Föstudagur 15. mars 2002

74. tbl. 6. árg.

Eins og menn hafa orðið svo mjög varir við að undanförnu hafa nútíminn og jafnaðarmenn runnið saman í eitt. Svo oft telja jafnaðarmenn sig þurfa að taka það fram að þeir séu „nútímalegir“ að menn hrökkva við þegar aðeins er minnst á jafnaðarmenn. En jafnaðarmenn eiga ekki aðeins nútímann með húð og hári. Þeir eiga eðlilega „mikinn hljómgrunn“ og fara fram með „kröfur fólksins“ að „kröfu almennings“ sem „almenningur á heimtingu“ á. Að minnsta kosti.

En sumir þeirra eru hógværari en aðrir. Stefán Jón Hafstein lýsti því til að mynda í sjónvarpsþættinum Silfri Egils á Skjá 1 á sunnudaginn að hann vissi að hann væri svona almennt „að tala fyrir hönd allstórs hóps þarna úti“ enda hefði hann „fundið mikinn samhljóm við það sem [hann] er að segja“. Hann hefur þannig ekki enn fengið sama umboð og hinir nútímalegu jafnaðarmennirnir sem hafa óskorað umboð til kröfugerða í nafni almennings. Hann gerir sér allstóran hóp að góðu – enn sem komið er.

Í þættinum var Stefán Jón hins vegar beðinn um álit á því hvað „eigi að gera við nektardansstaðina“. Nú finnst sjálfsagt ýmsum verra að sjá annað fólk klæðalaust á veitingahúsum. Ætli séu ekki vel á annað hundrað veitingastaðir í borginni sem þeir geta sótt án þess að eiga það á hættu að einhver svipti sig klæðum? Hina staðina má telja á fingrum sér og þangað er enginn neyddur en margir, karlar og konur, sækja þá engu að síður og greiða jafnvel aðgangseyri. Hópur fólks hefur atvinnu sína af rekstri þessara staða þótt hann sé vafalaust ekki jafnstór og „allstóri hópurinn“ sem Stefán Jón Hafstein hefur að baki sér. Það vafðist ekki fyrir Stefáni Jóni Hafstein að svara þessari einkennilegu spurningu þótt hann eigi að sögn enn nokkuð í umboð alls almennings. Já „hvað á að gera við nektardansstaðina“? „Það á að kaffæra þá í skriffinnsku og eftirliti og hrekja þá smátt og smátt út í jaðar samfélagsins þar sem þessir ógæfumenn sem vilja horfa á þessar stelpur geta verið í friði fyrir okkur hinum og við í friði fyrir þeim.“

Þar hafa menn það. Það á ekki bara að banna staðina eða taka fyrir frekari fjölgun þeirra, nei kvelja þá smátt og smátt til dauða. Taka lífsviðurværið af eigendum og starfsmönnum veitingastaðanna með því að kaffæra þá í skriffinnsku! Og ef þeir tóra eiga þeir að vera á „jaðri samfélagsins“. Hvar er þessi „jaðar“ mannlegrar tilveru annars? Það væri gaman að fá svar við því. Er það eitthvað tiltekið hverfi í borginni? Önnur sveitarfélög? Og ætli „þessum stelpum“ sem koma hingað til lands til að vinna fyrir sér með nektardansi þætti betra að dansa á „jaðri samfélagsins“ en á veitingastöðum í miðborginni? Og hvað með karlkyns dansara sem af og til koma hingað til lands og dansa nektardans, íslenskum konum til gríðarlegrar ánægju? Ætli þeir eigi líka að vera á jaðrinum eða ætli vinstri mönnum finnist nektardans bara „þrælahald“ þegar dansarinn er kona?

Hvernig verða svör mannsins þegar hann hefur fengið umboð nútímalega jafnaðarmannsins, þ.e.a.s. alls almennings, ef hann lætur svona ummæli flakka í dag?