Mánudagur 18. mars 2002

77. tbl. 6. árg.

Í síðustu viku stóðu sjálfstæðismenn á Selfossi og nágrenni fyrir prófkjöri vegna væntanlegrar sveitarstjórnarkosningar. Um 900 manns kusu í prófkjörinu og verður það víst að teljast talsverð þátttaka. Jæja, þessi mikla þátttaka hefur eflaust að einhverju leyti komið til af því að tveir einstaklingar tókust á um efsta sæti framboðslistans, Ingunn Guðmundsdóttir núverandi formaður bæjarráðs og Páll Jónsson skólastjóri. Barátta þeirra varð hörð og ekki eingöngu af því að bæði væru metnaðargjörn heldur var ekki síður tekist á um stefnu bæjarins í skólamálum. Ingunn þessi hefur nefnilega farið fyrir þeim sem vilja sameina tiltekna skóla og þar með loka einum þeirra en Páll hefur leitt þá sem eru andstæðrar skoðunar og er það að sjálfsögðu óháð því að hann stýrir þeim skóla sem á að loka. Það var sem sagt hart tekist á og baráttan tvísýn.

Líkt og hér á landi hafa stjórnvöld í fyrrum Ródesíu alveg ákveðnar skoðanir á því hvað má helst prýða frambjóðendur. Þar vill svo til að sérstakur kostur þykir ef frambjóðandinn heitir Robert Mugabe.

En það voru ekki bara frambjóðendurnir sjálfir og þeirra nánustu vinir og stuðningsmenn sem beittu sér í kosningabaráttunni. Íslenska ríkið kvaddi sér hljóðs og beitti sér fyrir öðrum frambjóðandanum en gegn hinum. Nei, ekki misskilja, auðvitað var ekki komið hreint fram og sagt „Kjósiði Ingunni en ekki Pál!“ heldur var talað undir rós eins og venjulega. Sérstakt fyrirbæri, sem Vefþjóðviljinn hefur áður þurft að fjalla um, „ráðherraskipuð nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum“, tók sér fyrir hendur að auglýsa og auglýsa í tengslum við prófkjörið. Prófkjörsdaginn var til dæmis birt risaauglýsing í Morgunblaðinu þar sem lesendur voru hvattir til þess að kjósa konur til forystu. Ekki er gott að segja hversu mikil áhrif slíkar auglýsingar hafa, en nefndin hlýtur að líta svo á að þær hafi einhver áhrif, hvort sem þau felist í því að einhver sem ætlar að kjósa karlkyns frambjóðanda hætti við það, eða þá að einhver sem ekki ætlaði sér að kjósa drattist á kjörstað og kjósi einhverja konu. Hvað sem því líður, þá hlýtur að mega ætla að þessar auglýsingar hafi einhver áhrif. Og að auglýsingarnar á prófkjörsdag þeirra á Selfossi hafi haft einhver áhrif á kjósendur þar.

Vefþjóðviljinn sagði að baráttan á Selfossi hefði verið tvísýn. Það er kannski rétt að tala nákvæmar. Ingunn Guðmundsdóttir sigraði Pál Jónsson með tveggja atkvæða mun. Nú hefur Vefþjóðviljinn enga sérstaka skoðun á þessum frambjóðendum tveimur gæti reyndar best trúað að Ingunn, sú sem vill loka skóla Páls sé skárri, en hér skiptir það ekki máli. Hér er aðalatriðið allt annað. Eða hvað? Sjá menn kannski ekki hversu afskaplega ógeðfellt það er að ríkið beiti sér fyrir einum frambjóðanda og þar með gegn öðrum með þessum hætti? Jafnvel þær sem mest þvaðra um „aukinn hlut kvenna í stjórnmálum“, geta þær aldrei áttað sig á því að öllum þessum almennu slagorðum þeirra er í raun beint að lifandi fólki sem ekkert hefur með það að gera hvernig kynjahlutföll hafa verið í einstökum starfsgreinum á Íslandi undanfarna áratugi? Með hvaða rétti er ríkisvaldinu beint gegn þessum Páli Jónssyni og hann felldur í prófkjöri á Selfossi? Af hverju á einhver opinber meinlokunefnd um „aukinn hlut kvenna í stjórnmálum“ að verða til þess að tiltekin stefna í skólamálum verði ríkjandi á Selfossi?

Og þessi söngur um „aukinn hlut kvenna“ í hinu og þessu er að verða ofboðslega þreytandi. Vefþjóðviljinn vill endilega auka hlut frjálslyndra kvenna í stjórnmálum og þar með minnka hlut stjórnlyndra karlmanna þar. En blaðið vill ekki síður auka hlut frjálslyndra karlmanna í stjórnmálum og minnka þar hlut stjórnlyndra kvenna. Einkaaðilar, eins og Vefþjóðviljinn, geta nefnilega alveg leyft sér að hafa prívat skoðanir á slíkum málum. Opinber aðili, ríki og sveitarfélög, hafa hins vegar enga heimild til þess. Hið opinbera verður að láta sér nægja að tryggja að allir menn, karlar og konur, hafi rétt á því að gefa kost á sér til embætta, sækja um störf, semja um laun og svo framvegis. Það er hins vegar algerlega óréttlætanlegt að beita opinberu valdi til þess að hafa áhrif á niðurstöður kosninga, starfsráðninga eða launaákvarðana. Þeir og þær sem kunna að hafa einhverja draumsýn um hlutfall karla og kvenna í störfum og embættum eða einhverja álíka óskir um launakjör fólks, verða að eiga þær óskir við sig sjálf. Það má einfaldlega ekki beita opinberu valdi til þess að ná slíkum markmiðum fram.

Sorrí.