Það er nú orðið lýðum ljóst að vinstri menn í Reykjavík gera ráð fyrir því að þurfa í vor að glíma við Björn Bjarnason menntamálaráðherra en eru hættir að líta á Ingu Jónu Þórðardóttur sem væntanlegan óvin. Tveir áberandi vinstri menn gefa greinilega tóninn í þá átt í DV í gær og munu flestir telja það heldur til marks um raunsæi meðal R-listafólks. Í gær var nefnilega birt skoðanakönnun sem sýndi að meirihluti borgarbúa telur að Björn Bjarnason sé allra manna líklegastur til að leiða sjálfstæðismenn til sigurs í næstu borgarstjórnarkosningum og voru helmingi færri og varla það á þeirri skoðun að Inga Jóna Þórðardóttir væri sigurstranglegri. Og því snúa vinstri menn sér nú að Birni en telja Ingu Jónu á útleið og þar með hina bestu manneskju.
„Það er búið að grafa markvisst undan henni í þeirri leiðtogaumræðu sem staðið hefur innan Sjálfstæðisflokksins um margra ára skeið“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í DV í gær og auðvitað gengur blaðamaður ekkert á hana um réttmæti þessarar staðhæfingar. Enda er þetta nýja línan hjá vinstri mönnum í Reykjavík. „Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er meiddur af áralangri efasemd um efsta mann á lista. Inga Jóna Þórðardóttir hefur ekki verið öfundsverð af leiðtogahlutverki sínu. Hennar helsti andbyr hefur komið innan úr eigin flokki. Hún hefur ekki haft samstilltan hóp að baki sér og í pólitískri umræðu þurft að svara oftar til um eigin ágæti en góðu hófi gegnir. Í þessu ljósi er merkilegt að hún leiðir enn í dag jafn sterkan lista og R-listann. Það sýnir könnun DV í gær og hún sýnir styrk Ingu Jónu“ segir Sigmundur Ernir Rúnarsson í leiðara DV í gær og talar eins og sá sem valdið hefur.
En með leyfi að spyrja, hverjir hafa verið að grafa undan Ingu Jónu Þórðardóttur? Hefur hún ekki einfaldlega verið óskoraður oddviti minnihlutans í borgarstjórn undanfarin þrjú og hálft ár? Hvaða félagar hennar úr borgarstjórnarflokknum hafa gagnrýnt hana aukateknu orði á þessum árum? Hvenær hefur minnihlutinn klofnað í mikilvægum atkvæðagreiðslum? Hvaða sjálfstæðismenn hafa staðið fyrir slíkum „andbyr“ að hann hefur verið meiri en almennur fjandskapur R-listans við þennan andstæðing sinn? Hvaða þjóðsagnagerð er þetta eiginlega? Meira að segja sá borgarfulltrúi sem skyndilega sagði skilið við flokkinn sem bauð hann fram til borgarstjórnar, hann gerði það án þess að gagnrýna oddvitann í borgarstjórn.
Getur ekki verið að almennir borgarbúar sjái að minnihlutanum hefur ekkert gengið í starfi sínu undanfarin ár? Minnihlutinn, sem hefur einkum getið sér orð fyrir að sitja hjá um helstu deilumál og að láta fáránlegustu útgjaldahugmyndum ómótmælt – það er að segja ef hann hefur þá ekki reynt að ganga lengra en meirihlutinn þó gerir í útþenslu- og eyðsluhugmyndum – hefur bara alls ekki notið þess stuðnings sem sérhver alvöru minnihluti gæti vænst meðan R-listinn situr við kjötkatlana. Skuldir borgarinnar hafa aukist gríðarlega; álögur á borgarbúa hafa verið auknar þrátt fyrir loforð þvert á móti um að lækka þær; þeir sem vilja byggja sér íbúðarhús fá helst ekki lóð og alls ekki nema fyrir offjár; biðlistar – þessir sem átti að eyða – þeir hafa lengst og á sama tíma hendir borgin hundruðum milljóna króna í ótrúlegt fyrirtæki, Línu.net, sem sérstaklega er svo att út í rekstur sem einkaaðilar geta sem hægast sinnt. Þessi þróun er jöfn og stöðug árum saman – og aldrei nær minnihlutinn að komast yfir meirihlutann í skoðanakönnunum.
Öll þessi ár hafa borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins verið einráðir um þær aðferðir sem þeir hafa beitt í stjórnarandstöðunni. Þær hafa skilað þeim árangri sem allir sjá. Menn geta hins vegar deilt um hvort sá árangur er nægur. R-listamenn eru skiljanlega hæstánægðir með þennan andstæðing sinn og virðast ekki mega til þess hugsa að þar verði breyting á. Þeir sem á hinn bóginn telja nauðsynlegt að breyting verði á stjórn mála í Reykjavík, hvað er eðlilegra en að þeir hugleiði hvort betri árangur næðist með nýjum áherslum og nýjum mönnum?