Undanfarin þrjátíu ár og einu betur hefur Hið íslenzka bókmenntafélag haldið úti bókaflokki sem það nefnir Lærdómsrit sín. Hafa komið út yfir fimmtíu rit undir nafni flokksins og eru mörg þeirra líkleg til að vekja áhuga hugsandi lesenda. Sérstaklega má hér nefna Ritgerð um ríkisvald eftir John Locke og Frelsið eftir John Stuart Mill, en vitaskuld eru margar aðrar athyglisverðar og skemmtilegar bækur í þessum flokki. Nú fyrir jólin hefur Bókmenntafélagið gefið út nokkur ný Lærdómsrit, þar á meðal eitt sem nokkuð er komið til ára sinna, Germaníu eftir rómverska öldungaráðsmanninn Cornelium Tacitum í íslenskri þýðingu Páls Sveinssonar frakkneskukennara. Talið er að um þessar mundir séu eins og eitt þúsund og níuhundruð ár síðan ritið var sett saman og má hafa það í huga þegar sagnfræðilegt gildi þess er metið.
En þó sagnfræðilegt gildi verksins sé ekki algert – eins og rakið er í inngangi Guðmundar Guðmundssonar sagnfræðings – þá er ritið skemmtileg og athyglisverð lesning, sérstaklega ef menn lesa það sér til skemmtunar fremur en til að draga af algildar ályktanir. Í ritinu er fjallað um ýmsa þjóðflokka germana sem bjuggu norðan við Rómaveldi og þeim og lifnaðarháttum þeirra lýst og eru margar lýsingarnar hinar skemmtilegustu:
„Germanar sofa venjulega langt fram á dag, en lauga sig þegar, er þeir vakna, að jafnaði úr volgu vatni, með því að vetrarríki er þar mikið. Er þeir hafa laugast, er sest að snæðingi, og hefir hver sitt sæti við sérstakt borð. Þá ganga þeir til starfa eða setjast öllu oftar að sumbli, og ávallt vopnaðir. Er það hverjum manni vansalaust að drekka dægrum saman. Verður þá einatt missætti, svo sem títt er með ölvuðum mönnum, og er það sjaldnast jafnað með orðasennum, heldur öllu heldur með vígum og blóðsúthellingum. En í þessum samkvæmum ræða þeir alloftast um sættir óvina, um mægðir, um kjör þjóðhöfðingja og loks um frið og ófrið, með því að þá séu hugsanir manna einlægari en nokkuru sinni endranær, og að aldrei séu menn örari til stórræða en einmitt þá.“ |
Germanir eru sagðir hafa ráðið ráðum sínum á þingum og að um mikilvægustu mál hafi allir átt atkvæði. Og á þingunum bar margt á góma:
„Þá lýsir presturinn þinghelgi og hefir hann typtunarvald á þinginu, en þar næst tekur konungur til máls, eða oddviti, eftir því sem hver hefir aldur til, ættgöfgi, afreksverk eða orðgnótt; hlýða menn máli hans því betur, sem þeim þykja tillögur hans veigameiri, en skipunarvald hefur hann ekki. Ef áheyröndum gest eigi að orðum hans, heyrist illur kurr í þeim; en ef þeim líkar vel til hans að heyra, fella þeir frenjur saman. Að láta lof sitt í ljós með vopnum, þykir hinn sæmilegasti vottur samþykkis. Á þinginu er mönnum einnig heimilt að höfða sakamál. Fer refsingin eftir afbrotunum: svikarar og liðhlaupar eru hengdir í trjám, en skræfur og ragmenni og fúllífismenn eru kæfðir í for og mýrarfenjum, en viðjum kastað yfir.“ |
Eins og áður sagði er í ritinu lýst ýmsum þjóðflokkum germana. Einum þeirra, kákum, er svo lýst og hafa margir þjóðflokkar fengið verri umsagnir fyrr og síðar:
„Eru þeir ein göfugust þjóð með Germönum og kjósa heldur að halda uppi frægð sinni með réttvísi. Þeir eru hvorki ásælnir né ráðríkir, en lifa í friði innan sinna endimarka og vekja ekki styrjaldir. Eigi fara þeir heldur með ránum né gripdeildum. Má það og heita órækur vottur drengskapar þeirra og manndáðar, að eigi neyta þeir yfirgangs til þess að geta talist öðrum meiri. Þó eru þeir jafnan vígbúnir og her þeirra til taks, ef þurfa þykir; hafa þeir fjölda hermanna og hesta, og er orðstír þeirra engu minni á friðartímum.“ |
Eins og áður sagði er sagnfræðilegt gildi lýsinga í Germaníu misjafnt og má hér geta þess að í skýringum við bókina segir að Gaius Plinius lýsi kákum sem hinum aumustu mönnum! En þó menn megi fara varlega í að draga almennar ályktanir af frásögnum Germaníu þá má þó hafa lýsingu káka til upprifjunar á einu: það er ekkert sem segir að herir og vígbúnaður séu nauðsynlega til marks um árásargirni eða yfirgangsemi. Eins og menn vita þá hafa margir hins vegar þann sið að halda hástemmdar ræður gegn því að eigin lönd séu varin eða að eigin lönd búi yfir her eða hafi nokkurt samstarf við aðrar þjóðir í hermálum. Á Íslandi hefur slíkur söngur verið sunginn áratugum saman og virðast forsöngvarar hans aldrei ætla að sætta sig við annað en að Ísland verði einhvern daginn lýst varnarlaust. Ísland, eins og mörg önnur ríki, situr uppi með sína „friðarsinna“ sem virðast aldrei getað skilið að öflugar varnir, sem treysta á her sem getur varist árásum, her sem jafnvel fær stundum að æfa sig án þess að „friðarsinnar“ hlekki sig við vörubílana hans, geta verið nauðsynlegar forsendur þess að þjóðir fái lifað í friði.