Þetta er ekki allt grábölvað. Þó að Vefþjóðviljinn sjái oft ástæðu til þess amast við því sem kemur frá hinu opinbera; hvort sem það eru ný lög, nýjar reglur eða áform um nýjar framkvæmdir, þá er það sem betur fer ekki svo að allt sé slæmt sem frá stjórnvöldum kemur. Nú nýlega hefur til dæmis mikil og ánægjuleg breyting orðið í tveimur málaflokkum. Málin eru svo sem ekki stór í sjálfum sér og breytingarnar hafa kannski ekki áþreifanlega þýðingu fyrir svo marga, en þær eru samt sem áður ánægjulegar, ekki síst fyrir þá viðhorfsbreytingu sem hugsanlega má lesa úr þeim. Þá er ánægjulegt fyrir frjálslynt fólk að sjá loksins árangur af langri baráttu sinni við forsjárhyggjuna.
Það er semsagt mjög ánægjulegt að ákveðið hafi verið að heimila fólki að stunda svo kallaða ólympíska hnefaleika og það var einnig mjög ánægjulegt þegar ákveðið var afnema opinbera ritskoðun kvikmynda en treysta fullorðnu fólki til að velja sér kvikmyndir eftir smekk. Og þó fæstir muni nýta sér hið nýja leyfi til þess að byrja að boxa eða horfa á þær kvikmyndir sem ríkið bannaði áður sýningar á, þá er ánægjulegt að frelsi borgaranna hafi hér verið aukið. Sérstaklega er það ánægjulegt þar sem því hefur verið haldið fram, með ýmsum rökum, að með hegðan sem þessari – sem nú er leyfð en áður var bönnuð – geti fólk hugsanlega tekið ákveðna áhættu með heilsu sína.
Nú er Vefþjóðviljinn ekki talsmaður þess að fólk leggi sig í óþarfa hættu, fari sér að voða eða valdi sér heilsutjóni af öðrum ástæðum. En fólk á hins vegar að vera sem mest sjálfráða um eigin mál. Það er óhollt að vera illa klæddur í svölu veðri. Það er óhollt að fá til lengdar of lítinn svefn. Það er óhollt að borða aldrei annan mat en pasta. Eða aldrei annað en grísakjöt. Það er óhollt að reykja tóbak. Það er óhollt að hlusta lengi á tónlist sem er hátt spiluð. Og svo mætti áfram telja. En það á ekki að banna fólki að gera þetta. Sá sem gerir eitthvað af þessu hann veit hvað hann er að gera. Það má eiginlega segja að hann sé að kaupa sér ánægju í dag sem hann hugsanlega greiðir fyrir með verri líðan á morgun eða hinn. Eða jafnvel með alls engri líðan einhvern tíma löngu seinna. En þetta á að vera hans val.
Það á ekki að skylda menn til að ganga með húfu og trefil í frosti. Það á ekki að banna mönnum að sofa skemur en fimm klukkustundir á sólarhring. Það á ekki að banna mönnum að borða eingöngu pasta. Það á ekki að banna mönnum að hafa grísakjöt í hvert mál. Það á að leyfa mönnum að reykja. Það á að leyfa mönnum að spila ACDC, Guðrúnu Á. Símonar og Catatoniu á hæsta styrk ef þeir vilja.
Og það átti hvorki að banna mönnum að boxa né að horfa á þær kvikmyndir sem einhverjir aðrir vildu sýna þeim.