Mánudagur 4. mars 2002

63. tbl. 6. árg.

Í fjárlögum segir svo frá að ríkissjóður greiði fyrir almennan rekstur á Samtökum iðnaðarins. Á þessu ári munu skattgreiðendur greiða Samtökum iðnaðarins 202,4 milljónir króna af rausnarskap sínum. Tvöhundruðogtvær milljónir króna!

Hér er sérkennileg grein á ferðinni og er þó af nógu að taka í fjárlögum. Hvers vegna hljóta Samtök iðnaðarins ríflega tvöhundruð milljónir króna í ár úr sameiginlegum sjóði landsmanna? Eru þeir sem vilja mynda samtök um iðnaðarins mál svo illa settir að þeir geti ekki fjármagnað áhugamál sín sjálfir? Í samtökunum eru mörg ágætlega stöndug fyrirtæki og ýmis starfsgreinasamtök iðnaðarins, svo sem félag gullsmiða, jarðvinnuverktaka, pípulagningarmanna og íslenskra tannsmíðaverkstæða. Víst er að ýmsir uppburðarminni menn í þjóðfélaginu halda saman félagsskap án stórkostlegra framlaga ríkisins. Hvers vegna ekki þessir gaurar? Hvers vegna eru þeir, af öllum mönnum, undir pilsfaldi ríkisins?

Og þetta er ekki bara tímabundið handahófskennt framlag ríkisins ákveðið í bríaríi við lokafgreiðslu fjárlaga á Þorláki í vetur. Samtök iðnaðarins hafa árum saman fengið vænar fúlgur úr ríkissjóði eða alls um 800 milljónir króna á síðustu 5 árum. Sjálft iðnaðarráðuneytið er ekki hálfdrættingur á við Samtök iðnaðarins en rekstur aðalskrifstofu ráðuneytisins kostar um 80 milljónir króna á þessu ári. Skýringin á þessum einstæða árangri Samtaka iðnaðarins við fjáröflun úr opinberum sjóðum er að samkvæmt lögum ber að leggja 0,08% skatt á öll iðnfyrirtæki og rennur skatturinn til Samtaka iðnaðarins. Þá kann að vera að einhver spyrji hvort ekki sé bara eðlilegt að iðnfyrirtæki fjármagni rekstur á samtökum iðaðarins. Jú, líklega stendur það þeim nær en til dæmis kennurum og hásetum. En hvað kemur það ríkissjóði við? Hvers vegna innheimta Samtök iðnaðarins ekki þessi gjöld beint af fyrirtækjunum ef þau eru svona sjálfsögð og eðlileg? Og svo er hitt kannski líka til að einhver bakari eða hárgreiðslukona kæri sig ekki um að styrkja þessi samtök – eða öllu heldur vilji ekki rukka viðskiptavini sína um þennan skatt því þessi skattur á fyrirtæki er ekki frábrugðin öðrum sköttum á atvinnustarfsemi að því leyti að á endanum eru það neytendur sem greiða hann.

Rakari sem vill ekki vera í Samtökum iðnaðarins þarf eins og staðan er nú engu að síður að gjalda samtökunum þennan skatt. Því meira sem rakarinn rakar því meira raka Samtök iðnaðarins saman af rakstrinum.
Það er rakið óréttlæti.