Þriðjudagur 4. desember 2001

338. tbl. 5. árg.

Mörður Árnason er varaþingmaður, útvarpsráðsmaður hjá Ríkisútvarpinu, áhugamaður um þjóðmál og stýrði jafnvel ágætum þætti við annan mann um þjóðmálin á Stöð 2 hér um árið. Kjósendur launa líka Merði vandaða varaþingmennsku og önnur störf í þágu lands og þjóðar með því að tryggja honum reglulega endurkjör sem varaþingmaður. Vefþjóðviljinn er kannski ekki alltaf sammála Merði en styður hann eindregið í varasæti á Alþingi. Þetta glæsilega endurkjör er eitt af fáum málum sem kjósendur hafa sameinast um og óþarft að spilla því.

Það má hins vegar ekki gera kröfu um að menn á varamannabekknum þekki lögin sem aðalmenn á Alþingi Íslendinga hafa sett. Jafnvel þótt menn séu áhugasamir um þjóðmál og lögin hafi oft verið til umræðu og í fréttum allra fjölmiðla. Allra síst ef menn eru útvarpráðsmenn og lögin sem um ræðir eru um Ríkisútvarpið. Og enn síður ef þessir sömu menn hafa verið undanþegnir lögunum árum saman án þess að fyrir því sé nokkur lagaheimild. Hvernig eiga varaþingmenn að vita af lagagrein sem ekki er til?

Þetta sannaðist á dögunum þegar Mörður Árnason varaþingmaður lét setja sig aftur á skrá yfir greiðendur afnotagjalda Ríkisútvarpsins ásamt öðrum fulltrúa Samfylkingar í útvarpsráðinu. Mörður og aðrir útvarpsráðsmenn ásamt starfsmönnum Ríkisútvarpsins hafa verið undanþegnir greiðslu afnotagjaldanna án þess að fyrir því sé lagaheimild. Ekki er gert ráð fyrir neinum undanþágum frá greiðslu afnotagjalda í lögum um Ríkisútvarpið. Þetta hefur verið gagnrýnt af og til á liðnum áratug en stjórnendur Ríkisútvarpsins látið sem vind um eyru þjóta. Mörður Árnason varaþingmaður vissi því auðvitað ekki af þessari gagnrýni fyrr en nú og lét því DV hafa eftir sér í gær: „Þegar við sáum að ekki var skýr lagaheimild fyrir þessu, sem við vissum ekki áður, létum við setja okkur aftur á skrána.“