Þ
að er deilt um margt erlendis og fæst af því ratar inn í íslenska fjölmiðla sem betur fer. Svefnbær einn, West Milford, rúma 150 kílómetra norðan New York, hefur undanfarið verið vettvangur deilna og málaferla sem hafa raskað ró marga íbúa. Í bænum býr kona nokkur, Laura Hooper að nafni og skapraunar nágrönnum sínum óstjórnlega. Frú Hooper býr þar í húsi sem afi hennar og amma keyptu sér á þriðja áratug síðustu aldar og þá stóð langt úti í sveit. Á síðustu árum hefur hins vegar byggst þarna upp bær eftir að vinsælt varð meðal allskyns sérfræðinga úr stórborginni að reisa sér hús á þessu svæði. Og þessir sérfræðingar í nýtískulega bænum eru hinir verstu út í frú Hooper og hafa það einkum gegn henni að hún notast enn við útikamar þann sem staðið hefur við ættaróðal hennar alla tíð.
Efndu þeir til málaferla gegn frú Hooper og kröfðust þess að kamarinn færi en hún kæmi sér upp nýtískulegri salernisaðstöðu. Ekki munu þeir hafa beitt fyrir sig heilbrigðislegum rökum heldur lögðu þeir alla áherslu á að kamar konunnar drægi úr glæsileika hverfisins og gæti jafnvel orðið til þess að verð húseigna þeirra sjálfra lækkaði. Frú Hooper fyrir sitt leyti spurði hvort þessir ágætu menn hefðu aldrei heyrt talað um „American freedom“ og hvaðan þeim kæmi réttur til að fótumtroða réttindi hennar. „Þessir menn ákváðu sjálfir að flytja hingað. Ef þeim líkaði ekki húsakostur minn, þá þurftu þeir ekki að flytja hingað til mín“ segir Laura Hooper og ímyndar sér sjálfsagt að einhver hlusti. En það er auðvitað óþarfi hjá henni að gera sér vonir um það enda hefur hún þegar tapað málinu og hefur nú örfáar vikur til að afla um tveggja milljóna króna sem hún þarf að leggja út fyrir salernisaðstöðu og nauðsynlegum lögnum.
Reyndar ultu úrslit þessa máls ekki á hugsanlegum réttindum nágranna frú Hoopers heldur því að samkvæmt 20 ára gömlum reglum verða öll íbúðarhús í ríkinu að vera búin öllu nýtískulegri salernisbúnaði en útikamri Lauru Hoopers. Engu að síður má þetta óvenjulega deilumál verða til þess að leiða huga manna að örum vexti og viðgangi svo kallaðs nábýlisréttar. Undanfarið hefur mönnum nefnilega verið veittur mikill og vaxandi réttur til þess að skipta sér af því hvernig nágrannarnir ráðstafa eignarrétti sínum. Og hefur þá stundum verið langt seilst. Auðvitað má segja að það skipti menn máli hvernig umhverfi þeirra lítur út og hvaða starfsemi fer þar fram. Flestum brygði líklega illa við ef maðurinn í næsta húsi ákveddi einn daginn að breyta íbúðarhúsi sínu í efnaverksmiðju eða brotajárnshaug. Væntanlega munu flestir telja að slíkt ætti ekki að viðgangast án samþykkis nágranna og jafnvel sveitarfélagsins. En nábýlisrétturinn hefur verið þaninn langt út fyrir allt slíkt.
Menn geta nú mótmælt næstum hverju sem er og slík mótmæli verða til þess að setja allar áætlanir venjulegs fólks úr skorðum. Smávægilegustu fyrirætlanir fólks um breytingar á húsum sínum geta komist í uppnám vegna þess að fáir búa í svo kverúlantalausu hverfi að enginn í götunni telji ekki óhjákvæmilegt að mótmæla öllum breytingum harðlega. Og í mótmælunum eru stóru orðin og furðulegu forsendurnar ekki spöruð. Margir virðast beinlínis telja, að jafnvel minnstu hugsanlegu líkur á verðfalli eigin eignar gefi þeim einhvern rétt til að setja öðru fólki stólinn fyrir dyrnar. Hækki einhvert rjáfur í götunni um nokkra centimetra megi finna út að útsýni til einnar áttar minnki örlítið eða einn eftirmiðdag í júli sjáist örlítið skemur til sólar en áður, eða eitthvað. Og æsingurinn verður slíkur að ósjaldan kemst mótmælandi í slíkan ham að hann fer að halda því fram að einmitt það, að hús nágrannans var ekki 10 centimetrum hærra en það í raun er, hafi verið ákvörðunarástæða þegar mótmælandinn keypti sitt hús á sínum tíma. „Ég hefði aldrei keypt mitt hús ef það hefði verið kvistur þarna á númer níu!“ hrópa menn og trúa sjálfir hverju orði.
Kannski halda menn að það séu bara kverúlantar og almennir vitleysingar sem þannig ganga af göflunum hvenær sem þeim gefst færi á að mótmæla fyrirætlunum annarra. Það er auðvitað hugsanlegt. Í ræðu sinni við opnun nýbyggingar Íslenskrar erfðagreiningar á dögunum sagði Kári Stefánsson frá því að hann hafi gengið á fund háskólarektors til að fá samþykki nágrannans, Háskóla Íslands, fyrir hinni nýju 12 metra háu byggingu. Rektor tjáði Kára Stefánssyni að háskólinn hefði fjallað um þetta erindi og gæti skólinn alls ekki sætt við 12 metra háa byggingu í nágrenninu. En 11,7 metrar væru í lagi. Háskóli Íslands taldi semsagt ástæðu til þess að gera veður út af 30 centimetrum til eða frá – og það eins þó húsbyggjandinn væri fyrirtæki sem skapar hundruðum vísindamanna, íslenskra sem erlendra, eftirsótta atvinnu á Íslandi.