Föstudagur 19. apríl 2002

109. tbl. 6. árg.

Nú hefur ríkisstjórn Verkamannaflokksins í Bretlandi boðað nýjar skattahækkanir samhliða fjárlagafrumvarpi sínu. Kemur það í sjálfu sér ekki óvart í ljósi reynslunnar, því frá því Tony Blair og flokkur hans komust til valda árið 1997 hafa skattar stórhækkað þar í landi, bæði í formi hækkunar beinna skatta og óbeinna. Sérstaklega hefur stjórn hans verið fundvís á leiðir til auka álögur á landsmenn í formi margvíslegra gjaldahækkana utan sjálfs skattkerfisins, sem oft eru lítið áberandi en leiða þó af sér þyngri byrðar bæði á fyrirtæki og hinn almenna borgara. Hefur þessi skattheimta bætt nýju hugtaki í orðaforða þeirra sem um stjórnmál fjalla í Bretlandi, en það er „stealth taxes“ sem á íslensku má kalla laumuskatta.

Nú er það tæpast frásagnarvert í sjálfu sér að vinstri stjórn á borð við þá bresku auki skattheimtu. Það sem vekur athygli er hins vegar að skattahækkanir Blairs og félaga ganga þvert á yfirlýsingar þeirra fyrir tvennar kosningar, þar sem þeir boðuðu bætta velferðarþjónustu án skattahækkana. Þeir gengu svo langt að fullyrða, að markmiðum þeirra um bætt heilbrigðiskerfi, skólakerfi og félagslega aðstoð yrði náð án þess að skattheimta ykist. Þetta var kjarninn í hinni svokölluðu „þriðju leið“ og „nútímalega jafnaðarstefnu“, sem kratar um allan hinn vestræna heim hafa tekið upp og boðað af ákafa á undanförnum árum.

Íslenskir kratar hafa vart mátt vatni halda yfir þessari snilldarlegu stefnu Blair og félaga og hafa hvað eftir annað reynt að setja samansem merki milli sín og þessara átrúnaðargoða sinna. Hafa þeir fagnað sigrum Verkamannaflokksins eins og þeir væru þeirra eigin og verið svo uppteknir við að heyja kosningabaráttu fyrir Blair að þeir hafa alveg látið undir höfuð leggjast að afla flokki sínum, svokallaðri Samfylkingu, stuðnings meðal íslenskra kjósenda. Nú er hins vegar aðeins rúmt ár til alþingiskosninga hér á landi og verður fróðlegt að sjá hvort Samfylkingarmenn muni þá tileinka sér aðferðir þriðju leiðarinnar og Tonys Blairs, þe. að lofa fyrir kosningar að skattar hækki ekki en auka svo álögur á fólk og fyrirtæki með fullum þunga að kosningum loknum. R-listinn hefur gert út með þessum hætti og bara aflað vel.

Þess má að lokum geta, að einn helsti talsmaður Blairs hér á landi, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, skrifaði fyrir fáum dögum grein í DV þar sem hann kvartaði sáran yfir því að forystumenn ríkisstjórnarflokkanna kysu fremur að fara einir í sjónvarpsviðtöl til að skýra stefnu sína og sjónarmið heldur en að taka þátt í málfundaæfingum með Össuri Skarphéðinssyni og Ögmundi Jónassyni. Gekk hann svo langt að fullyrða að með þessu væri verið að lítilsvirða lýðræðið í landinu. Nefndum blaðafulltrúa breska Verkamannaflokksins til upplýsingar má geta þess að Tony Blair hefur einmitt legið undir töluverðu ámæli frá stjórnarandstöðunni og fjölmiðlamönnum fyrir að neita að koma fram í sjónvarpi nema í „drottningarviðtölum“ þar sem enginn er til andsvara. Hefur Blair reyndar gengið lengra, og velur vandlega úr þá þætti sem hann kemur fram í, forðast eins og heitan eldinn yfirheyrslur reyndra fréttahauka í raunverulegum fréttaskýringaþáttum en kýs fremur að koma fram á peysu og inniskóm til að tala um fjölskyldu sína, fótbolta, áhugaverðar bækur, útivist og ferðalög til framandi landa eða var það „ferðalög, líkamsrækt, jazzballett og lestur góðra bóka“?