Liðsmenn gömlu haftaflokkanna segjast nú í vaxandi mæli fylgjandi samkeppni, þeir hafa hreinlega tekið hugtakið að sér, ja nema kannski Ögmundur Jónasson sem lýsti því yfir í Silfri Egils á Skjá 1 að hann teldi fara betur á því að ríkið geri „ein stór innkaup“ fyrir landsmenn alla því þannig náist „betri innkaupsprísar“.
En þessi sinnaskipti gömlu haftaflokkanna eru ekki með öllu formálalaus. Samkeppnin má nefnilega ekki bara vera keppni milli fyrirtækja um hylli neytenda heldur þarf hið opinbera að vera með puttana í rekstrinum. Þar kemur fyrrverandi Verðlagsstofnun ríkisins til skjalanna. Hún heitir reyndar því hljómfagra nafni Samkeppnisstofnun og þar gera menn ákveðnar kröfur til þeirra sem ómaka sig á rekstri fyrirtækja. Til dæmis um þessar kröfur Samkeppnisstofnunar má nefna að fyrirtæki mega ekki bjóða lægra verð og betri þjónustu en önnur því þannig eru þau talin hrekja keppinauta af markaði með undirboðum. Ekki má bjóða hærra verð en aðrir því þá er um okur að ræða. Og svo skulu menn forðast að bjóða sama verð og aðrir því þá hljóta þeir að hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Ekki má selja lítil fjölskyldufyrirtæki stærri fyrirtækjum því þá dregur úr hinni einu sönnu samkeppni samkvæmt kokkabókum Samkeppnisstofnunar. Betra er að gera fjölskyldufyrirtæki verðlaus með því að setja hömlur á sölu þeirra, gera eigendur þeirra eignalausa og láta fyrirtækin fara á hausinn. Og vart þarf að minnast á stöðu eigenda stórfyrirtækja gagnvart Samkeppnisstofnun. Slíkir menn, sem gert hafa stórum hópi neytenda til hæfis og náð „ráðandi markaðshlutdeild“, eru með öllu réttlausir þegar Samkeppnisstofnun tekur þá fyrir.
Gamla hugmyndafræði hafta- og ríkisafskiptaflokkanna gerði ráð fyrir að starfsmenn ráðuneyta, ríkisstofnana og fjölmargra ríkisfyrirtækja gætu áttað sig á þörfum almennings og sinnt þeim á hagkvæman hátt. Nú hafa flokkarnir horfið frá þessari stefnu. En hvaða hugmynd er komin í staðinn? Jú sú sérkennilega hugdetta að þekking á öllum þörfum almennings hafi flust úr öllum ríkisfyrirtækjunum þar sem hún bjó áður yfir á eina ríkisstofnun við Rauðarárstíginn. Og af öllum þeim ríkisstofnunum sem í boði voru er talið líklegast að sannleikurinn hafi tekið sér bólfestu á Verðlagsstofnuninni fyrrverandi.
Og það er rétt sem fulltrúar gömlu haftaflokkanna segja nú: „Samkeppnisstofnun sér um að verja neytendur.“ Stofnunin ver neytendur fyrir sjálfum sér. Stofnunin tekur að sér að hugsa fyrir neytendur. Stofnunin tekur valdið einfaldlega af neytendum. Samkeppnislögin eru vottorð frá Alþingi um að neytendur séu dómgreindarlausir og því þurfi starfsmenn Samkeppnisstofnunar að velja og hafna fyrir þá út í búð.
Samkeppnisstofnun er vissulega óþægileg þeim er reka fyrirtæki enda einkennileg hugmynd að skipa starfsmenn á ríkisstofnun sem yfirforstjóra allra fyrirtækja í landinu. Og þessir yfirforstjórar gramsa í persónulegum munum starfsfólks fyrirtækjanna ef þeim sýnist svo og leggja jafnvel hald á þá. Hvorki greiðslukortayfirlit, bréf frá vinum og ættingjum né óviðkomandi bókhaldsgögn úr safnaðarstarfi fá að vera í friði eins og dæmin sanna. En stofnunin er enn verri fyrir neytendur. Kúnninn hefur ekki lengur alltaf rétt fyrir sér – það eru „samkeppnisyfirvöld“ sem hafa síðasta orðið.