ÁRAMÓTAÚTGÁFA
Eins og jafnan á þessum degi, hefur Vefþjóðviljinn tekið saman þau atriði líðandi árs sem síst skyldu með öllu hverfa inn í aldanna skaut:
Tilgerð ársins: Árni M. Mathiesen hélt að hann myndi skora á því að segjast fara í fæðingarorlof. Hann sagði sig hins vegar ekki frá embættinu og mætti í vinnuna hvern einasta dag sem hann „var í orlofinu“.
Viðbragð ársins: Hver þorir að hugsa til enda, hvað hefði getað gerst ef Össur Skarphéðinsson hefði ekki verið leiftursnöggur að depla augunum þegar Ingibjörg Pálmadóttir hné í ómegin við hliðina á honum?
Fréttaskýrendur ársins: Um miðjan nóvember greindu nokkrir íslenskir spekingar frá því í „ýtarlegum fréttaskýringum“ að aðgerðir Bandaríkjamanna í Afganistan skiluðu engum árangri og Talibanar væru nú „styrkari en nokkru sinni fyrr“.
Frægðarför ársins: Úrvalssveit íslenskra knattspyrnumanna fór til Kaupmannahafnar til að „hefna fyrir 14-2 leikinn“. Nokkrum dögum áður höfðu Norður-Írar einnig fengið að finna til tevatnsins.
Óvægni ársins: Eitt stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins, Frjáls fjölmiðlun, glímdi við verulega rekstrarerfiðleika. DV, Vísir.is og Fréttablaðið fréttu reyndar ekki af því enda eru þau fyrst með fréttirnar, bregða skarpri egg sinni á meinsemdir samfélagsins og hlífa engum.
Samkennd ársins: Morgunblaðið og ríkisfjölmiðlarnir fréttu reyndar ekki af þessu heldur enda birta þau kjarna málsins staf fyrir staf.
Sáttfýsi ársins: Jafnaðarmenn svonefndir hafa árum saman krafist þess, að lagt verði á svokallað auðlindagjald. Til að ná sáttum um sjávarútvegsmál álpuðust stjórnarflokkarnir til að fallast á þá kröfu. Það telja áðurnefndir jafnaðarmenn sérstaka stríðsyfirlýsingu og hafa slitið öllum viðræðum.
Stöðumat ársins: Staddur innst í 300 metra djúpum helli í fjöllum Afganistan tilkynnti Osama bin Laden að Bandaríkin væru nú á tryllingslegum flótta. Og hljóp svo yfir í næsta helli.
Víðsýni ársins: Sjómaður nokkur, Hlynur Freyr Vigfússon, lét þess getið í blaðaviðtali að hann teldi Afríkunegra latari en Íslendinga. Hann var ákærður og dæmdur til refsingar fyrir tiltækið. Dómarinn sem dæmdi hann til refsingar tók fram að ummælin væru „ekki gróf eða mjög alvarleg“. En dæmdi hann samt.
Veðurfræðingur ársins: Forsvarsmenn Popptívís höfnuðu umsókn Trausta Jónssonar en réðu Margréti Hildi Guðmundsdóttur til að segja áhorfendum veðurfréttir. Það var mjög til fyrirmyndar en því miður varð veðrið aldrei alveg nógu gott.
Fylgishrun ársins: Eftir að hver endurtalningin á fætur annarri sýndi að George Bush var rétt kjörinn forseti Bandaríkjanna er nú svo komið að einungis Karl Blöndal og Tipper Gore telja að Al hafi í raun unnið.
Hvíld ársins: Í fyrsta skipti í mörg ár eru ekki gefnar út neinar endurminningar Steingríms Hermannssonar. Hvernig er það, gerðist ekkert á árinu sem hann getur misminnt um?
Lögmál ársins: Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekikennari og atvinnu-Kona greindi frá því að „lögmál kapítalismanns [væri] stuldur“.
Óvissa ársins: Ef marka má nýútkomna ævisögu Björgvins Halldórssonar hefur enginn maður oftar spurt spurningarinnar: „Veistu hver ég er?“ – Er ekki kominn tími til að einhver segi manninum að hann sé þessi Bjöggi sem var í Bendix?
Slagorð ársins: Skjár einn – alltaf ókeypis. Reyndar mun ýmsum bændum þykja „Goði – alltaf góður“, litlu síðra.
Sjálfsblekking ársins: Sturla Böðvarsson: „Ég tek af skarið!“
Birting ársins: Össur Skarphéðinsson greindi frá því á landsfundi Samfylkingarinnar að bókhald flokksins yrði opnað. Einhvern tíma seinna.
Flopp ársins: Flugvallarkosningin varð að algerlega engu eins og næstum allir höfðu alltaf vitað. Andstæðingar flugvallarins voru næstum óendanlega langt frá því að safna nægilegu fylgi gegn vellinum og hann er því traustur í sessi.
Taugar ársins: Nokkrir fjölmiðlamenn á fimmtugsaldri töldu hins vegar að örlög heimsins réðust í flugvallarkosningunni og fóru yfirum.
Neikvæðni ársins: Valgerður Matthíasdóttir heldur úti sérstökum sjónvarpsþætti þar sem hún gagnrýnir hús og hýbýli fólks af algeru miskunnarleysi. Sér ekkert jákvætt við nokkurn hlut.
Eðlileiki ársins: Jón Ársæll Þórðarson. Þar er nú ekki tilgerðin. Engin uppgerðar upphafning þar á ferð. Arthúr Björgvin hvað?
Merki ársins: Samfylkingin kynnti nýtt flokksmerki á árinu. Fyrir valinu varð japanski fáninn.
Firmaheiti ársins: Undir forystu Árna Sigfússonar og Eyþórs Arnalds stofnuðu Tæknival og Íslandssími saman fjarskiptafyrirtækið Bla-bla.
Borginmannlegastir á árinu: Vinstri-grænir í Reykjavík segja við sjálfa sig á hverju kvöldi að þeir muni selja sig dýrt í samningaviðræðunum um R-listann. Allir aðrir vita að þeir fást frítt.
Grís ársins: Það er nú augljóst.
Útilokun ársins: Í síðari hluta marsmánaðar kom út heilt hefti af Séð og heyrt þar sem næstum útilokað var að finna litmynd af nokkrum úr nánasta skylduliði forseta Íslands. Nokkrum vikum síðar var svo efnt til stjórnmálaumræðna í sjónvarpssal án þátttöku Steingríms J. Sigfússonar og Kolbrúnar Halldórsdóttur. Og segiði svo að það sé alltaf verið að tala við sama fólkið.
Bílainnflytjandi ársins: Gísli S. Einarsson. And there are some spooky things going on in that case.
Magalending ársins: Evrópustefna Samfylkingarinnar. Á endanum trúir enginn á hana nema Magnús Skarphéðinsson.
Fjármálafyrirtæki ársins: Ógilding hf.
Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.
Mannfall ársins: „800-900“ manns mættu við upphaf landsfundar Samfylkingarinnar. 150 kusu forystu tveimur dögum síðar.
Samanburður ársins: Nokkrum dögum áður höfðu rúmlega 700 manns mætt í Valhöll til að kjósa stjórn Heimdallar.
Umburðarlyndi ársins: Tóbaksvarnarlögin. Þar er meira að segja bannað að tala um tóbak.
Úrelding ársins: Forystumenn Vinstri-grænna voru leiftursnöggir að benda á að árásirnar á Bandaríkin sýndu glögglega að geimvarnakerfið virkaði ekki.
Bakslag ársins: Eftir að hafa árum saman lagt á sig ómælt erfiði til að breyta þeirri ímynd að þar haldi einkum til þrjótar og slúbbertar eru íbúar Harlem-hverfis í New York aftur komnir á byrjunarreit, nú þegar að Bill Clinton hefur opnað þar skrifstofu sína.
Samfylkingarmenn ársins: Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna. Ætlar enginn að segja þeim að þeir fóru í rangan flokk? Eða var bara „styst á toppinn“ í Framsókn?
Nauðsyn ársins: Einar Kl. Bárðarson benti réttilega á það, að Birta yrði að vera sungin á ensku svo hún myndi ná langt í eurovision.
Staðfesta ársins: Mörður Hörður Árnason taldi það algert grundvallaratriði að íslenska lagið í eurovision yrði sungið á íslensku en ekki öðru tungumáli. Og skipti algerlega um skoðun þegar áðurnefndur Einar var ósammála honum.
Kaupandi ársins: Halldór Ásgrímsson greiddi hundruð milljóna fyrir lóð undir sendiráð í Tokyo. Af hverju keypti maðurinn ekki af Guðna Ágústssyni? Sú jörð hefði að vísu ekki verið eins miðsvæðis en hefði fengist á mun betra verði.
Landnemi ársins: Ísólfur Gylfi Pálmason helgaði sér land austur í Fljótshlíð.
Eirðarleysi ársins: Haraldur Örn Ólafsson var varla kominn heim af Norðurpólnum þegar hann æddi af stað til að ganga á einhverja sjö fjallstinda sem fæstir höfðu heyrt nefnda áður. Morgunblaðið segir frá hverju skrefi eins og fleiri en Harald Örn varði um þetta málefni.
Þrjóska ársins: Landsfundir Sjálfstæðisflokksins halda áfram að krefjast breytinga á fæðingarorlofslögunum þó allir aðrir viti að Geir Haarde hlær að landsfundum nema rétt á meðan varaformannskjörið fer fram.
Frekjur ársins: Samtök um byggingu tónlistarhúss slá sennilega kvikmyndagerðarkórinn út. En tæpt er það.
Samningamaður ársins: Björn Bjarnason heldur áfram að gera „samninga“ við þrýstihópa. „Samningarnir“ ganga allir út á að tryggja þrýstihópunum fjárframlög mörg ár fram í tímann og skattgreiðendum útgjöld að sama skapi.
Svarttagallsraus ársins: Spírall.
Munaður ársins: Stjórnarflokkarnir virðast ákveðnir í að skemma hagkvæmasta fiskveiðistjórnarkerfi heims til þess að reyna að ná tilgangslausri „sátt“ við þá sem vilja engar sættir.
Ofstopamenn ársins: Forystumenn Samkeppnisstofnunar halda áfram blóðugu stríði sínu gegn frjálsum viðskiptum. Þessu hlýtur að fara að ljúka bráðlega með algerum sigri annars hvors.
Dreifing ársins: Fréttablaðið. Til eru þeir sem segjast hafa fengið það sent heim jafnvel tvo daga í röð.
Hlutleysi ársins: Ríkisútvarpið heldur enn daglega úti sérstökum þætti, Speglinum, sem sérhæfir sig í pólitískum rétttrúnaði, heimsendaspám, spillingarkenningum og baráttu gegn „alþjóðavæðingu“. Við þetta er svo bætt pólitískum pistlum kunnra vinstri manna og allt glundrið sent út á báðum rásum ríkisins svo fleiri fái notið ruglsins.
Bla bla ársins: Leiðarar Morgunblaðsins hafa á einu ári orðið að yfirborðskenndri en mærðarlegri samsuðu pólitísks rétttrúnaðar.
Léttir ársins: Þungu fargi var létt af mönnum í febrúar þegar bæjarstjórn Mosfellssveitar tilkynnti loksins að bærinn væri „kjarnorkuvopnalaust svæði“.
Aðgengi ársins: Öryrkjabandalagið upplýsti í desember að heimasíða stjórnarráðsins uppfyllti skilyrði um aðgengi fatlaðra. Að mestu.
Lausn ársins: Á landsfundi Samfylkingarinnar var aðallega rætt um það hvort trikkið gæti verið að skipta einu sinni enn um nafn á flokknum. Sjö mismunandi tillögur komu fram um það en ekki tókst að afgreiða nokkra einustu.
Fréttamaður ársins: Muhammad Múlla Ómar Ragnarsson hálendisfréttamaður hefur sennilega fundið bæði allar hugsanlegar og óhugsandi röksemdir sem nota má gegn virkjunum á hálendinu.
Svefnlyf ársins: Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra.
Félagshyggjumaður ársins: Steingrímur J. Sigfússon sagði að fæðingarorlofslögin, sem færa hátekjufólki margfaldar bætur á við lágtekjufólk og gera mun verr við börn einstæðra foreldra en börn annarra, væru „heillaspor í félags- og jafnréttislegu tilliti“.
Aðhald ársins: Ungir vinstri-grænir vaka yfir hverju spori sinna manna og gagnrýna þá miskunnarlaust ef þeir fara með rugl.
Ábending ársins: Þórunn Sveinbjarnardóttir benti landsmönnum á að þeir „ættu alltaf að forðast alhæfingar.“ Alltaf. Undantekningarlaust.
Sameining ársins: Í sumar var ákveðið að sameina fyrirtækin Aco og Tæknival og ná þannig umtalsverðri hagræðingu.
Hagræðing ársins: Í haust var ákveðið að skipta fyrirtækinu Aco-Tæknivali í tvennt og ná þannig umtalsverðri hagræðingu.
Drengskaparbragð ársins: Þegar öll spjót stóðu á Árna Johnsen hafði gamall vinur hans, Gísli Helgason blokkflautuleikari, samband við fjölmiðla og greindi frá því að hann hefði ekki innheimt virðisaukaskatt af þjónustu Blindrafélagsins við Árna. Fjölmiðlar slógu því upp en gleymdu að þetta var glæpur Gísla – en ekki Árna.
Kæruefni ársins: Áðurnefndur Gísli kærði byggingaráform Kára Stefánssonar þar sem hann taldi að sitt eigið hús þætti ræfilslegt við hliðina á húsi Kára.
Utanríkisráðherra ársins: Nýr utanríkisráðherra, Abdúlla Abdúlla að nafni, tók við embætti í Afganistan. Menn skyldu forðast að rugla honum saman við Abdúlla Abdúlla, konung Jórdaníu.
Skilaboð ársins: Dómsmálaráðherra og skjaldmær hennar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sögðust vilja senda fíkniefnaseljendum og -kaupendum „skýr skilaboð“ og hækkuðu refsirammann við brotum þeirra úr 10 árum í 12. Fíkniefnabrot heyra því væntanlega sögunni til, hvað úr hverju. Sem er eins gott því Ísland á að verða „fíkniefnalaust árið 2002“. Þetta mun sennilega gerast einhvern tíma eftir miðnætti í nótt.
Stílbrot ársins: Í einstæðum Kastljósþætti, þar sem þáverandi formaður Geðhjálpar sat fyrir svörum, gerðist sá atburður að Gísla Marteini þótti ekki allt fyndið sem viðmælandi hans sagði.
Lögskýringar ársins: Gervöll stjórnarandstaðan hélt langar og heitar ræður um það að Hæstiréttur Íslands hefði með dómi slegið því föstu að óheimilt væri að skerða örorkubætur vegna hárra tekna maka öryrkjans. Gervallur Hæstiréttur Íslands andmælti þessum fullyrðingum stjórnarandstöðunnar.
Undanbrögð ársins: Al Þorsteinsson reyndi að draga athygli borgarbúa frá fjárhagsstöðu Línu.nets með því að efna til umræðu um „sölu Perlunnar“. Hann blekkti þó engan nema auðvitað forystu Heimdallar og SUS sem héldu að nú væri farin í gang merk umræða um einkavæðingu opinberra bygginga.
Stuðningur ársins: Þegar þjóðarleiðtogar um víða veröld kepptust við að lýsa stuðningi sínum við að þegar í stað yrðu hafðar hendur í hári – og skeggi – þeirra sem stóðu að árásunum á Bandaríkin, gerði forseti Íslands hlé á opinberri heimsókn sinni til Raufarhafnar og flutti heiminum sérstakt ávarp þar sem hann minnti á að til einskis væri að leita friðar „í hefndinni“.
Fjölmiðill ársins þakkar lesendum sínum fyrir samfylgdina á árinu og óskar þeim velgengni og góðvildar á komandi ári.