Um áramótin fóru íbúar tólf Evrópulanda að nota nýjan gjaldmiðil í daglegum viðskiptum sín á milli. Ákafir fjölmiðlamenn fylgdust spenntir með þegar fólk fór í hraðbankana og tók út nýju seðlana og birtu frétt á frétt ofan um það hve gjaldmiðilsbreytingin gengi vel og sögðu að fólk væri bara farið að nota nýju seðlana eins og ekkert væri. Sérstakar fréttir sýndu ekkert annað en línurit yfir aukningu úttekta í hraðbönkum miðað við dagana á undan. Var ekki annað að heyra en hinn nýi gjaldmiðill, evran, hefði komið, séð og sigrað.
En við hverju höfðu menn búist? Auðvitað fór fólk í hraðbankana til að ná í peningana sína. Án þess að almenningur hefði nokkurs staðar verið spurður hafði inneignum hans verið breytt úr mörkum, frönkum og hverju sem er, í nýjan gjaldmiðil. Hvað áttu menn að gera? Rífa evrurnar í tætlur? Átti hver maður að gangast fyrir einsmanns-byltingu og láta eins og ekkert hefði gerst? Reyndar hafa ýmsir haldið áfram að nota gömlu seðlana en allir vita að stjórnvöld hafa ákveðið að knýja breytinguna í gegn óháð því hvað fólki finnst. Hitt er annað mál, að þó fréttamenn hafi gert mikið úr þeim stóra sigri að fólk hafi notað þann gjaldmiðil sem nú er gefinn út á meginlandi Evrópu, þá hafa þeir lagt minni áherslu á að skýra frá því hve kaupmenn hafa gert mikið af því að hækka verð á sama tíma og verðið er fært úr eldri þjóðargjaldmiðli í nýju Evrópu-rúbluna.
En það er svo sem aukaatriði, var alltaf fyrirsjáanlegt og fylgir gjaldmiðilsbreytingum. Hinn mikli áhugi fjölmiðlamanna á evrunni er hins vegar meira umhugsunarefni. Evran er stærsta skrefið sem lengi hefur verið stigið til að leggja niður þjóðríki Evrópu og búa þess í stað til stórt alræðisríki skriffinnskunnar. Það er eftirtektarvert að forystumennirnir, sem hafa lagt mikið á sig til að knýja þá þróun fram, treysta sér almennt ekki til að leyfa almenningi að greiða atkvæði um hana. Þá er ekki síður athyglisvert að sú þjóð sem fékk að segja álit sitt, Danir, afþakkaði kurteislega. En dönsk stjórnvöld ætla víst að efna til nýrrar evru-kosningar á næsta ári og svo árlega þangað til kjósendur hætta að nenna að standa í því að þráast við.
En fjölmiðlamenn hafa ekki áhuga á þessu. Þeir segja hins vegar langar og miklar fréttir af því að það hafi myndast biðröð við tiltekinn hraðbanka í miðborg Helsinki skömmu eftir áramót. Fjölmiðlamenn eru reyndar víða mjög hrifnir af Evrópusambandinu og sérstaklega á það við um starfsmenn breska ríkisútvarpsins, BBC. Sá ágæti blaðamaður, Peter Hitchens, stingur upp á þeirri skýringu í nýjasta tölublaði The Mail on Sunday að ást BBC á Evrópusambandinu sé komin til af því að þau séu af sömu risaeðlutegundinni: Of stór, fjármögnuð með skattfé, beri ekki ábyrgð gagnvart neinum, skrifræðisleg og þar á ofan hégómleg fram í fingurgóma.