Föstudagur 8. febrúar 2002

39. tbl. 6. árg.

Sæll er hver í sinni trú. Hinn hrifnæmi og oft skemmtilega einlægi blaðamaður, Kolbrún Bergþórsdóttir, fer sjaldnast í felur með persónulegar skoðanir sínar á mönnum og málefnum. Lesendum hennar hefur því verið trúað fyrir hinu og þessu. Þeir hafa til dæmis fengið að heyra um skefjalausa aðdáun blaðakonunnar á Jónasi Hallgrímssyni og skáldskap hans og þeir hafa meira að segja fengið lýsingar á því hvernig Össur Skarphéðinsson hellti rauðvínsglösunum ofan í Kolbrúnu á síðasta kjördag, af því að enginn maður gæti kosið Samfylkinguna með fullri rænu. En það er einmitt þegar kemur að stjórnmálaforingjum seinni tíma sem Kolbrún kemst á flug. Flestir hafa tekið eftir og sennilega haft fremur gaman af næstum óendanlegri hrifningu hennar á öllu því sem tengist Jóni Baldvini Hannibalssyni sendiherra og síðustu misseri, eftir að Jón Baldvin dró sig í hlé, hefur það ekki farið dult að blaðakonan er í staðinn næstum hætt að sjá sólina fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Jæja, Ingibjörg Sólrún var gestur Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur í þætti þeirrar síðarnefndu í Ríkissjónvarpinu síðastliðið laugardagskvöld. Þó þær hefðu eflaust getað skemmt sér vel og lengi við að rifja upp góðar stundir frá því Steinunn Ólína var vígreif í sjónvarpsauglýsingum R-listans á sínum tíma þá var nú annað brýnna í þessum þætti enda taldi þáttastjórnandinn nauðsynlegt að reyna að gera gott grín að Birni Bjarnasyni fjarstöddum. Og um þetta atvik skrifar Kolbrún í fjölmiðlapistli sínum í DV á miðvikudaginn: „Í síðasta þætti Milli himins og jarðar var farið langt yfir strikið þegar reynt var að gera grín að Birni Bjarnasyni í vandræðalegu sundskýluinnskoti. Ingibjörg Sólrún átti að vera þátttakandi í því gríni en kom sér fimlega undan því. Flink kona sem neitaði að taka þátt í smekkleysunni.“

Já einmitt. Flink kona, sem bara neitar að taka þátt í smekkleysunni. Það er reyndar merkilegt að af öllum mönnum sé það Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem skyndilega fær þessa einkunn því sennilega hefur enginn íslenskur stjórnmálamaður lagst lægra að þessu leyti en einmitt hún. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er að minnsta kosti ein um það meðal íslenskra stjórnmálamanna að hafa sjálf leikið hlutverk í áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins og það í þeim eina tilgangi að gera lítið úr pólitískum andstæðingi sínum, Árna Sigfússyni, sem hún hafði þá nýlega velt úr sessi borgarstjóra. Reyndar var það áramótaskaup – ef skaup mætti kalla – með hreinum ólíkindum. Ingibjörg Sólrún hafði þá hafist í embætti borgarstjóra en auðvitað voru ekki framin þau helgispjöll að gantast á nokkurn hátt með hana. En Árni Sigfússon, sem beðið hafði mikinn ósigur á árinu, og eiginkona hans, voru hædd sundur og saman. Og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þessi flinka kona sem neitar alfarið að taka þátt í einhverri smekkleysu, hún mætti bara sjálf og lék hlutverk í skaupinu. Já og hver var leikstjóri dýrðarinnar? Var það ekki Guðný Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi Alþýðubandalagsins í Mosfellssveit?

Æ já. Þessi flinka kona.