Menntamálaráðherra hefur gefið Ríkisútvarpinu heimild til að hækka afnotagjöld sín á almenning um 7%. Þá hafa afnotagjöldin hækkað um 14,5% á einu ári og Ríkisútvarpið hefur þar með gert meira en flestir í þessu þjóðfélagi til að halda verðlagi uppi. Nú telja ýmsir sjálfsagt að Ríkisútvarpið sé mikilvæg stofnun og „vilja standa vörð um það“. Sú varðstaða á svo að sjálfsögðu að vera á kostnað annarra. Í þessum hópi eru starfsmenn Ríkisútvarpsins en þeir kæra sig ekki um að greiða sín eigin afnotagjöld og gera það ekki þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli um hið gagnstæða.
Þótt Ríkisúvarpið sé einhverjum mikilvægt er samt ekki þar með sagt að allt annað verði að víkja fyrir hagsmunum þess. Það ætti til dæmis að nægja menntamálaráðherra til að hafna kröfunni um hækkun afnotagjalda að hækkunin fer beint út í verðlagið. Mörg fyrirtæki mega þola minnkandi tekjur um þessar mundir. Flest reyna að draga úr kostnaði til að mæta tekjutapinu, sum segja upp fólki og enn önnur fara á hausinn. En ekki Ríkisútvarpið. Það þarf að „standa vörð um“ að það geti eytt að vild og sent almenningi reikninginn. Ríkisútvarpið hefur því miður nýtt miklar auglýsingatekjur á undanförnum árum til að stofna til óraunhæfra útgjalda. Nú þegar þessar auglýisingatekjur minnka á það að draga saman og spara eins og aðrir í stað þess að senda almenningi reikninginn.
Að einu leyti er menntamálaráðherra að vísu vorkunn, en það er að um leið og tekið er á stofnuninni og ætlast til þess að hún hagi sér líkt og aðrar stofnanir og fyrirtæki, þ.e. spari þegar tekjur dragast saman, þá berjast starfsmennirnir á hæl og hnakka gegn sparnaðinum. Starfsmennirnir ræða þá liðlangan daginn um hversu mikil skerðing verði á þjónustunni og hversu óvönduð dagskráin verði ef sparað sé, og ólíkt starfsmönnum annarra stofnana þá senda þessir starfsmenn þessar prívatskoðanir út til allra landsmanna og á kostnað sömu landsmanna. Hvernig ætli eigendum annarra fjölmiðla þætti ef þeir þyrftu að þola það að í hvert sinn sem þeir neyddust til að hagræða í rekstri væru starfsmenn þeirra farnir að vinna gegn þeim og beittu fjölmiðlinum fyrir sig? Hvað ætli eigendur Skjás eins hefðu sagt ef starfsmennirnir eyddu drjúgum tíma dagskrárinnar í að kvarta undan sparnaðinum sem þar hefur verið gripið til? Og hvað segðu eigendur dagblaða ef blaðamenn skrifuðu fréttir um þær slæmu afleiðingar sem það hefði í för með sér að fækka blaðsíðum og segja upp fólki? Gera má ráð fyrir að þeim – og reyndar lesendum líka – þætti frammistaða starfsmannanna heldur sérkennileg.