Ríkisstyrkt áróðurssamtök sem styðja aðild að Evrópusambandinu munu ekki flytja frásagnir af því að meirihluti Pólverja telur pólska hagkerfið ekki búið undir þátttöku í ESB. Þau munu ekki heldur segja frá því að 59% Pólverja telji Pólland hafa farið halloka í samskiptum sínum við ESB og að einungis 5% Pólverja álíti að það sé fyrst og fremst Pólland sem njóti samskiptanna. Síðast en ekki síst þá munu áróðurssamtökin ríkisstyrktu algerlega láta undir höfuð leggjast að minnast á þá staðreynd að 62% Pólverja telja að fresta eigi aðild þar til aðstæður í efnahagsmálum verða hagstæðari, en nú er stefnt að því að Pólland gangi í ESB árið 2004.
Menn þurfa þó ekki að óttast að ríkisstyrkirnir verði ekki áfram notaðir til að greina frá því þegar unnt er að segja jákvæð tíðindi af Evrópusamrunanum, því verður sinnt af stakri trúmennsku. Þó ekki af trúmennsku við skattgreiðendur.
Ríkisstyrktir áróðursmeistarar ESB hafa ekki heldur fyrir því að benda fólki á hversu einhliða lýðræðið er þegar kemur að málefnum ESB. Nú er það til að mynda svo að Írar töldu Nice-samninginn ekki hagfelldan sér og sögðu nei við honum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Gert er ráð fyrir að kosningin verði endurtekin í haust og er nú unnið markvisst að því innan ESB og meðal stuðningsmanna þess að hræða Íra frá því að standa á sannfæringu sinni og hafna samningnum. Þar glymur við sami söngur og venjulega; Írar muni einangrast láti þeir ekki í minni pokann og segi já. En það sem er sem sagt dálítið sérstakt við einhliða lýðræði Evrópusambandsins er að ef Írar hefðu samþykkt Nice-samninginn hefði sú atkvæðagreiðsla aldrei verið endurtekin. Spurningar varðandi aðild að ESB eða um aukinn samruna innan þess eru nefnilega endurteknar aftur og aftur þar til niðurstaðan hentar Evrópusambandssinnum og eftir það gilda úrslitin um alla eilífð.
Þetta á þó vitaskuld aðeins við í þau fáu skipti sem almenningur er yfirleitt spurður, langoftast er breytingum á Evrópusambandinu neytt ofan í hann án þess að haft sé fyrir því að láta kjósa um þær. Enda hefur reynslan sýnt að þegar almenningur er spurður álits er alls óvíst að niðurstaðan verði sú sem Evrópusambandsvinirnir óska sér.