Föstudagur 12. apríl 2002

102. tbl. 6. árg.

Hvað er langt síðan menn voru móðir og másandi að reyna að skera niður útgjöld ríkisins? Fjórir mánuðir, er það ekki? Muna menn ekki enn eftir látunum? Ríkið þurfti nauðsynlega að skera niður og um tíma stóð meira að segja til að fresta nýjum og útgjaldafrekum ákvæðum nýrra fæðingarorlofslaga. Á síðustu stundu var því miður hætt við það en óhjákvæmilegum sparnaði náð með öðrum hætti. Síðan eru aðeins liðnir fjórir mánuðir og níu dagar en engu að síður er eins og til séu þeir sem hafi bara gjörsamlega gleymt þessu öllu saman. Eða hvað á fólk að halda? Í gær mættu fjórir ólánlegir stjórnmálamenn, flestir prúðbúnir, á æfingu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og skrifuðu þar undir „samkomulag“ þess efnis að íslenska ríkið og sveitarfélagið Reykjavíkurborg myndu á kostnað skattgreiðenda sinna reisa höll undir áðurnefnda hljómsveit og skylda starfsemi. Og í þessa höll skuli eytt sex þúsund milljónum króna af skattfé – og var þar aðeins átt við byggingu hallarinnar, en svo þarf auðvitað að reka húsið „af listrænum metnaði“ svo lengi sem land byggist.

Þetta er nú meira liðið. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Tómas Ingi Olrich og skörungarnir Sturla Böðvarsson og Geir H. Haarde telja sem sagt að hið opinbera, ríkið og borgin, eigi lausa 6 milljarða króna sem réttlætanlegt sé að nota í umrædda tónlistarhöll. Og að það eigi frekar að nota þessa milljarða í höllina en nokkuð annað; það má til dæmis ekki lækka álögur á almenning, borgarbúa sem aðra, um þessa upphæð. Það má ekki heldur nota þetta fé til dæmis til þess að vinna á biðlistum í heilbrigðismálum – eða til að grynnka á öllum biðlistunum hjá Reykjavíkurborg sem hafa vaxið og dafnað alveg frá því R-listinn lofaði því hátíðlega í síðustu kosningum að eyða þeim með öllu. Nei, þessir stjórnmálamenn telja rétt og sjálfsagt að borgin eyði þrjú þúsund milljónum króna í þetta eina hús og að ríkið eyði líka þrjú þúsund milljónum króna í þetta sama hús.

Allir menn greiða skatta. Að vísu eru það aðeins sumir sem greiða tekjuskatt – og reyndar lítill hluti landsmanna ef bætur, svo sem vaxtabætur og barnabætur, eru dregnar frá – en með því er aðeins hálf skattasagan sögð því allir menn, sem á annað borð kaupa vörur eða þjónustu þurfa að greiða virðisaukaskatt. Þó menn kunni að vera illa staddir fjárhagslega og þurfa að neita sér um margt, þá er það samt svo að allir kaupa sér eitthvað, þó ekki sé nema matvæli. Allir þessir menn eru skattlagðir. Tómlistarhúsið væntanlega verður fjármagnað með nauðungargjöldum sem tekin verða af hverjum einasta manni. Sex þúsund milljónir króna, bara til þess að byggja þetta eina hús, þakka ykkur kærlega fyrir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Tómas Ingi Olrich, Sturla Böðvarsson og Geir Hilmar Haarde.

Undanfarna daga hefur Morgunblaðið birt hjartnæmar greinar um „fátækt fólk á Íslandi“ og vitnað svo í þessar eigin greinar í leiðurum sínum. Það fátæka fólk sem þar er fjallað um, fátækt þess er aukin með sköttum hins opinbera. Þetta fátæka fólk borgar virðisaukaskatt í hvert sinn sem það fer út í búð og kaupir sér þær vörur sem það þarfnast. Það mætti með beinum hætti bæta kjör þessa fólks með því að stjórnmálamenn kæmu sér saman um að lækka innheimtan virðisaukaskatt um þrjá milljarða króna og að Reykavíkurborg lækkaði innheimt útsvör eða aðrar álögur sínar um eins og þrjá milljarða króna. Ef að fólk eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Tómas Ingi Olrich, Sturla Böðvarsson og Geir Hilmar Haarde kæmu sér saman um slíkar aðgerðir þá myndu lífskjör þessa fólks batna. En það kemur auðvitað ekki til mála. Það er mikilvægara að reisa sexþúsundmilljón króna tónlistarhöll. Og Morgunblaðið mun alveg örugglega taka sér stutta hvíld frá áhyggjum sínum af lífskjörum fátæka fólksins til þess að fagna því að „loksins hafi verið tekið af skarið“ um byggingu tónlistarhallarinnar fyrir fína fólkið í Reykjavík.