KOSNINGAR2002Margt er það sem fylgir hverri einustu kosningabaráttu. Þar má til dæmis nefna yfirboð framboðslistana sem hver fyrir sig annað hvort býðst til að leysa öll vandamál eða heldur því fram að hann hafi þegar gert það. Þá fylla auglýsingar dagblöðin, stundum með skýrum skilaboðum og staðhæfingum en stundum bara með risastórum myndum af frambjóðendum brosandi niðrá tilbúinni sólarströnd, öllum á gallabuxum – og svörtum blankskóm! Við þetta bætast svo sömu gasprararnir – stundum nefndir „stjórnmálaskýrendur“ eða „sérfræðingar“ – og þeir fara með nokkra innihaldslausa frasa sem öllum er ætlað að fæla menn frá því að kjósa einn tiltekinn stjórnmálaflokk, sem flestum gösprurum landsins virðist heldur uppsigað við. Þessi atriði bregðast aldrei. Í þeim byggðarlögum þar sem vinstri menn eru svo stálheppnir að svokallaðir andstæðingar láta hefðbundnar hugmyndir hægri manna um einstaklings- og athafnafrelsi ekki trufla sig, ganga þeir svo auðvitað á lagið og raða heimskulegustu hugðarefnum sínum í gegn, en síðustu vikur fyrir kosningar er unnt að gera það mótatkvæðalaust, af því að ákveðin tegund nútímalegra sjálfstæðismanna er einstaklega hrædd við að taka skynsamlega afstöðu sem kynni að mælast illa fyrir í gaspurheimum sýndarveruleikans. Reykjavík er sérstaklega gott dæmi um þetta.
En þetta er ekki það eina sem ganga má að sem vísu í öllum kosningum. Á Íslandi er aldrei efnt til kosninga án þess að fram komi meinlokumenn sem hrópa á torgum úti um að það séu „hreinar og klárar persónunjósnir“ að þeir sem bjóði fram við kosningar megi fylgjast með því hverjir það eru sem nýta atkvæðisrétt sinn við kosningarnar. „Það er mitt einkamál hvort ég kýs!“ fullyrða þessir menn bara eins og ekkert sé sjálfsagðara.
Mætti Vefþjóðviljinn svara þessum árvissu hrópururm örfáum orðum: Nei það er ekkert einkamál ykkar hvort þið takið upp á því að kjósa valdhafa yfir annað fólk. Þið eruð ekki að kjósa fyrir ykkur eina, þeir sem kjósa eru að taka þátt í opinberum atburði, þeir eru að velja menn sem eiga að stjórna öðru fólki, fólki sem margt hvert kærir sig alls ekki um stjórn þessara manna. Í raun má segja, að það sé ekki einkamál manns hvort hann kýs, heldur sé það einkamál hans hvað hann kýs. Eða er það endilega einkamál eins manns hvern hann velur til þess að stjórna öðru fólki? Ætti fólk, sem þarf að lúta valdi kjörinna fulltrúa, ekki í það minnsta að fá að vita hverjir það eru sem völdu þess menn til að stjórna því? Já og hvaða réttlæti er í því ríkinu sé haldið uppi af nafnleysingjum?
En þó gildar ástæður séu til þess að kosningar séu bara alls ekki leynilegar þá eru einnig ástæður fyrir því að þær séu hafðar leynilegar og þarf ekki að tíunda þær hér. Enda hefur Vefþjóðviljinn aldrei barist fyrir því að kosningar verði haldnar í heyranda hljóði. En gasprararnir sem telja að það sé sko líka þeirra einkamál hvort þeir kjósa eða ekki, þeir vaða einfaldlega einn reykinn enn.
Eftir að vinstri flokkarnir gáfust upp á því að manna kjördeildir á kjördag hafa þeir tekið undir þennan söng misskilningsins, auðvitað í von um að koma höggi á þann flokk sem enn býr að nægilegum mannskap til að fylgjast með kosningunum. Það voru engin grundvallarsjónarmið heldur ómöguleikinn sem ráku vinstri flokkana út úr kjördeildunum. Enda sést það vel í Háskólanum. Þegar stúdentar ganga að kjörborðinu í háskólakosningum sitja tveir menn í öllum kjördeildum, gegnt kjörstjórninni. Annar er frá Vöku, hinn frá Röskvu. Báðir skrifa niður hverjir koma og kjósa. Hvorugum dettur í hug að þar séu persónunjósnir á ferð. Annar þeirra er hins vegar reiðubúinn að halda langa ræðu um „persónunjósnirnar“ sem fara fram í sveitarstjórnarkosningum skömmu síðar. Hinn veit að það er grundvallaratriði að þeir sem bjóða fram fái að fylgjast með því að allt fari rétt fram, að ekki fái aðrir kjörseðla en þeir sem eru á kjörskránni og að uppgefin úrslit stemmi við þann fjölda sem sannanlega greiddi atkvæði.
Og þeir sem hlæja hátt og spyrja hvort menn haldi virkilega að nokkur reyni að svindla í kosningum, til dæmis með því að bæta útfylltum seðlum í kjörkassa eða með því að lauma nýjum kassa með útfylltum seðlum inn á talningarstað eða kjörstað, kannski þeir myndu þá milli hlátursroknanna svara því hvort einhver þau undur gerist á kjördögum að þá verði skyndilega allir menn heiðarlegir. Að akkúrat þann dag af öllum dögum muni allir ganga fram af forsjá en ekki kappi.