Nú hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri enn einu sinni gleymt hver var kjörinn til að stýra Reykjavíkurborg. Hún lætur hafa eftir sér að hún „auglýsi eftir borgarstefnu ríkisins“. Ríkið hafi enga sjálfstæða stefnumótun um hlutverk borgarinnar og höfuðborgarsvæðisins í atvinnu- og efnahagsþróun 21. aldarinnar. Já, vandamálin eru greinilega margvísleg og ærin, og ekki er hlæjandi að þungum áhyggjum borgarstjóra. Ríkið hefur ekki stefnu varðandi borgina og mikil vá er því fyrir dyrum. Eða hvað? Nei, það er reyndar engin vá fyrir dyrum vegna þessa og borgarstjóri getur verið alveg áhyggjulaus. Ríkið þarf enga stefnumótun um alla hluti og á ekkert að skipuleggja atvinnumál í Reykjavík – ekki frekar en annars staðar á landinu. Hlutverk ríkisins er ekki að handstýra atvinnu- og efnahagsmálum og ríkið þarf enga sérstaka stefnumótun til að láta atvinnulífið í friði. En hlutverk ríkisins í atvinnumálum á einmitt að vera að láta atvinnulífið í friði eins og frekast er unnt og leyfa því að dafna með eðlilegum hætti. Það er hins vegar hlutverk borgaryfirvalda að sinna skipulagsmálum í borginni og ef einhver vandi er uppi varðandi framtíðarskipulag atvinnulífs í borginni þá væri eðlilegt að borgarstjóri ræddi það á meirihlutafundum R-listans og í borgarstjórn, en léti vera að blanda óskyldum aðilum í málið.
Þetta er reyndar gamall og þreyttur söngur hjá borgarstjóra að kvarta yfir ríkinu ef eitthvað bjátar á í borginni. Annar gamall og þreyttur söngur er jafnan sunginn fyrir kosningar og það er „hverfalýðræði“ eða hvað það nú kallast að láta sífellt kjósa um það sem stjórnmálamenn þora ekki að leiða sjálfir til lykta. R-listinn hefur síðustu átta árin lofað „auknu lýðræði“ í borginni og lætur eins og hann vilji leyfa íbúum að ráða meiru um nágrenni sitt. Efndirnar skortir hins vegar og enginn hefur orðið var við að lýðræði hafi aukist í borginni með tilkomu R-listans. Ef eitthvað er mætti segja að það hefði minnkað, því borginni er nú mest stjórnað með baktjaldamakki milli flokka og flokksbrota og enginn veit í raun hver ræður hverju eða hvaða stefna verður tekin í einstökum málum. Og þessir sem makka að tjaldabaki hafa ekki nema að hluta til stuðning sinna flokka eða flokksbrota, því þeir komust á framboðslistann vegna kvótabrasks að hætti vinstri manna, en ekki vegna stuðnings kjósenda.