Helgarsprokið 2. desember 2001

336. tbl. 5. árg.

Það virðist liggja í eðli umræðna um stjórnmál, að af og til komast einhverjir frasar í tísku. Þeir eru endurteknir í sífellu af stjórnmálamönnum, dálkahöfundum í blöðum og pistlahöfundum ljósvakamiðlanna, oftast nær gagnrýnislítið eða gagnrýnislaust, og verða þannig einhvers konar útgangspunktur, viðmiðun eða jafnvel sannleikur í hugum margra. Stundum felst kannski í frösunum eitthvert sannleikskorn en það þarf þó ekki alltaf að vera raunin.

„Það er hins vegar dálítið holur hljómur í frasanum um skort á umræðu um Evrópusambandið. Fá málefni, ef nokkurt, hafa fengið jafn mikla athygli hér á landi í áraraðir.“

Einn vinsælast frasinn í stjórnmálaumræðum á Íslandi í dag hljóðar eitthvað á þá leið, að hér eigi enn eftir að fara fram víðtæk og ítarleg umræða um kosti og galla aðildar landsins að Evrópusambandinu. Látið er í veðri vaka að litlar sem engar vitrænar umræður hafi átt sér stað um þetta efni og jafnframt gefið í skyn að óhjákvæmileg niðurstaða umfangsmikillar og faglegrar umræðu um þetta efni hljóti að vera sú, að hag landsins sé betur borgið innan sambandsins en utan. Oft er því svo bætt við, að ákveðnir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn hafi með einhverjum óútskýranlegum hætti komið í veg fyrir þessar umræður, jafnvel bannað þær.

Þessi söngur hefur verið hávær í mörg ár. Upphaflega heyrðist hann einkum frá stjórnmálamönnum úr Alþýðuflokknum sáluga, sem vildu hefna þess í Brussel sem hallaðist á Alþingi, og voru óánægðir með það hvað þjóðin virtist lítið spennt fyrir því fagnaðarerindi sem þeir boðuðu um farsæla framtíð Íslendinga í sósíaldemókratískri Evrópu. Einfaldasta skýringin á því að kjósendur studdu þá ekki hlaut að vera sú, að almenning skorti þekkingu, og þekkingin væri ekki fyrir hendi þar sem „upplýst og fordómalaus umræða“ um kosti og galla aðildar hefði ekki átt sér.

Síðan hafa fleiri tekið upp þennan sama söng, bæði atvinnustjórnmálamenn og áhugapólitíkusar, og er nú svo komið að annar hver álitsgjafi í fjölmiðlum álítur það vísasta veginn til að sýnast víðsýnn heimsborgari og upplýstur nútímamaður, að kvarta yfir því að Evrópusambandsumræðu vanti og að skýringin sé sú að Davíð Oddsson hafi bannað hana! Kenningin hefur líka haft mikið aðdráttarafl fyrir ákveðna gerð háskólakennara; sumir af eldri kynslóðinni virðast hafa tekið hana upp til að sannfæra sjálfa sig og aðra um að þeir séu nútímalegir og fylgist með tímanum, en sumir hinna yngri virðast annað hvort hafa tekið trú á Evrópusambandið eins og margir forvera þeirra tóku trú á kommúnismann og Moskvuvaldið, eða að öðrum kosti hreinlega ákveðið að gera Evrópusambandsmálin að lifibrauði sínu með einum eða öðrum hætti. Fyrir þá síðastnefndu er það að sjálfsögðu mikið hagsmunamál að sannfæra fólk um að brýn þörf sé á „vandaðri og faglegri“ skoðun í þessum efnum, enda telja þeir sig allra manna best fallna til að inna af hendi þá miklu vinnu.

Það er hins vegar dálítið holur hljómur í frasanum um skort á umræðu um Evrópusambandið. Fá málefni, ef nokkurt, hafa fengið jafn mikla athygli hér á landi í áraraðir. Á níunda áratugnum áttu sér stað talsverðar umræður um þetta efni, svo sem á vegum hagsmunasamtaka í atvinnulífinu og innan stjórnmálaflokkanna. Á árunum í kringum 1990 urðu talsverðar umræður um hvort hagstæðara væri fyrir Íslendinga að tengjast Evrópusambandinu með tvíhliða samningum, þátttöku í stofnun evrópska efnahagssvæðisins eða jafnvel með því að sækja um fulla aðild. Niðurstaðan varð sem kunnugt er EES-samningurinn og strax og frá honum hafði verið gengið upphófst mikil umræða um það hvort Íslendingar ættu að fylgja hinum Norðurlöndunum í aðildarviðræðum við ESB eða láta EES-samninginn duga. Niðurstaðan varð EES-leiðin og það var niðurstaða sem fékkst að loknum umræðum en alls ekki umræðulaust! Allt frá þessum tíma hafa svo stuðningsmenn fullrar aðildar haldið uppi miklum áróðri fyrir málstað sínum, skrifað ótal greinar í blöð og tímarit, komið fram í ótal útvarps- og sjónvarpsþáttum, haldið fjölmörg málþing og ráðstefnur um efnið, svo ekki sé talað um allar tillögurnar og ræðurnar, sem þeir hafa flutt á fundum stjórnmálaflokka, þingum hagsmunasamtaka og annars staðar þar þeir hafa séð sér fært að koma málstað sínum á framfæri. Málflutningur þeirra hefur kallað á umræður og skoðanaskipti út um allt þjóðfélagið. Á sama tíma hafa stjórnvöld og ýmsir hagsmunaaðilar reglulega tekið þessi mál til athugunar, þykkar skýrslur hafa verið skrifaðar og mikil vinna lögð í að fylgjast með þróuninni hjá sambandinu og hver áhrif hún muni hafa á hagsmuni Íslendinga.

Ef farið er yfir sviðið og skoðað hve mikilli orku hefur verið varið í athugun á kostum og göllum aðildar að Evrópusambandinu, verður ekki annað séð en umræðan hafi átt sér stað og hún hafi oft á tíðum verið mikil og ítarleg, stundum vönduð og málefnaleg en stundum ekki, eins og gengur og gerist. Haldi menn því fram að umræðan hafi ekki átt sér stað verður að kalla eftir svörum við því hvar umræða af þessu tagi ætti að eiga sér stað og hvaða aðilar hafi brugðist hlutverki sínu í þessu sambandi. Hafa fjölmiðlar brugðist? Hafa þeir ekki haldið uppi mikilli og ítarlegri umræðu um Evrópusambandsaðild? Svarið við því er að fá mál hafa fengið meiri athygli í fjölmiðlum á undanförnum árum. Hafa hagsmunasamtök fyrirtækja og launþega brugðist? Svarið við því er sú að þau hafa flest varið mikilli orku og tíma í umræður um þessi efni, haldið fundi með sérfróðum fyrirlesurum, sent frá sér skýrslur um efnið og tekið það fyrir aftur og aftur á ráðstefnum sínum, aðalfundum og landsþingum. Sama er að segja um stjórnmálaflokkana. Þeir hafa flestir verið lifandi vettvangur umræðu af þessu tagi ár eftir ár. Þar hefur hvað eftir annað verið tekist á um þetta á umræðufundum, í málefnanefndum og landsfundum. En hefur Háskólasamfélagið brugðist? Ekki lítur út fyrir það. Þvert á móti hefur óhemju tíma verið varið þar til umræðna af þessum toga, háskólakennarar hafa haldið fyrirlestra, skrifað greinar og skýrslur um efnið, efnt til sérstakra námskeiða á þessu sviði, hvatt nemendur til að rannsaka ákveðna þætti þess og svo má lengi telja. Og má þá að lokum spyrja hvort stjórnkerfið hafi brugðist. Sennilega er svarið neikvætt. Skýrslur hafa verið skrifaðar, starfsgildum embættismanna sem starfa að þessum málum hefur verið fjölgað verulega og miklum tíma varið í Evrópusamstarf.

Niðurstaða „faglegrar og fordómalausrar“ skoðunar á því, hvort „ítarleg og málefnaleg“ umræða hafi átt sér stað um ESB-aðild, hlýtur því að vera jákvæð. Umræðan hefur átt sér stað og á auðvitað að eiga sér stað. Það er nauðsynlegt fyrir Íslendinga að fylgjast stöðugt með hvað er að gerast í heiminum í kringum þá og meta og endurmeta stöðugt þá kosti sem eru í boði í því sambandi. Það, að halda því fram að umræðan hafi verið barin niður og málin hafi ekki verið athuguð nægilega vel, er aðeins tilraun til að breiða yfir þá staðreynd, að Evrópusambandssinnum hefur fram til þessa mistekist að afla sjónarmiðum sínum fylgis og fá vilja sínum framgengt. Í þeim efnum geta þeir engum um kennt nema sjálfum sér og málflutningi sínum, nema kannski að vandinn felist í sjálfum málstaðnum sem þeim er svo kær?