Í gær var á þessum síðum fjallað um bandaríska útvarpsmanninn Larry Elder og bók hans, The ten things you can’t say in America, en í bókinni setti Elder fram og varði 10 staðhæfingar sem fáir munu verða til að samþykkja umhugsunarlaust. Sennilega væri hægt að skrifa nokkrar fleiri bækur um þetta efni; að minnsta kosti eru þær fleiri en tíu, staðhæfingarnar sem setja mætti fram á Íslandi án þess að hljóta mikinn stuðning hinna talandi stétta. Með skyndilegri „nútímavæðingu“ á undanförnum árum hefur vegur hverskyns dellukenninga orðið mikill á Íslandi og ótrúlegasta fólk leggur nú trúnað á pólitísk hindurvitni og kerlingabækur. Hefur ýmsu verið snúið á hvolf, staðleysum trúað en einfaldur veruleikinn þykir sjaldan nógu flókinn og nútímalegur til að duga. Ef bæta ætti fullyrðingum í safnið hjá Larry Elder, fullyrðingum sem gengju gegn því sem nú er iðulega haldið fram í þjóðfélagsumræðunni, þá væri af ýmsu að taka. Hvað segja menn um að byrja til dæmis á, ja hvað skal segja, „Samkeppnisreglur eru andstæðar frjálsum viðskiptum“? Eða: „Verðsamráð er ekki glæpur gegn neytendum“?
Trúin á samkeppnisreglur frá ríkinu og þungbúna starfsmenn ríkisins sem eltist við ljótu kallana sem brjóta á góða en litla manninum, hefur breiðst út með ógnarhraða á Íslandi síðastliðinn áratug. Það sem stór og öflug fyrirtæki gera, það þykir grunsamlegt og helst vilja menn að eftirlitsmenn ríkisins taki þar sem oftast í taumana og haldi aftur af þeim sem gengur hvað best. Þessu fylgir svo óttinn við verðsamráðið en það virðist vera einn voðalegasti glæpur sem menn í viðskiptum geta framið. Því má hins vegar halda fram að samkeppnisreglurnar séu hreint engin forsenda frjálsra viðskipta og að almennir neytendur eigi hreint enga heimtingu á því að seljendur og kaupendur vöru eða þjónustu beri sig ekki saman um verð. Þegar upp er staðið eru það nefnilega neytendur sem hafa síðasta orðið, það eru þeir sem ákveða hvaða fyrirtæki lifa og hver deyja með því að beina viðskiptum sínum til ákveðinna fyrirtækja. Samkeppnislög með tilheyrandi „samkeppnisyfirvöldum“ taka þetta vald af neytendum.
Hér er rétt að taka fram, að þegar talað er um fyrirtæki þá er átt við einkafyrirtæki en ekki opinberar stofnanir eða fyrirtæki sem njóta lögbundinna forréttinda frá hinu opinbera. En með þeim fyrirvara þá má segja að sé fyrirtæki stórt og öflugt þá hafi það almennt séð vaxið vegna þess að fólk hafi kosið að eiga viðskipti við það. Það eitt, að fyrirtæki sé stórt, eigi ekki að valda því að því sé settur stóllinn fyrir dyrnar. Sama eigi við þó ríkinu þóknist einn daginn að skilgreina að þessi eða þessi markaðshlutdeild sé eitthvað sem kalla skuli „markaðsráðandi stöðu“. Menn eiga enga heimtingu á því að fyrirtæki – það er að segja, eigendur fyrirtækja – nýti sér ekki þá „markaðsráðandi stöðu“ sem það kann að hafa náð með heiðarlegum hætti. Það er ekki til stuðnings heldur beinlínis andstætt frjálsum viðskiptum ef ríkið ræðst gegn fyrirtækjunum og þeirra fyrirætlunum með slíkum rökstuðningi. Menn verða að gera greinarmun á því sem kemur þeim óþægilega og því sem þeir eiga beinan rétt á að ríkið stöðvi. Það á enginn heimtingu á því að ganga vel í viðskiptum. Menn eiga aðeins almenna heimtingu á því að ríkið banni þeim ekki að stunda viðskipti sín en þeir eiga ekki kröfu til annarra í því sambandi. Ef stór og mikill aðili vill ekki skipta við þá, þá getur það komið þeim illa – jafnvel orðið til þess að rekstur þeirra verður ekki arðbær – en það er enginn réttur á þeim brotinn.
Svo mætti einnig snúa stöðunni við og búa til dæmi sem einhverjum þykir auðvitað langsótt, en er kannski lítillega til skýringar. Það eru ekki aðeins fyrirtæki sem geta náð „markaðsráðandi stöðu“. Ef íslenskir neytendur stæðu saman sem einn maður þá hefðu þeir nú aldeilis „markaðsráðandi stöðu“. Ef nú mikill meirihluti neytenda tæki sig saman um að neita að kaupa ákveðna vöru þar til seljendur lækkuðu verðið, dytti þá nokkrum manni í hug að ríkið mætti ógilda þetta samráð neytendanna? Dytti einhverjum í hug að óþægindi seljendanna væru næg ástæða til þess að almennum borgurum væri bannað að hafa samráð um það hve mikið fé þeir séu reiðubúnir að láta fyrir vöruna? Að það væri „misnotkun á markaðsráðandi stöðu“? Auðvitað væri þetta óþægilegt fyrir fyrirtækin. Þau gætu tæpast leitað til annarrar þjóðar ef flestir Íslendingar tækju sig saman um að versla ekki við þau. En væri nokkur réttur þeirra brotinn. Nei auðvitað ekki, því menn eiga ekki almenna heimtingu á því að annað fólk tali ekki saman.
Og öfugt. Fólk á ekki heimtingu á því að eigendur fyrirtækja tali ekki saman. Engu breytir þó hugsanlegt samráð þeirra yrði óþægilegt fyrir neytendur. Reyndar hefðu neytendur lengi þann möguleika að sameinast um nýtt fyrirtæki sem flytti sjálft inn þessa vöru og væri óháð þeim félögum sem nú starfa á Íslandi. En jafnvel þó sá möguleiki væri ekki fyrir hendi þá væri enginn réttur neytendanna brotinn. Því menn eiga ekki almenna heimtingu á því að annað fólk tali ekki saman.