Á þessum síðum hefur oft verið bent á dæmi þess að þingmenn séu of margir og þingið sé jafnvel að störfum á hverju ári þegar færri þingmenn annað hvert ár gætu vel dugað eins og á árum áður. Um þetta offramboð á þingmönnum og starfstíma Alþingis má draga fram ýmis sönnunargögn. Nýlega var beint til heilbrigðisráðherra fyrirspurn af því tagi að ekki verður annað séð en að um froðusnakk hafi verið að ræða. Viðtökur annarra þingmanna voru sama marki brenndar. Fyrirspyrjandinn var Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og lék henni hugur á vita hvort ráðherrann teldi tímabært að setja lög sem bæði bönnuðu umskurð kvenna og lýstu viðurlögum við slíkum verknaði. Í fyrirspurn sinni lýsti þingmaðurinn svo þeirri andstyggulegu limlestingu sem þetta athæfi er og vísað til ýmissa þróunarlanda þar sem þetta viðgengst en einnig vísaði hún til Vesturveldanna þar sem umskurður kvenna ku vera framkvæmdur í trássi við lög. Þingmanninum finnst vert að taka til athugunar hvort ekki eigi banna umskurð kvenna með lögum.
Nú er það bara svo, eins og ráðherrann lýsti í svari sínu, að hvers kyns limlestingar, þar með talinn umskurður kvenna, eru bannaðar hér á landi og liggja við því ýmiss konar refsingar allt eftir atvikum. Þetta ætti hverjum manni að vera ljóst en þó sérstaklega þingmönnum sem hafa sett landslýð almenn hegningarlög. Þess vegna hefði maður haldið að svar ráðherrans við fyrirspurn Ástu Ragnheiðar hefði getað lokið þessari umræðu á Alþingi. En því var ekki að heilsa. Hvorki fleiri né færri en fimm þingmenn töldu rétt að ræða þetta mál frekar með tilliti til þess hvort þörf væri á nýrri lagasetningu og alls voru fluttar níu gagnmerkar ræður um þetta mál. Almenn hegningarlög eru víst dauður bókstafur í augum þingmanna.
Það er varla óhætt að nefna það hér, málið gæti ratað í ræðustól Alþingis, en í mjög mörgum löndum er það venja að höggva hendur af þeim sem uppvísir verða um þjófnað. Nú er það hvergi með beinum hætti bannað á Íslandi að höggva hendur af þjófum. Það hefur þó ekki enn borið á áhyggjum þingmanna vegna þessa. Kannski af því að umskurður kvenna er heitara efni í dag; eins og kom fram í umræðunum í síðustu viku þá hefur Björg Siv Juhlin Friðleifsdóttir jú lesið metsölubók um efnið.