Laugardagur 20. apríl 2002

110. tbl. 6. árg.

Nútímalegir jafnaðarmenn á Bretlandseyjum hafa beitt sígildum aðferðum vinstri manna til að stýra lífi eyjarskeggja með sem nákvæmustum hætti. Á dögunum tilkynntu þeir að héðan í frá skyldi skattgreiðendum fá að blæða enn meira en hingað til. Það sem vinstri menn „nútímalegir“ jafnt sem aðrir eru ekki síður duglegir við er að íþyngja almenningi með óbeinum hætti, þ.e. með alls kyns reglum, höftum, boðum og bönnum. Hér á landi þekkja menn ágætlega dæmi um þetta frá stjórn R-listans í Reykjavík, en þar hafa skattar einmitt verið hækkaðir og stjórnsýslan þanin út.

Í Bretlandi kvarta talsmenn atvinnulífsins sáran undan Anthony Blair og félögum hans, en þeir hafa aukið óbeinar byrðar á atvinnulífið mikið. „Byrðabarómeter“ Breska verslunarráðsins bendir til að kostnaður atvinnulífsins vegna reglna ríkisins hafi numið 15 milljörðum sterlingspunda frá árinu 1997, eða sem nemur ríflega 2.000.000.000.000 króna tvö þúsund milljörðum króna og munar flesta um minna. Reglubyrðin hefur aukist mikið síðustu ár og auknar byrðar þessarar uppáhaldsríkisstjórnar Össurar Skarphéðinssonar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur nema 3 milljörðum sterlingspunda á ári. Vandinn mun ekki vera ein slæm regla sem kostar stórfé, heldur almennt viðhorf þeirra sem halda um stjórnvölinn sem verður til þess að sífellt er verið að bæta við íþyngjandi reglum um hitt og þetta. Og vafalaust er viðmótið alltaf hið sama, fólki finnst ekki muna miklu um eina reglu enn og enginn nennir að spyrna við fótum.