Lýðræðið er ýmsum mikilvægt og ekki ástæða til að amast við því. Þvert á móti ber að fagna hverjum nýjum lýðræðissinna. Enda mikilvægt að við það sé almennur stuðningur að kjósendur geti losað sig við valdhafa án blóðsúthellinga. Að vísu koma oftast nýir í staðinn en það verður ekki á allt kosið. Svo eru menn ekki alltaf sáttir við niðurstöður lýðræðislegra kosninga. Þannig þramma nú „lýðræðissinnar“ um götur Parísarborgar og mótmæla harðlega niðurstöðum nýlegra kosninga.
Formaður þingflokks Samfylkingarinnar var félagi í Alþýðubandalaginu en sem kunnugt er var forveri þess flokks upphaflega stofnaður til að afnema lýðræði hér á landi og taka upp sósialíska stjórnarhætti. Það kemur því ef til vill ekki á óvart að formaður þingflokksins telji sig þurfa að taka það fram að hún sé fylgjandi lýðræði. Að minnsta kosti er ekki víst að allir gangi að því sem gefnu að lýðræðið eigi þar hauk í horni. Í umræðum á Alþingi á dögunum tók Bryndís Hlöðversdóttir, en svo heitir formaður þingflokks Samfylkingarinnar, sig til og fjallaði um lýðræði. Bryndís er ekki aðeins félagi í Alþýðubandalaginu heldur einnig fyrrverandi starfsmaður ASÍ en vandfundin eru ólýðræðislegri samtök. Morgunblaðið vitnaði eðlilega í þessa ræðu enda tíðindi að liðsmaður Alþýðubandalagsins og verkalýðshreyfingar tali svo opinskátt um kosti og mikilvægi lýðræðis. Morgunblaðið hafði eftir Bryndísi að í framtíðinni muni lýðræðið virka á mismunandi stöðum: „Við mundum hafa staðbundið lýðræði á mismunandi stöðum í mismunandi löndum. Þjóðlýðræði, evrópskt lýðræði og einn fagran dag myndum við kannski byggja upp alþjóðlegt lýðræði,“ sagði Bryndís.
Já einn daginn kemur alþjóðlegt lýðræði. Þá geta Frakkarnir kosið nýjasta LePenin yfir okkur hin, ef ekki einhvern af fjórtán Troskyistum sem þar njóta einnig mikillar hylli og öllum finnst víst bara allt í lagi að fái mikið fylgi. Íslendingar sem ekki munu sætta sig við afrakstur hins alþjóðlega lýðræðis geta svo gripið til sama gagnlega úrræðis og fúlir Parísarbúar nota núna, gengið reiðir um götur Akureyrar, velt bílum og brotið rúður.
En svo er ekki víst að Frakkarnir ráði miklu þó hið alþjóðlegra lýðræði taki yfir þegar hin gamaldags þjóðríki hverfa. Það er nefnilega hætt við að LePenar og aðrir framagosar Vesturlanda missi spón úr aski sínum, svona þegar fyrstu tölur koma frá Peking.