Miðvikudagur 19. desember 2001

353. tbl. 5. árg.

Í bók sinni Earth in Balance sagði Al nokkur Gore að „flóðbylgja sorps kæmi úr borgum og verksmiðjum okkar“. Hann taldi einnig að vandamálið væri „að við hefðum alltaf gert ráð fyrir að til væri nægilega stór hola til að taka við öllu ruslinu frá okkur. En eins og svo margar aðrar ályktanir um getu jarðarinnar til að taka við áhrifum mannkyns er hún röng.“ Það þarf ekki að fjölyrða frekar um hina miklu vá sem margir telja að búi í ruslafötum manna um víða veröld. Al Gore er aðeins einn af mörgum sem átt hefur bágt með svefn við niðinn frá sorpflóðinu. En svo eru líka til menn sem hafa í raun ekki áhyggjur af þessu en nota málið engu að síður til að slá um sig sem umhverfisverndarmenn.

Woodward sýsla í Oklahoma í Bandaríkjunum lætur ekki mikið yfir sér. Hún er innan við 0,04% af flatarmáli Bandaríkjanna. Engu að síður kemst hún á blað í nýrri bók Björns Lomborgs The Sceptical Environmentalist: Measuring the Real State of the Planet. Vefþjóðviljinn hefur áður sagt frá fyrri útgáfum þessarar bókar sem komið höfðu út á dönsku og íslensku undir nafninu Hið sanna ástand heimsins. Nú er bókin sumsé komin út á ensku í aukinni og endurbættri útgáfu. Ástæðan fyrir því að Lomborg gerir Woodward sýslu skil í bókinni er að hann notar hana sem dæmi um landsvæði sem lendir undir sorpflóðinu mikla. Ef allt sorp sem fellur til í Bandaríkjunum næstu 100 árin færi í einn farveg sem lægi til Woodward myndi 26% af sýslunni fara í kaf undir 30 metra hátt flóðið. Það gera innan við 0,009% af flatarmáli Bandaríkjanna. Það er rétt að taka það fram að Lomborg reiknar bæði með að Bandaríkjamenn verði tvöfalt fleiri árið 2100 en nú og að sorpmagnið frá hverjum haldi áfram að aukast með sama hraða og undanfarna áratugi.

Lomborg lýkur kafla sínum um plássið sem fer undir sorpið með hugleiðingu um endurvinnslu. Hann varar við blindri trú á endurvinnslu og í mörgum tilvikum sé það hrein sóun að safna saman, flokka, flytja sorpið á endurvinnslustöðvar og endurvinna það. Til dæmis nefnir hann að nýjar rannsóknir bendi til að hagkvæmara sé að framleiða nýjan pappír en endurvinna notaðan.