Johan Sebastian Bach. Wolfgang Amadeus Mozart. Richard Wagner. Ludwig van Beethoven. Hjálmar H. Ragnarsson. Edvard Grieg. Johan Julius Christian Sibelius. Karlheinz Stockhausen. Ef að skattgreiðendur verða þvingaðir til að sjá af enn stærri hluta af eigum sínum til þess að menningarmafían og hossarar hennar fái reist sér nýja og ótrúlega glæsihöll – „tónlistarhúsið“ – undir eitt af áhugamálum sínum, þá þarf enginn að efast um að þar verða leikin verk eftir þessi tónskáld og önnur litlu síðri. Og það munu gera þaulæfðir hljóðfæraleikarar, allir atvinnumenn í sínu fagi. Sumir þjóðþekktir, aðrir víðfrægir en flestir að vísu öllum almenningi ókunnir. Og hljómburðurinn, hann verður þannig að einungis allra mestu frekjur gætu farið fram á meira. En þrátt fyrir þetta allt, þrátt fyrir að þarna mætti vænta „látlausrar tónlistarveislu“, þá er eins og úrillir og þröngsýnir menn geti aldrei látið af fjandskap sínum við þetta glæsilega hús og má eflaust hafa það til marks um lítinn skilning þannig manna á mikilvægi menningarinnar, svo mannbætandi sem hún er.
Það hvarflar væntanlega ekki að nokkrum manni að mótmæla því að í húsinu yrði leikin tónlist margra þekktustu tónskálda sögunnar – það er að segja ef horft er til svo kallaðrar klassískrar tónlistar. Og ekki verður því haldið fram að illa yrði spilað í húsinu eða að hljómburðurinn yrði slæmur. Það er meira að segja viðurkennt að sennilega myndu flestir áheyrendur njóta þess að koma í húsið; ef ekki vegna tónlistarinnar sjálfrar þá til þess að láta sjá sig þar prúðbúna og ganga svo sperrtir um í hléi, ræða hver við annan um „áhrifamikla stund“ og dreypa á kampavíni í boði einhvers annars. En þetta eru aukaatriði. Jafnvel þó ýmsum muni þykja tónlistin skemmtileg, húsið glæsilegt, flutningurinn afbragð og hljómburðurinn ólýsanlegur, þá er það engin réttlæting fyrir mörg þúsund milljóna króna auknum álögum á alla Íslendinga. Tónlistarhöllin, sem yrði vægast sagt gríðarlegt mannvirki, yrði skattgreiðendum ótrúlega dýr í byggingu – byggingarkostnaður myndi mælast í milljörðum króna – og þá ætti eftir að reka húsið. Engum óbrjáluðum manni dettur í hug að tónleikagestir verði rukkaðir um það verð sem í raun þarf til að kosta flutning allra herlegheitanna og til að fjármagna allar áhrifamiklu stundirnar. Byggingarkostnaðurinn og síðan rekstrarkostnaðurinn verða fjármagnaðir með sköttum, þó um það sé sjaldan talað í áróðursherðferð menntamálaráðherra og Morgunblaðsins fyrir byggingu hússins. Eða svo talað sé hreint út: Fé verður tekið með valdi af hverjum einasta Íslendingi og notað til að byggja og reka höll undir áhugamál hluta landsmanna.
„En er ekki alltaf verið að gera það? Hvað með allar íþróttahallirnar sem alltaf er verið að reisa?“ spyr kannski einhver á móti. Jú, það er oft verið að skattleggja alla til að fjármagna áhugamál fárra. En það á líka að hætta því. Eða hvað? Þeir sem látlaust vísa í önnur eyðsludæmi til að réttlæta eigin kröfur, hvenær vilja þeir hætta að eyða? Ef ein eyðsla er í raun réttlæting fyrir annarri, þá verður eyðslan óhjákvæmilega endalaus. Það er ekki búið – þrátt fyrir heilaþvottartilraunir þeirra sem halda hinu gagnstæða fram – búið að ákveða að tónlistarhöllin verði byggð fyrir opinbert fé, og það hlýtur að vera alger grundvallarkrafa að svo verði aldrei gert. Það á að vísa frekjunum bónleiðum frá búð ríkisins og það á að snúa af braut opinbers stuðnings við áhugamál fólks. Með því mætti ekki aðeins komast hjá því að hækka skatta heldur einnig lækka þá. Og þá hefði hinn almenni maður meira af eigin fé milli handanna. Og ef hann væri ekki þvingaður til að fjármagna áhugamál annarra þá gæti hann kannski varið meiri tíma og fé í sín eigin.
En þetta má menningarmafían ekki heyra nefnt.