostnaði við ættleiðingar. Og því var bætt við að á Norðurlöndum væri þessu á annan veg farið, þar greiddi ríkið sko hluta kostnaðarins.
Nú er ekki bent á þetta hér til að halda því fram að það væru vitlausustu útgjöld ríkisins að styrkja ættleiðingar, enda engin leið að benda á vitlausustu útgjöld ríkisins, svo mikil vitleysa sem þar er víða. Hins vegar er ástæða til að vekja athygli á því hvernig „hlutlausir“ fréttamenn leggja fréttir sínar iðulega upp skattgreiðendum í óhag. Það er sem sagt sérstaklega fréttnæmt að ríkið greiði ekki fyrir eitthvað sem fólk langar í eða vantar, sérstaklega ef skandinavíski vöggustofusósíalisminn greiðir fyrir sambærilega hluti.
Það er eiginlega sérstakt vandamál hve mikið er um að fréttir fjölmiðla snúist um að ríkið hafi ekki næg útgjöld. Í næstum hverjum fréttatíma er talað við fulltrúa einhvers þrýstihópsins eða að minnsta kosti fjallað um málefni þrýstihópsins og því velt upp að ríkið greiði „aðeins“ svo og svo mikið til stuðnings málefninu. Það kemur hins vegar aldrei fyrir að rætt sé við fulltrúa skattgreiðenda eða að málsvari þrýstihópsins sé spurður hvers vegna hann telji sig eiga kröfu á hendur skattgreiðendum. Þaðan af síður dettur nokkrum fréttamanni í hug að fjalla um að það sem ríkið greiðir einum tekur það af öðrum. Almenningur sér aðeins eina hlið málsins í fréttum, þ.e. hlið sérhagsmunahópsins. Sjónarmið hins skattpínda Íslendings heyrist aldrei.