Látum vera að Flosi Eiríksson hafi verið að segja sig úr stjórn Landssímans. Það er prófkjör hjá Samfylkingunni í Kópavogi á morgun og „húsasmiður“ er þá heppilegra starfsheiti en „stjórnarmaður í Landssíma Íslands“. Nú og svo hefur hann viljað skilja sig frá fyrirtækinu og öðrum stjórnarmönnum, sýna, svona rétt fyrir prófkjörið að það sé töggur í sér. Allt í lagi með það. En hvað er með þessa Sigrúnu Benediktsdóttur? Á mánudagskvöldið lýsir hún fullu trausti á stjórnarformanninn, telur hann fyllilega hafa unnið til allra greiðslna frá fyrirtækinu og skrifar að fullu undir samþykkt stjórnar fyrirtækisins um öll þessi málefni. Og á miðvikudaginn segir hún sig úr stjórninni og hvetur alla aðra til að gera slíkt hið sama. Hvað hafði gerst þar á milli og af hverju eru stjórnar- og meira að segja líka varastjórnarmenn Samfylkingarinnar allir sem einn að segja sig úr þessari stjórn?
Þeir segja að stjórnin njóti ekki „trúnaðar þjóðarinnar“. Ekki fylgir reyndar sögunni hvernig það traust er metið frá degi til dags, enda sennilega erfitt að fullyrða að íslenska þjóðin treysti eða treysti ekki stjórnum hinna og þessara fyrirtækja. Hitt þarf enginn að efast um, að margir eru eflaust ósáttir við að stjórnarformaður Landssímans seldi fyrirtækinu ýmsa sérfræðiþjónustu án þess að öðrum stjórnarmönnum væri kunnugt um það. En hvernig getur það rúið þessa aðra stjórnarmenn – eða varamenn þeirra! – „trausti þjóðarinnar“? Hefur nokkur maður kennt Flosa Eiríkssyni um greiðslur til Friðriks Pálssonar? Hefur nokkur maður sagt að þessi Sigrún Benediktsdóttir hafi fyrirgert trausti og trúnaði landsmanna? Og hvað með þessa Önnu Kristínu Gunnarsdóttur sem sat norður á Sauðárkróki og sagði þar af sér varamannssæti í stjórninni „af augljósum ástæðum“ eins og það var orðað í tilkynningu frá Samfylkingunni?
Nei, er þetta ekki tóm sýndarmennska, fyrirskipuð af forystu Samfylkingarinnar, í einni tilrauninni enn til að skora pólitísk stig? Eða hvað á að halda um stjórnarmanninn sem lýsti fullu trausti á mánudagskvöldið en sagði af sér á miðvikudagsmorguninn? Á mánudagskvöldið lá alveg fyrir að samgönguráðherra hefur af og til skipt sér af fyrirtækinu svo varla er það hin raunverulega ástæða. Enda hefur varla nokkrum manni dottið í hug að samgönguráðherra – maðurinn til skamms tíma með eina hlutabréf fyrirtækisins, maðurinn sem næstum því er gangandi hluthafafundur – hefði ekkert um þetta fyrirtæki að segja og enga skoðun á helstu málefnum þess. Er þetta ekki bara ein sýndarmennskan enn í fyrirspurnarflokknum, þessum flokki sem alla daga stendur stórorður í ræðustóli Alþingis og bregst við öllu með því að heimta skýrslur, rannsóknarnefndir og helst afsögn allra helstu andstæðinga sinna.