Í Spíral, heilaþvottarþætti ríkisins, sem sýndur er sem barnaefni tvisvar í viku um þessar mundir fá börnin að kynnast því hvernig fyrirmyndarþjóðfélagsþegnar gera. Hetjur alþýðunnar á radíóstöð ríkisins hlýða nú kallinu „umhverfisvæna fjölskyldan“. Meðal þess sem umhverfisvæna fjölskyldan gerir og allir sannir þegnar skyldu gera er að hún ræktar sitt eigið grænmeti. Þannig kemst hún hjá því að eta „marga kílómetra“ af grænmeti en samkvæmt altæku matarkílómetrakenningu Spírals er það dekur við auðvaldskerfið og andstætt umhverfinu að eta mat sem fluttur hefur verið langt að. Góða fólkið notar heldur ekki tilbúinn áburð við ræktunina.
Umhverfisverndarsinnar um allan heim hafa á undanförnum áratugum lagt mikla áherslu á „þéttingu byggðar“. Þessi margumrædda þétting byggðar sem á síðustu árum hefur einnig náð hingað til lands er ekki síst til höfuðs bílnum, andskota umhverfisverndarmanna númer eitt. Nú er ekki gott að átta sig á því hvernig það fer saman að búa í þvögu og rækta matinn ofan í sig. Það er ekki beint gert ráð fyrir stórum akri við hvert hús í draumaríki þéttrar byggðar.
Svonefnd ósnortin náttúra er umhverfisverndarsinnum ekki síður mikilvæg. Helst má náttúran ekki þreifa á sjálfri sér áður en umhverfisverndarmenn njóta hennar. Það liggur því mikið við að sem minnst land fari undir ræktun ofan í mannsskepnuna. Nú blasir það við að ef hver maður tæki upp á því að rækta sjálfur ofan í sig færi margfalt meira land undir ræktun en nú er. Það liggur einnig í augum uppi að tilbúinn áburður er ekki notaður að ástæðulausu. Hann er notaður vegna þess að þannig ná menn meiri uppskeru af sama landi. Þeir sem vilja „lífræna“ eða „vistvæna“ ræktun eru í raun ekki að biðja um annað en að meira verði snert af náttúrunni en þörf er á, meira land tekið undir ræktun en ella.