„Óháðir og hægri sinnaðir rithöfundar sögðu sig flestir úr rithöfundasambandinu eftir mikinn yfirgang kommúnista. Munurinn þá og nú er bara sá að óháðir eru núna hvergi viðurkenndir og hvarvetna réttdræpir, einkum í málgögnum hægri manna, sem aðallega heyja sína baráttu við vinstri menn austur í Rússlandi og Kína. Hvenær rofar til í íslenskum skóla- og menningarmálum?“ |
– Hilmar Jónsson í Morgunblaðinu 31. janúar 1991. |
Hilmar þessi Jónsson, rithöfundur, stórtemplar og bókavörður í Keflavík er sjötugur í dag og það er sennilega þess vegna sem þessi orð hans rifjast upp. En afmæli eða ekki afmæli, það er meinlaust að líta aðeins á þessi orð og velta fyrir sér hvað sé til í þeim. Eflaust hristir einhver höfuðið þegar því er haldið fram að óháðir rithöfundar njóti ekki sömu viðurkenningar og aðrir eða að svo kölluð málgögn hægri manna dilli vinstri mönnum daginn út og inn. En margt er undarlegt í kýrhausnum.
Látum þetta með óháða rithöfunda og vinstri sinnaða rithöfunda liggja milli hluta að sinni – en hugsum aðeins um þessi svo kölluðu málgögn hægri manna. Vefþjóðviljinn heldur því fram að slíkt málgagn sé ekki til, að minnsta kosti ekki ef horft er til hefðbundinna fjölmiðla. „Bíddu bíddu bíddu“, æpir nú einhver, „er Morgunblaðið hætt að koma út?“. Nei það vantar ekki, Morgunblaðið kemur út oft í viku en því fer fjarri að það blað sé sérstakt málgagn hægri manna eða standi sérstakan vörð um frjálslynd viðhorf.
Morgunblaðið hefur breyst mjög á síðustu árum og meira en margir gera sér grein fyrir. Nú virðist oft sem blaðið sé hersetið af boðberum hins pólitíska rétttrúnaðar en málflutningur blaðsins hefur færst frá sígildri og „solid“ afstöðu til manna og málefna, yfir í það sem á stundum virðast vera örvæntingarfullar tilraunir til að „svara kalli tímans“. Svo virðist oft sem á blaðinu óttist ýmsir nú mjög að daga uppi sem nátttröll og verða að steini þegar sól nýrra og ferskra viðhorfa nýrra kynslóða og nýrrar aldar renni upp. Afleiðingin er bylgja vælukjóaleiðara þar sem dag eftir dag er vælt yfir erótískum skemmtistöðum eða einhverju öðru bakslagi í baráttunni fyrir allsherjarríki heimsfemínismanns. Þessu fylgja svo undarleg Reykjavíkurbréf þar sem boðaðar eru stórfelldar umhverfisógnir, gjarnan með vísan í enn undarlegri heimildarmenn.
Einu sinni voru daglegir „staksteinar“ í Morgunblaðinu, sannkölluð skemmtilesning fyrir áhugamenn um þjóðmál, einkum þá sem stóðu hægra megin við miðjuna. Staksteinar eru að vísu enn birtir en nú eru þar ekki hugleiðingar Morgunblaðsmanna um þjóðmálin – og kannski er það fagnaðarefni nú á tímum – heldur er þar yfirleitt upplestur úr heimasíðum Jóhönnu Sigurðardóttur og Svanfríðar Jónasdóttur. En til að sanngirni sé gætt þá er í staðinn kominn „víkverji“ þar sem sagðar eru daglegar fréttir af óheppnasta manni landsins, „kunningja Víkverja“, en sá maður fær óvenju slæma þjónustu hjá stofnunum og fyrirtækjum. Morgunblaðið er að öðru leyti ákaflega upptekið af því að það sé „hlutlaust“ og allt í lagi með það, ef það vill marka sér þá stefnu. Sérstaklega virðist blaðið óttast að vera álitið hallt undir hægri öflin í þjóðfélaginu og gætir þess því vandlega að gera ekki of vel við þau. Af því leiðir oft að blaðið fer mjög mildum höndum um vinstri öfl þjóðfélagsins og þegir jafnvel um það sem þeim kæmi illa.
Morgunblaðinu tókst meira að segja ekki að koma sér upp skoðun á frambjóðendum í síðustu forsetakosningum á Íslandi. En bætti sér það upp nokkrum árum síðar með gjörsamlega furðulegum fullyrðingum um forsetakosningar í Bandaríkjunum þar sem fjallað var um mál af því sem virðist sambland af heift og vanþekkingu. Þannig hefur blaðið blákalt haldið því fram að Al Gore hafi í raun fengið fleiri atkvæði í hinum umtöluðu kosningum í Florida þegar öllum endurtalningum, jafnvel þeim þar sem farið var eftir ýtrustu og langsóttustu kröfum Gores, ber saman um að George W. Bush hafi sigrað.
Enn bregður þó hinu gamla Morgunblaði, þessu sem tugþúsundir manna kaupa ennþá í góðri trú, fyrir þegar kemur að öryggis- og varnarmálum, en blaðið er enn hollt þeirri stefnu að Ísland skuli tryggilega varið. En að öðru leyti hefur blaðið heldur en ekki hallað undir flatt.
Aðrir fjölmiðlar eru svo eins og þeir eru. Flestir eru orðnir svo vanir því að vinstri menn ráðskist með Ríkisútvarpið eftir hentugleikum að næstum verða uppþot ef þangað er ráðinn maður sem ekki er fyrirfram sérstakur andstæðingur stærsta stjórnmálaflokks landsins. Og gerist þetta oftar en einu sinni þá skrifa sumir um það – og trúa því sjálfir – að hægri menn leggi Ríkisútvarpið í einelti. Mætti Vefþjóðviljinn ráðleggja þeim sem því trúa, að hlusta eftir umfjöllun Ríkisútvarpsins um þjóðmál, menningarmál og önnur dægurmál. Hlusta eftir „hægri mönnunum“ sem tala yfir þjóðinni upp á hvern dag úr Laufskálum, Speglum, Víðsjá og Samfélagi í nærmynd, og slíkum þáttum. – Reyndar mætti kannski kalla þessa þáttastjórnendur „hægrimenn“. Nú virðist nefnilega mega kalla hvern sem er hægrimann, jafnvel alræðissinnaðir þjóðernissinnar sem boða víðtæk ríkisafskipti og afnám viðskiptafrelsis eru kallaðir „öfgahægrimenn“ og það vafðist ekki einu sinni fyrir hinum hálofaða „Spegli“ Ríkisútvarpsins að halda því fram að „nýfrjálshyggjumenn“ væru í fremstu röð í uppgangi „öfgahægrimanna“ á meginlandi Evrópu þessa dagana.
Nei, það eru engir hægri fjölmiðlar til á Íslandi, ef horft er til hinna hefðbundnu fjölmiðla. Það eru til mismunandi miklir vinstri fjölmiðlar. Og á öllum hinum hefðbundnu fjölmiðlum ríður nú pólitískur rétttrúnaður húsum.