Þriðjudagur 11. desember 2001

345. tbl. 5. árg.

Þær eru nokkuð skondnar fréttirnar sem nú er skyndilega farið að segja, hverja á fætur annarri, um nauðsyn þess að þegar í stað verði hafnar svo kallaðar rafrænar kosningar á Íslandi. Dag eftir dag birtist nú einhvers staðar frétt þar sem haft er eftir einhverjum náunga, nafngreindum eða ónafngreindum, að ekki aðeins sé brýn nauðsyn á rafrænum kosningum heldur sé það stórhættulegt – auk þess að vera gamaldags og þegar af þeirri ástæðu slæmt – að þessi „óhjákvæmilega þróun“ tefjist um stund.

Öllum þessum fréttum fylgir svo sú spaugilega fullyrðing að félagsmálaráðuneytið hefði ætlað að gera þessar rafrænu kosningar mögulegar en hefði hins vegar hætt við eftir að landsfundur Sjálfstæðisflokksins lýsti sig andsnúinn þeim í haust. En, er það ekki sama félagsmálaráðuneytið og bar fram fæðingarorlofslögin með þeirri útfærslu sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins sérstaklega hafnaði? Að vísu naut félagsmálaráðherra mjög dyggrar og einbeittrar aðstoðar Geirs H. Haardes til að hafa þann vilja landsfundarins að engu, og ekki er víst að aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins geri jafn lítið með landsfundarsamþykktir og Geir, en það er samt ekki nema mátulega trúlegt að ráðherrar séu í raun að fara eftir landsfundarviljanum. Hér getur eitthvað annað spilað inn í.

Fyrir rafrænu kosningunum eru einkum færð tvenn rök. Í fyrsta lagi leiði þær til þess að talning atkvæða taki skemmri tíma en nú og í öðru lagi að lítil sem engin hætta sé á að atkvæði verði ógild. Sennilega er hvort tveggja rétt. En það er ekki þar með sagt að ekki séu ókostir við þessa lofuðu hugmynd. Í fyrsta lagi má nefna – þó vefrit sé ekki endilega heppilegasti vettvangurinn til þess – að landsmenn eru mjög mishandgengnir tölvum og öllu því sem rafrænt er. Eftir því sem menn eru eldri er tölvukunnátta þeirra og sjálfstraust þeirra gagnvart tölvum minna og þurfa menn ekki að efast um að margir þeirra sem eldri eru myndu veigra sér við gerbreyttum kosningaaðferðum. Elstu kjósendurnir myndu margir hverjir líta svo á að þeirra væri hreinlega ekki vænst á kjörstað, að þeir hefðu verið afskrifaðir.

En þetta – sem margir munu auðvitað hlæja dátt að – er svo sem ekki aðalatriðið. Nokkur atriði eru mikilvæg þegar ákveðið er hvernig hagað er lýðræðislegri kosningu. Aðferðin þarf að vera það einföld að menn geti auðveldlega skilið hvernig hún fer fram. Hún þarf að skila réttri niðurstöðu, það er að segja, hún þarf að skila niðurstöðu sem er í samræmi við vilja þeirra sem gera sér ferð á kjörstað. Og hún verður að vera þess eðlis að kjósendur bæði treysti og hafi ástæðu til að treysta þeirri niðurstöðu sem sögð er hafa „komið upp úr kössunum“. Núverandi aðferð uppfyllir öll þessi skilyrði. Kosningaaðferðin getur varla talist flókin eða torskilin og þá hefur því aldrei verið haldið fram að niðurstaða kosninga hafi verið verið „röng“, það er að segja að niðurstaðan hafi orðið öðruvísi en kjósendur stofnuðu til. Og hver þekkir dæmi þess að menn hafi talið að brögð hafi verið í tafli? Frambjóðendum gefst færi á að sitja í kjördeildum þar sem kjósendur fá afhenta seðla og fulltrúar frambjóðenda fylgjast með talningu atkvæðaseðlanna sem svo liggja fyrir, ef einhver telur ástæðu til endurtalningar. Svo eru þeir sem gera ógilt – viljandi. Ýmsum hefur til dæmis þótt það vænlegra til árangurs að hripa vísu eða nokkur vel valin orð á kjörseðilinn en að kjósa einhvern af þeim flokkum sem í boði eru.

En hvernig yrði það með rafrænu kosningarnar? Sennilega yrði aðferðin við þær einnig það einföld að flestir myndu skilja hana, einkum eftir því sem tímar liðu. Og óþarfi er að efast um að hægt væri að forrita tölvurnar þannig að „rétt“ niðurstaða fengist. En hvað með traust kjósenda á talningunni? Jújú, Valli í Fræbblunum eða einhver sambærilegur kæmi eftir á og segði að allt hefði farið rétt fram. En þegar úrslit verða tvísýn – eða jafnvel þvert á allar kannanir – hverju munu menn þá trúa? Engir kjörseðlar sýnilegir og allt fer fram með rafboðum sem fæstir hafa skilning á. Hversu auðvelt verður það ekki fyrir þann sem vill, til dæmis þann sem er ósáttur við sinn hlut, að rýra umboð sigurvegaranna með því að koma svindlsögum á kreik?

Tölvusérfræðingar munu kannski hlæja hátt að öllum vitleysingunum og segja að svindl sé bara útilokað. Og kannski munu þeir hafa rétt fyrir sér. En kannski ekki og þeir ættu ekki að gleyma því, að kosningar eru hugsaðar sem aðferð venjulegs fólks við að velja stjórnendur en ekki tæki forritara til að sýna hvað þeir geta.