Laugardagur 9. mars 2002

68. tbl. 6. árg.

Borgarstjóri hefur meiri áhyggjur af trjám í húsagörðum en rétti fólks til að ráðstafa eigum sínum og borgarstjóri hefur litla trú á að fólk hafi áhuga á gömlum og fallegum trjám. Þetta má hvort tveggja ráða af umræðum í borgarstjórn þar sem tillaga lá fyrir um friðun trjáa og greint var frá í Morgunblaðinu í vikunni. Tillagan fól reyndar í sér rýmkun á fyrri reglu, þ.e. með nýju reglunni átti að friða eldri og hærri tré en áður. Þetta myndi þýða að sumir trjáeigendur hefðu sloppið undan friðuninni og fengið ráðstöfunarrétt yfir eign sinni, bæði trénu og garðinum sem það er í. Það væri út af fyrir sig jákvæð breyting, en hugmynd að enn betra fyrirkomulagi kom fram á fundinum.

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi lagði til að umræddar reglur yrðu með öllu felldar úr gildi og borgurunum sjálfum falið að velja hvaða tré skuli standa og hvernig garðar þeirra skuli líta út. „Taldi hann að höfða ætti til fegurðarskyns og ábyrgðartilfinningar íbúanna frekar en að hafa reglur sem þessar,“ segir í frétt Morgunblaðsins, og þar kemur einnig fram að borgarfulltrúinn bendir á að það sé ekki eins og allir myndu rjúka út í garð með hjólsagir og axir yrðu reglurnar afnumdar.

Þetta er vafalítið rétt hjá borgarfulltrúanum, menn myndu ekki í æðiskasti ganga á öll elstu og fallegustu tré borgarinnar og saga þau niður um leið og færi gæfist, enda ættu þeir sem reglurnar setja að hafa það í huga að það voru borgararnir sjálfir sem plöntuðu trjánum til að fegra umhverfi sitt. Það þarf engar reglur til að menn vilji frekar fallegan garð en ljótan. Aðalatriðið er þó auðvitað að borgararnir velji sjálfir hvaða tré þeir kjósa að vernda og hver þeirra þeir kjósa að fella. Staðreyndin er nefnilega sú að ýmsar reglur á borð við friðunarreglu trjáa fela í sér margvíslegan beinan og óbeinan kostnað fyrir borgarana. Og ekki er borgin tilbúin að greiða mönnum bætur vegna friðunar gamalla trjáa í görðum. Nei, þeir sem eru svo óheppnir að í garðinum þeirra er gamalt tré, skulu gjöra svo vel að búa þess vegna við skertan eignarrétt og hugsanlega við verri nýtingu eignar sinnar. Þetta er þess vegna nokkurs konar trjáfriðunarskattur, lagður ofaná holræsaskattinn og aðra ámóta geðfellda skatta.