Þriðjudagur 9. apríl 2002

99. tbl. 6. árg.

Stuðningur við evruna fer ört minnkandi í Svíþjóð eftir að hann hafði aukist nokkuð fyrst eftir að evruseðlum og -mynt var dreift um síðustu áramót. Þessi staðreynd hefur farið fram hjá ríkisstyrktum áróðursmönnum Evrópusambandsins, en svo ánægjulega vill til að þeir voru undantekningarlaust afar fundvísir á þær fréttir, sem sögðu af auknum stuðningi upp úr áramótum, þegar glansinn var enn á evrópska klinkinu. Nú er öldin önnur og áróðursmennirnir þagnaðir. Í sænska dagblaðinu Dagens Nyheter segir frá því að samkvæmt nýrri skoðanakönnun hafi stuðningur við evruna minnkað um 4% á einum mánuði og andstaða við hana aukist um 6% á sama tíma. 55% stuðningur fyrir mánuði er því orðinn að 51% nú, og þeim sem hafna evru hefur fjölgað úr 40% í 46% nú. Samkvæmt annarri nýrri könnun sem Dagens Nyheter segir einnig frá, hefur stuðningurinn líka farið minnkandi, en þar eru óákveðnir mun fleiri og er talið að það kunni að stafa af ólíkt orðuðum spurningum. Sú könnun sýnir að stuðningur við evru er vel innan við helmingur, eða 43%, og andstaðan er 35%. 2% segjast myndu skila auðu og 16% eru óákveðin.

Markmið gengisskráningarvogar íslensku krónunnar er „að hún endurspegli ætíð eins vel og kostur er samsetningu utanríkisviðskipta þjóðarinnar, bæði vöru- og þjónustuviðskipta“, eins og fram kemur í upplýsingum Seðlabanka Íslands. Ólíkt því sem lygilega oft er haldið fram í opinberum umræðum er evran langt frá því að vera ráðandi í utanríkisviðskiptum Íslands, og þess vegna vegur hún innan við þriðjung af íslensku gengisvoginni, sem er litlu meira vægi en Bandaríkin hafa ein og sér. Vægi Bandaríkjanna í viðskiptum við Ísland er 27,0% en evrusvæðisins alls 31,7%. Viðskiptin við Bandaríkin aukast hraðar en viðskiptin við evrusvæðið, og með sama áframhaldi mun Bandaríkjadalur einn vega þyngra en evran í utanríkisviðskiptum okkar. Vegna hinnar tiltölulega veiku stöðu evrunnar í utanríkisviðskiptum landsins hafa andstæðingar fullveldis Íslands bundið miklar vonir við að evrusvæðið stækki með aðild Breta, Dana og Svía. Það telja þeir að myndi verða vatn á myllu sína og að eftir þá stækkun þyrðu Íslendingar ekki að standa utan við Evrópusambandið. Fátt bendir nú til að þeim verði að ósk sinni um fullveldisafsal á næstunni.