Á miðnætti féll franski frankinn úr gildi og héðan í frá ætlast franska ríkið til þess að Frakkar greiði hverjir öðrum með evrum en ekki öðru. Já, þeir mega eiga það eins og margt annað, Evrópusinnarnir, að þeir eru ekki viðkvæmir fyrir sögu lands og þjóðar eða því sem lengi hefur verið tíðkað, því þeim þótti sérstakt fagnaðarefni að franski frankinn, sem hafði verið gjaldmiðill lands þeirra í sex aldir, heyrir nú sögunni til. Og auðvitað getur verið gott að menn séu ekki um of bundnir sögu sinni og gömlum hefðum því sjálfsagt gæti það leitt til þess að menn héldu of fast í eitthvað það sem nauðsynlegt er að láta sigla sinn sjó. Nú til dags er þó sennilegra algengara vandamál að menn – algerlega að nauðsynjalausu – varpi fyrir róða því sem vel hefur reynst, jafnvel með þeim rökum einum að fyrri aðferð hafi tíðkast svo lengi að „tími sé kominn á breytingar“. Þá heyrist oft sú kléna röksemd að „ný tækni“ sé nú aðgengileg og þess vegna sé nauðsynlegt að láta af fyrri aðferðum – því „varla vilja menn frekar nota kerti en ljósaperur“.
Breytingamenn telja ætíð að „tíminn“ og „þróunin“ – að ekki sé minnst á „þá sem best þekkja til erlendis“ – séu á þeirra bandi. Og þess vegna skipti öllu máli að knýja sitt mál í gegn með hverjum þeim aðferðum sem duga, en álit borgaranna sjálfra skipti minna máli. Svo kallaðir „sérfræðingar“ reyna að knýja persónuleg áhugamál sín fram, hverjir á sínu sviði, og skáka gjarnan í því skjóli að sökum hartnær ofstækisfulls áhuga síns á málefninu hafi þeir nánast engu öðru sinnt árum saman og viti því betur en aðrir hvað rétt sé og rangt á því sviði. Og oft ná þeir að knýja breytingar fram enda eru þeir vakandi og sofandi yfir sínu tiltekna hugðarefni, en venjulegt fólk sem getur ekki leyft sér að liggja daginn út og inn yfir hvaða trúaratriði sem er, lætur undan. Dæmin eru fjölmörg. Í þessu blaði hefur öðru hverju verið vikið að tilteknu máli sem má kalla skýrt dæmi um þetta, en það eru fremur nýsamþykkt lög um fæðingarorlof. Þar náði örfámenn klíka að knýja fram lagasetningu sem í einu og öllu var eftir ýtarlegustu kreddum klíkunnar og knúði meira að segja ístöðulitla og utangátta þingmenn stjórnarflokkanna til þess að styðja frumvarp sem í mikilvægum atriðum gekk þvert á yfirlýsta stefnu eigin flokka. Stefnu sem æðstu valdastofnanir höfðu mótað.
En fæðingarorlofsliðið telur sig hafa tímann og þróunina á sínu bandi og því sé málið bara það að berja sinn vilja í gegn. Annar hópur og jafnvel grófari, eru Evrópusinnar um allan heim. Þeir vita sem er, að borgarar Evrópuríkjanna fylgja þeim ekki í „Evrópuhugsjóninni“. „Evrópusamkenndin“ á sér engan stað í huga venjulegra Evrópubúa. Þess vegna gæta Evrópusinnarnir þess að almennir borgarar séu ekki spurðir þegar ný og stór skref eru stigin í átt til þess að leggja ríki þeirra niður. Evran var tekin upp með valdi eins og menn vita. Það var ein þjóð sem var spurð hvort hún vildi kasta gjaldmiðli sínum og flestir muna enn hverju Danir svöruðu. Næsta stórverkefni samrunasinna var Nice-samningurinn en hann er mikilvægur áfangi á þá leið að eyða þjóðríkjum Evrópu en mynda þess í stað nýtt stórríki undir forystu framkvæmdastjórnarinnar í Brussel. Höfuðpaurarnir lögðu höfuðáherslu á að samningurinn yrði hvergi borinn undir þjóðaratkvæði svo „Evrópusamkenndin“ yrði ekki kveðin í kútinn einu sinni einn. Allar ríkisstjórnir aðildarlandanna fóru að þeim ráðum nema sú írska enda var þjóðaratkvæðagreiðsla óhjákvæmileg samkvæmt írsku stjórnarskránni. Og vitaskuld höfnuðu Írar samningnum.
En Evrópusinnum er sama um allt þetta. Þeir ætla að hafa sitt mál fram. Þeir vinna nótt og dag, senda frá sér látlausar fréttatilkynningar um merkingarlausa smásigra sína hér og hvar og ætla að nudda hugðarefnum sínum fram, í trausti þess að á endanum láti borgararnir undan fyrir „sérfræðingunum“. Og Evrópusinnunum er sama um allt í þessari baráttu. Evrópska stórríkið skal myndað og þjóðríkin skulu hverfa. Gamlir gjaldmiðlar, gamlar hefðir, gamlir siðir eru þessum mönnum vitaskuld einskis virði. Og það er svo sem allt í lagi, það verður hver að eiga slíkt við sig. En það er verra að vilji samborgara þeirra er þeim einnig einskis virði.