Þá er baráttunni lokið vegna borgarstjórnarkosninga að þessu sinni. R-listinn hefur afgreitt þetta í eitt skipti fyrir öll. Borgarbúar þurfa ekki frekari vitna við: Skuldir Reykjavíkurborgar hafa ekki vaxið af sjálfu sér, R-listinn eyddi fénu sem hann hefur tekið að láni. Ja, hérna. Og hann hefur útskýrt það með eins einföldum hætti og kostur var á: Eyðsluklukka R-listans gengur nú á móti skuldaklukku ungra sjálfstæðismanna í Kringlunni. Nú fer það því ekki lengur á milli mála að skuldirnar urðu til vegna eyðslu. Brillijant. Og ekki nóg með það: Eyðslan er þrefalt meiri en skuldasöfnunin. Eyðsluklukkan gengur þrefalt hraðar en skuldaklukkan. R-listinn er því ekki aðeins að eyða því sem hann tekur að láni heldur meiru, þrefalt meiru, til. Þetta skýrir skatta- og gjaldahækkanir á borgarbúa. Allt skýrt með eyðsluklukkunni. Tær snilld. Því má reyndar halda til haga að stór hluti af „fjárfestingum“ R-listans er einfaldlega hækkun á fasteignamati og gott að vita til þess þegar greitt er af skuldunum að Perlan hefur hækkað í verði í bókhaldi R-listans þótt enginn sjái sér fært að kaupa hana. Ekki má heldur gleyma göngustígunum sem stigið hafa hratt í verði að undanförnu. Og nýju höfuðstöðvar Orkuveitunnar, bara að það hefði verið til landrými og lóðir í borginni fyrir stærra hús, þá hefðu eignirnar aukist enn meir en að vísu einnig skuldirnar og afborganir af þeim.
Þriðjudagur 30. apríl 2002
120. tbl. 6. árg.