Það er aumingi austur í vík sem á ekki heillega flík. Hvernig má þetta vera, það er mikið að gera, og meðaltalsfjölskyldan rík? |
– Jóhann S. Hannesson |
Þó velmegun hafi aldrei verið meiri á Íslandi en nú, þó að kaupmáttur launa hafi aldrei vaxið meira en undanfarin ár, þó segja megi að Íslendingar hafi aldrei haft það betra en undanfarin ár, þá er það samt svo að til eru þeir sem búa við kjör sem flestum löndum þeirra þættu í það krappasta. Það hefur líka verið haft eftir Winston Churchill og fleirum að kapítalisminn leiði til ójafnar dreifingar lífsgæða en jafnaðarstefnan leiði hins vegar til jafnrar dreifingar ömurleika. En svo undarlega sem það kann að hljóma, þá virðast ýmsir beinlínis þeirrar skoðunar að jafn ömurleiki sé eftirsóknarverðari en mismunandi mikil velmegun. Þá er ekki síður undarlegt að slíkir menn virðast í fullri alvöru telja þær kenningar sínar til marks um sérstaka manngæsku og þeim virðist jafnframt sem aðeins sérstaklega harðbrjósta menn séu annarrar skoðunar.
Þessir hjartagóðu menn fá aldrei nóg af fréttum sem þeir telja renna stoðum undir þá trú sína að aukið frelsi í efnahags- og atvinnumálum leiði ekki aðeins til þess að „hinir ríkari verði ríkari“ heldur einnig til þess að „hinir fátækari verði fátækari“. Þessi umhyggjusömu góðmenni gera þannig eins mikið og þeir geta úr því þegar fólk leitar til hjálparstofnana eftir gjöfum eða snýr sér til þeirra sem bjóða fjármálaráðgjöf við vægu eða engu verði. Þannig mátti í gærkvöldi heyra mikinn söng um að sífellt fjölgaði þeim sem leitað hefði ráðgjafar „ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna“ og öðru hverju greina grátklökkir fréttamenn frá því að biðröðin standi út úr húsakynnum mæðrastyrksnefndar og fái menn þar gefins mat, leikföng og verkfæri. Og þetta á allt að sanna það að nú fari „fátækt“ mjög vaxandi .
Jú víst hafa menn það misgott, hvort sem hagur þeirra er mældur í peningum eða öðru. Góðar tekjur tryggja jafnvel ekki að menn hafi það bærilegt enda hægur vandi að steypa sér í slíkar skuldir að menn eigi vart til hnífs og skeiðar að loknum afborgunum. Og auðvitað eru þeir til sem búa við kröpp kjör, ef miðað er við dæmigerða landa þeirra. En það, að þeim fjölgi sem þiggja það sem boðið er mönnum að kostnaðarlausu, er engin sérstök sönnun þess að nokkur fátækt fari vaxandi. Það getur alveg eins verið eðlileg afleiðing af látlausum fréttum af því sem stendur til boða, sem auðvitað valda því að fleiri ekki aðeins vita af því sem hægt er að fá heldur einnig fá á tilfinninguna að það sé ekkert tiltökumál að bera sig eftir slíkum gjöfum. Nú æpir eflaust einhver með þjósti að það „geri það nú enginn að gamni sínu að biðja um fjárhagsaðstoð“ og vitanlega er mörgum það erfitt og margir gera það eflaust ekki fyrr en þeir telja öll önnur sund lokuð. En það á aðeins við um ákveðinn hóp og hver getur svarað því fyrir sig hvort líklegra sé að mórallinn nú til dags fækki eða fjölgi í þeim hópi.
Þeir sem gefa til líknarfélaga gera það í þeim tilgangi að þeir, sem þurfa þess með, njóti góðs af. Og það er ekkert siðferðilega rangt við það að þiggja nauðsynlega aðstoð sem annar maður býður fram af fúsum og frjálsum vilja. Slíkt þarf ekki að vera vitnisburður um skort á sjálfsvirðingu þess sem ekki eru önnur ráð tiltæk. Það er til eftirbreytni að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi enda eru fjölmargir sem leggja mikið af mörkum, hvort sem þeir gefa af eigum sínum eða tíma til að aðstoða þá sem verr standa. Það er hins vegar minna góðverk að vera örlátur á annarra fé. Margir tala jafnan hátt og mikið um það hve mjög þeir beri hag hinna verst stöddu fyrir brjósti en gera svo einkum þær kröfur að einhverjir aðrir komi þar til aðstoðar.
Þá ber talsvert á fólki sem í raun virðist ekki hafa svo miklar áhyggjur af því hvað hinir verst settu hafa milli handanna en virðist þess í stað telja að öllu skipti hversu mikið þeir hafi miðað við einhverja aðra. Slíku fólki til huggunar mætti reyndar benda á, að munur á hæstu og lægstu tekjum er hvergi minni en á Íslandi, en ekki verður það gert hér. Í stað þess verður látið nægja að halda fram þeirri skoðun að það hljóti að vera betra fyrir þá verst settu að kjör allra batni – og það eins þó sumir kunni að fá meira en aðrir í það og það skipti – en að allir standi í stað. Eigi fólk yfirleitt að fá að búa í frjálsu samfélagi þá verði alltaf munur á lífskjörum fólks. Slíkur munur verði ekki jafnaður út nema með ofbeldi sem leiði að lokum til jafnrar dreifingar ömurleika. En þá hefði reyndar sennilega tekist – að minnsta kosti á yfirborðinu – að ná fram þeirri „lífskjarajöfnun“ sem sumir tala um eins og hvert annað keppikefli.