Við áramót ritar formaður Sjálfstæðisflokksins jafnan grein í Morgunblaðið og voru þessi áramót engin undantekning frá þeirri hefð. Formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson forsætisráðherra, minnti í grein sinni á umræður sérfræðinga og spekinga í umræðuþáttum sem verið hafi með hrakspár vegna viðbragða Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra vegna hryðjuverkaárásarinnar 11. september. Þessir menn virtust helst vilja að reynt yrði að tala hryðjuverkamennina til og fullyrtu jafnvel að aðgerðir Bandaríkjamanna í Afganistan styrktu stjórn Talibana. Annað kom vitaskuld á daginn og nú er búið að hreinsa svo til hverja holu í landinu af þeim lýð sem stýrði í skjóli ógnar og vopnavalds og ný stjórn er tekin við. Hreinsun í öðrum löndum er hafin og hefur hún þegar borið talsverðan árangur þó enn sé langt í land að fullnaðarsigur vinnist á hryðjuverkaöflum. Reyndar er ekki hægt að fullyrða að endanlegur sigur sé mögulegur, en nauðsynlegt er fyrir friðsæl ríki heims að gera það sem þau geta til að verjast þeirri óværu sem hryðjuverkamenn, og þeir sem þá hýsa, eru.
Í grein sinni benti forsætisráðherra einnig á að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist um 27% frá árinu 1994 og það mest hjá hinum lægst launuðu. Þetta er ólíkt því sem oft mætti ætla, ekki síst þegar rætt er í fjölmiðlum um auknar óskir um aðstoð fyrir jólin. Það er raunar verðugt rannsóknarefni hvernig á því stendur að þeir sem starfa að því að hjálpa öðrum telja sig finna til aukinnar eftirspurnar eftir stuðningi ár eftir ár, og það jafnvel þó allar hagstærðir bendi til að velmegun fari ört vaxandi, einnig hjá þeim sem lakast standa. Ekki skal fullyrt hér hvað veldur, en vera kann að aukið framboð, þ.e. aukin gjafmildi vegna aukinnar velsældar, kalli á aukna eftirspurn. Þá er hugsanlegt að fólki þyki nú auðveldara að biðja um aðstoð en áður var, þegar niðurlægjandi þótti að leita sér slíkrar aðstoðar. Nú virðast fáir víla fyrir sér að standa í biðröð eftir matarkörfu og má út af fyrir sig telja það jákvætt ef það þýðir að færri líði skort. Eigi þetta við rök að styðjast þýðir það engu að síður að hæpið er draga ályktanir um þörf fyrir aðstoð með því að bera saman fjölda umsókna milli ára.
Forsætisráðherra bendir á ókosti aðildar að Evrópusambandinu og minnir á orð Sigurðar Líndals prófessors, sem telur að völd Alþingis innan Evrópusambandsins yrðu líklega minni en ráðgjafarþingsins sem hér sat frá árinu 1845. Þá minnir forsætisráðherra á að Evrópusambandið þróast sífellt meira í átt til sambandsríkis í stað sambands sjálfstæðra þjóða og að enn sé unnið að auknum samruna innan þess þó forystumenn í Evrópuríkjunum hefðu stundum fögur fyrirheit um annað þegar þeir reyndu að róa landa sína. Forsætisráðherra telur eðlilegt að hér séu til öfl sem ákaft vilji skoða kost og löst á Evrópusambandsaðild, en hann bætir því við að það hljóti að vekja athygli og jafnvel undrun, „að þróun Evrópusambandsins virðist engu skipta fyrir þessa áhuga- og ákafamenn. Slíkir menn vilja einfaldlega ganga í Evrópusambandið og virðist mega einu gilda hvers konar samband það er að verða.“
Morgunblaðið brá þessi áramót út af þeirri venju að spyrja formenn annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins nokkurra beinna spurninga um álitamál í stjórnmálum, en spyr þá þess í stað almennt um liðið ár og hvers þeir vænti af því næsta. Þá hnýsist blaðið um helstu atriði í einkalífi þessara manna og á það ekki nema hóflega mikið erindi, enda ættu aðrir en þeir og þeirra nánustu að hafa áhuga á viðhorfi þeirra til stjórnmála en ekki á einkamálum þeirra. Því miður valda þessar breytingar því að svör þessara fjögurra forystumanna, Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins, Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar, Sverris Hermannssonar, formanns Frjálslynda flokksins, og Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, verða yfirleitt heldur marklaus og lítt áhugaverð. Þar er þó ef til vill við fleira en formbreytingu Morgunblaðsins að sakast, inn í þetta spilar líklega að fjórmenningarnir hafa ekki áhuga á að taka fast á í neinu máli, sem stafar ef til vill bæði af því að þeir eru ekki verulegir bógar og af því að flest gengur í stórum dráttum nokkuð áfallalaust.
Sjálfsagt var ekki við því að búast að Halldór Ásgrímsson hefði margt krassandi fram að færa. Ekki vill hann færa rándýra útþenslu ráðuneytisins í tal og þar sem hann er ekki spurður beint út í hana ræðir hann aðra hluti sem meiri samstaða er um, svo sem varðandi heimsmál eða slys innanlands. Þá segist hann telja að meginverkefni stjórnmálanna séu svipuð frá ári til árs, þ.e. að tryggja fulla atvinnu, að treysta velferðarkerfið og að efla menntunina. Og Halldór bætir því við að full atvinna verði því aðeins tryggð að atvinnulífinu séu búin þau skilyrði sem duga til vaxtar og góðrar samkeppnisstöðu. Halldór daðrar við Evrópusambandið eins og fyrri daginn án þess að slá nokkru föstu, og staðfestir þar enn einu sinni þá furðulegu stöðu sem formaður Framsóknarflokksins er í gagnvart flokksmönnum sínum, en þeir leyfa honum að tala svona því þeir sjá engan vænlegan eftirmann.
Össur Skarphéðinsson kemur ekki á óvart. Hann er á móti hryðjuverkum, á móti Sharon, forsætisráðherra Ísraels, og telur ríkisstjórnina íslensku hafa gert mistök í efnahagsstjórn en að verkalýðshreyfingin sé nú að bjarga málum. Össur segir „líka jákvætt hvað Íslendingar eru að verða miklir heimsborgarar í hugsun,“ og mun það birtast í því að „hér eru menn loks fyrir alvöru að setja á dagskrá umræðu um tengsl Íslands og Evrópu.“ Þetta hafði víst ekki verið umræðuefni áður hér á landi – ekki á dagskrá – eins og Evrópusambandssinnar hafa kosið að orða það. En nú er það komið á dagskrá og það gerðist með því í fyrsta lagi að Samfylkingin gaf út „202 blaðsíðna bók um kosti þess og galla að sækja um aðild að Evrópusambandinu“, í öðru lagi að hinn mikli formaður Samfylkingarinnar greindi lítillátur frá því í ræðu að hann teldi kosti aðildar meiri en gallana, og í þriðja lagi að Samfylkingin ákvað að kjósa um málið. Nú er það svo að innan annarra flokka hafa verið ritaðar langlokur um kosti og galla ESB-aðildar, formenn þeirra hafa í ræðu og riti tjáð skoðanir sínar á þessu efni og um það hafa verið greidd atkvæði á fjölmennum flokksfundum. Slíkt starf hefur ekki dugað, þó staðið hafi í áraraðir, til að koma þessu máli „á dagskrá“, en nú þegar Samfylkingin hefur loks ákveðið hvernig ræða megi málið innan þess flokks, þá er það komið á dagskrá og Íslendingar meira að segja orðnir heimsborgarar í hugsun fyrir vikið. Og svo eru til þeir menn sem undrast fylgisleysi Samfylkingarinnar.
Sverrir Hermannsson er heldur minna orðljótur en oft áður og rétt tekst að kalla meirihluta þingmanna þjófa. Rendi, Finnur Ingólfsson og tíkarsynirnir eru alveg gleymdir, og þá er komið að því sem Sverrir óttaðist líklega, að á hefðbundnu og sæmilega kurteislegu mannamáli hefur hann fátt fram að færa og kemst án vafa í langþráð frí eftir næstu alþingiskosningar.
Í huga Steingríms J. Sigfússonar eru hryðjuverkaárásirnar 11. september ofarlega líkt og hjá öðrum sem við er rætt um þessi áramót. Varðandi hryðjuverkin hefur Steingrímur þó sérstöður og er við sama heygarðshornið: „Eins og áður sagði eru atburðirnir í Bandaríkjunum 11. september sl. efstir í huga manns af erlendum vettvangi og síðan dapurlegur eftirleikur þeirra sem engan veginn sér þó fyrir endann á.“ Eftirleikur atburðanna er sem sagt dapurlegur að mati Steingríms, en flestir aðrir menn hefðu líklega frekar haft orð á því að hryðjuverkaárásin hafi verið dapurleg en að eftirleikurinn hafi að flestu leyti gengið vel. En þegar menn hafa einsett sér að vera ævinlega á móti öllu, þá hljóta þeir auðvitað stundum að lenda í stóreinkennilegri stöðu sem þessari.