Ísíðustu viku andmælti Vefþjóðviljinn þeim hugmyndum sem nú eru uppi um að ríkið ábyrgist lán sem fyrirtæki nokkurt myndi taka í því skyni að koma hér upp fullkominni lyfjaþróunaraðstöðu. Hefur sú afstaða blaðsins eflaust komið fáum lesendum á óvart enda lítinn stuðning að hafa hér við ríkisafskipti. En fleiri hafa andmælt þessum fyrirætlunum og einna hæst hefur látið alþingismaðurinn Pétur Blöndal sem ekki hefur sparað stóru orðin. Hann hefur ekki dregið af sér í umræðum á Alþingi og í sjónvarpsþættinum „Silfri Egils“ í gær ítrekaði hann afstöðu sína og var hinn harðasti. Hann taldi þetta mál gríðarlega stórt enda gæti, ef allt færi á allra versta veg, umrædd ríkisábyrgð kostað skattgreiðendur stórfé í fyllingu tímans. Það var alveg rétt hjá þingmanninum.
Pétur var búinn að reikna út að ef ríkið þyrfti að greiða ábyrgðina út að öllu leyti þá næmi sú greiðsla allt að 70.000 krónum á hvern landsmann. Og að því vildi hann ekki standa. Sem kannski er ekki von. En því miður hefur þessi ágæti þingmaður ekki ávallt verið eins harður á útgjaldabremsunni og í „Silfrinu“ í gær. Hann var til dæmis einn ákafasti stuðningsmaður margnefndra laga um fæðingarorlof sem munu kosta skattgreiðendur milljarða króna á hverju einasta ári allt til eilífðar. Sennilega munu fæðingarorlofslögin – sem Pétur Blöndal samþykkti með breitt bros á vör – kosta skattgreiðendur meira á hverju kjörtímabili heldur en öll sú hugsanlega ríkisábyrgð sem Pétur gat alls ekki stutt. Og þar er ekkert kannski. Fæðingarorlofslögin munu kosta þessa milljarða sína á hverju einasta ári og þar fæst enginn miskunn.
Pétur Blöndal má eiga það að hann tekur oft skynsamlega afstöðu til mála og má sérstaklega nefna það að í umrættum sjónvarpsþætti í gær boðaði hann andstöðu sína við hugsanlegt ríkistónlistarhús, sem af og til hefur verið nefnt hér í blaðinu. Sjálfsagt er að virða það við hann þó einnig sé óhætt að láta í ljós þá skoðun að Pétur Blöndal sé ekki endilega sá riddari frjálsræðisins sem hann sjálfur og þáttastjórnandinn reyndu að sýna hann í gær. Pétur og stjórnandi þáttarins virtust á einu máli um að Pétur væri eiginlega einn á móti öllum vondu köllunum og um tíma virtist Pétur einna helst á því að hann hefði höndlað sannleikann en flestir ef ekki allir samflokksmenn hans ættu að segja sig úr flokki sínum hið snarasta. En þó að sanktipétur hafi verið hinn heilagasti þegar hann lýsti því hvernig hann stæði „einn á báti“ gegn forræðishyggjunni þá vill Vefþjóðviljinn í fullri vinsemd láta þess getið að þingmanninum kynni að vera óhætt að fara varlega í þær lýsingar. Því eins og margir aðrir þá hefur Pétur Blöndal átt bæði góða og mjög slæma spretti á Alþingi. Það var rétt hjá honum að gagnrýna hugmyndir um ríkisábyrgð til lyfjaþróunar og það verður hárrétt hjá honum ef hann leggst gegn ríkistónlistarhúss-kröfunum svo dæmi sé tekið. Og það var afar rangt hjá honum að leggjast á árarnar með kredduliðinu sem barði fæðingarorlofslögin, mestu útgjaldaaukningu síðustu áratuga, í gegn og það var rangt hjá honum að standa með hinum forræðishyggjumönnunum og greiða atkvæði gegn lögleyfingu hnefaleika á dögunum, svo önnur dæmi séu tekin.