Mánudagur 8. apríl 2002

98. tbl. 6. árg.

VVGLOGOIDinstrigrænir eru að sögn, ekki síst eigin, miklir hugsjónamenn. Þeir hafa þá ímynd að þeir haggist ekki þótt svonefnt almenningsálit sé þeim andsnúið. Má raunar segja að þetta hafi gefist bærilega því andstætt Samfylkingunni, sem hefur elt almenningsálitið í hverju máli með tilheyrandi fylgistapi, hefur fylgi vinstrigrænna verið á nokkuð jafnri uppleið frá kosningum – þ.e.a.s. samkvæmt skoðanakönnunum. En vinstrigrænir hafa einmitt lengst af gefið lítið fyrir niðurstöður skoðanakannanna, eða svo hafa þeir a.m.k. sagt.

Allt þar til í síðustu viku er þeir kynntu niðurstöður skoðanakönnunar um fylgi manna við mismunandi eignarhald á Landsímanum. Niðurstaða könnunarinnar var í stuttu máli háleitum hugsjónum vinstrigrænna um ævarandi pólitíska stjórn á Landssímanum í hag. Samkvæmt könnuninni vill 61% þjóðarinnar að Landssíminn verði áfram í eigu hins opinbera og lúti þar með áfram pólitískri stjórn en 39% vilja einkavæða. Aðeins í aldurshópnum 24 til 35 ára var meirihlutafylgi við sölu Landssímans.

Og vinstrigrænir sem láta ekki sveiflur í skoðanakönnunum raska ró sinni boðuðu til mikils blaðamannafundar til að kynna mælinguna á almenningsálitinu sem var gerð að þeirra beiðni og á reikning þingflokks þeirra (les skattgreiðenda). Í frásögn mbl.is af þessum viðburði kom fram að þingmenn VG teldu niðurstöðu könnunarinnar „mjög afgerandi“. Og Jón Bjarnason þingmaður VG mun hafa lýst því yfir að „könnunin sýndi að þjóðin væri skynsöm“.

Nú vill Vef-Þjóðviljinn ekki halda því fram að hann eigi sem fjölmiðill rétt á því í nafni „almennings“ að þingflokkur VG birti niðurstöður allra kannana sem hann hefur látið gera á almenningsálitinu. Enda verður ekki farið fram á það hér. Það nægir að vita að þingflokkur VG boðar til blaðamannafundar ef hann telur mælingu á almenningsálitinu sér í hag. Þá er niðurstaðan afgerandi, annars ekki. Þá er þjóðin skynsöm, annars ekki.

Það hefur sumsé gerst einu sinni á kjörtímabilinu. Nema Vinstri-grænir hafi aldrei gert skoðanakönnun áður. Eða hvað? Dettur nokkrum manni í hug að þeir hefðu ekki efnt til blaðamannafundar ef niðurstaðan hefði orðið þveröfug?