Miðvikudagur 23. janúar 2002

23. tbl. 6. árg.

Íslenskir fjölmiðlamenn eru nú alveg met. Þarna voru þeir í gær og fóru í halarófu til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að leita álits hennar á þeim tíðindum að Inga Jóna Þórðardóttir hefði hætt við þátttöku í væntanlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins en þess í stað lýst yfir stuðningi við Björn Bjarnason menntamálaráðherra sem borgarstjóraefni flokksins. Jæja, Ingibjörg Sólrún lét ekki standa á svari og fór allsstaðar með sömu þuluna auðvitað var hún send út athugasemdalaust: Björn Bjarnason er bara prímadonna sem þorir ekki í prófkjör svo allir hætta bara við framboð svo hann komist átakalaust á toppinn. Inga Jóna gaf á sínum tíma kost á sér gegn Árna Sigfússyni og það þótti ekki tiltökumál, en þegar Björn fer fram, þá er sko annað uppi á teningnum. Hann þarf ekkert að fara í prófkjör. Eða eins og Ingibjörg Sólrún orðaði það í gær: „Það er greinilega ekki hægt að bjóða prinsum upp á svoleiðis trakteringar.“

Hvernig í ósköpunum fara fjölmiðlamenn, á útvarpi og báðum sjónvarpsstöðvum, að því að senda þetta út án þess að spyrja Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur einnar lítillar spurningar. Hún gæti til dæmis hljóðað svo: „Jæja Ingibjörg mín. En hvernig er með þín eigin prófkjör, hefur nokkurn tímann nokkur yfirleitt mátt bjóða sig fram gegn þér í baráttusæti R-listans?“. Ætli það hefði ekki orðið fátt um svör? En fréttamönnum finnst bara engin ástæða til að spyrja Ingibjörgu Sólrúnu nokkurs hlutar. R-listaflokkarnir stóðu fyrir innanflokksskoðanakönnunum fyrir kosninguna 1994 og fyrir prófkjöri árið 1998. Gott og vel, að vísu var ekki farið eftir úrslitum prófkjörsins þegar listinn var valinn, en látum það vera að sinni. Þó aðferðirnar sem notaðar voru árið 1994 og 1998 hafi verið gerólíkar þá áttu þær þó eitt sameiginlegt. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fékk að velja sér sæti á listanum og það sæti var þar með frátekið fyrir hana. Það var beinlínis bannað að bjóða sig fram gegn henni. Og sama er að segja um verðandi framboð R-listans. Þar fær Ingibjörg Sólrún sæti gefins og enginn getur boðið sig fram gegn henni.

Björn Bjarnason mun eflaust lýsa yfir framboði sínu í prófkjöri sjálfstæðismanna um næstu helgi. Hugsanlega verður hann á endanum einn í kjöri, það er að segja, ef Eyþór Arnalds hættir við framboð sitt og aðrir frambjóðendur gefa sig ekki fram. En munurinn á framboði Björns Bjarnasonar annars vegar og sjálftöku Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hlýtur að vera augljós öllum mönnum sem ekki starfa við það að segja fréttir í landinu. En af því fréttastofurnar eru eins og þær eru þá kemst Ingibjörg Sólrún – sú sem aldrei fer í prófkjör – átölulaust upp með að kalla andstæðing sinn „prins“ sem láti ekki bjóða sér hvaða trakteringar sem er. Og þykir alltaf jafn málefnalegur stjórnmálamaður, gott ef ekki sérstakur forystumaður.