Í fréttum eftir samþykkt fjárlaga fyrir næsta ár skýrði fjármálaráðherra frá því að hin nýju lög væru „skýr skilaboð“ út í þjóðfélagið um að menn ættu að „spara“. Þarna hitti fjármálaráðherrann naglann á höfuðið. Landsmenn munu til dæmis þurfa að spara fyrir hækkun á bifreiðagjaldi, hækkun á afnotagjöldum ríkisútvarpsins, hækkun á tryggingargjaldi og fleiri hækkunum sem ríkið hefur boðað. Þetta eru vissulega skýr skilaboð frá ráðherranum: Þið þurfið að spara því ég mun ekki gera það.
Á næsta ári er gert ráð fyrir samdrætti landsframleiðslu í fyrsta sinn frá árinu 1992. En ríkið mun halda áfram að auka eyðslu sína. Gangi fjárlög næsta árs eftir hafa ríkisútgjöld aukist um 50 milljarða króna frá árinu 1998. Hver fjögurra manna fjölskylda þarf því að greiða 180 þúsund krónum meira í skatt til ríkisins á næsta ári en árið 1998. Við þetta bætist svo aukin skattheimta sveitarfélaga sem er ekki „síðri“. Á næsta ári munu landsmenn vinna stærri hluta ársins en nokkru sinni fyrr fyrir sköttum til ríkis og sveitarfélaga. Það kæmi ekki á óvart að skattadagurinn svonefndi, sem Heimdallur félag ungra sjálfstæðismanna minnir á árlega, yrði í fyrsta lagi 17. júní á næsta ári en hann var 29. maí árið sem Geir H. Haarde komst í fjármálaráðuneytið.
Vegna samdráttarins í þjóð
félaginu
á næsta ári má svo fljótlega búast við hefðbundnum söng um að ríkið þurfi að nýta lægðina í efnahagslífinu til að flýta framkvæmdum og auka umsvif sín. Þannig megi „koma hjólum efnahagslífsins á stað á nýjan leik“. Þeir sem kyrja þennan söng líta algjörlega framhjá neikvæðum áhrifum af útgjaldaaukningu hins opinbera. Þessi neikvæðu áhrif eru einmitt að koma fram núna. Þessir menn halda að besta lyfið gegn samdrætti sé eitrið sem kom samdrættinum af stað.