Miðvikudagur 20. febrúar 2002

51. tbl. 6. árg.

Menn eru dálítið í því að svindla. Ekki allir auðvitað, og ekki mikið. En sumir svindla og einstaka svindlari er gómaður með buxurnar á hælunum. Sennilega sleppa flestir svindlarar þó samt; hvort sem það er af því að þeir séu svona klókir eða sökum þess að enginn hefur fyrir því að eltast við þá. Á Englandi velta menn nú þessum hlutum fyrir sér eftir að Louise nokkur Ellman kom fram í sjónvarpi og greindi frá því að sér dytti ekki í hug að tilkynna um það þó hún kæmist á snoðir um að einhver væri að svindla sér út peninga úr félagslega kerfinu þar í landi. Frú Ellman sagði til skýringar að hún hefði fullan skilning á því að fólk, sem ekki hefði sérstaklega mikið handa á milli, reyndi að bjarga sér eftir bestu getu. Nefndi hún sem dæmi að hún myndi ekki gera neitt í því þótt maður væri í senn á atvinnuleysisbótum og í annarri launaðri vinnu, til dæmis við hreingerningar.

Ellman þessi er, milli þess sem hún kveður upp dóma sem þessa í sjónvarpi, þingmaður Verkamannaflokksins fyrir Liverpool. Hefur það angrað ýmsa að kona sem starfar við það að setja borgurunum lög og reglur stæri sig af því að þykja það bara allt í lagi að menn brjóti þær sömu reglur. Blaðamaður The Mail on Sunday, hringdi í frúna og fékk þau svör að ef hún myndi tilkynna um slík lögbrot þá myndi það skaða samband hennar við illa stæða kjósendur í kjördæminu. Frú Ellman var þá spurð hvort hún myndi tilkynna lögreglu ef hún stæði kjósanda að innbroti eða skattsvikum en hún sagði að slík spurning væri bara tilgáta út í loftið um einhverjar ímyndaðar aðstæður og hún myndi ekki svara slíku. Blaðamaðurinn spurði hversu há laun þingmanninum fyndist að menn mættu hafa áður en hún færi að tilkynna um að atvinnuleysisbætur til þeirra væru kannski ekki alveg eðlilegar, en fékk sama svar.

Nei, háttvirtur þingmaður Louise Ellman hefur engan áhuga á að fara að standa almenna bótaþega að svindli. Og hver hefur það svo sem? Kannast kannski nokkur maður við það að sögð hafi verið frétt af því að maður hafi reynt að svindla sér fé út úr félagslegu kerfi? Auðvitað má vera að hvergi sé nokkur maður að svindla, það getur auðvitað verið. Kannski eru allir atvinnuleysisbótaþegar í raun bæði atvinnulausir og í örvæntingarfullri leit að vinnu. Kannski eru allir örorkubótaþegar jafn óvinnufærir og örorkumat segir til um. Kannski eru allir þeir sem ganga um með hálskraga eftir smávægilega aftanákeyrslu í raun sárþjáðir. Það er ekki rétt að útiloka neitt af þessu og hvað sem því líður þá er engin ástæða til að ætla annað en meirihluti bótaþega fari að öllum reglum og sé hvað það varðar heiðarlegur í hvívetna. En það breytir ekki því, að enginn virðist hafa neinn sérstakan áhuga á því að koma upp um neinn sem svindlar á félagslegu kerfi. Enda myndi stjórnmálamaður upphrópanaflokkanna ekki geta slegið sér upp á því. Það verður enginn að réttlátum umbótamanni með því að heimta rannsóknarnefnd til að fara yfir mál einhvers sem drýgir lágar tekjur með því að herja út atvinnuleysisbætur. Það selur enginn fleiri eintök af blaðinu sínu með því að skella á forsíðuna stórum orðum um að einhver sé í raun fílhraustur þó hann sé á örorkubótum.