Sumt af því sem hæst ber í stjórnmálaumræðunni hefur þann kost að það hverfur úr umræðunni jafnskjótt og það kom þangað. Sumt er í fréttum einn dag eða tvo – kallar á gífuryrði og utandagskrárumræðu að ósk Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur og Jóhanns Ársælssonar – en er svo aldrei nefnt meir, og allra síst af þeim sem hæst létu. En svo er annað sem kemur aftur og aftur, undantekningarlítið efnislega óbreytt frá því það var rætt síðast. Eitt af því er hvalveiðimálið. Reglulega upphefst sami söngurinn. Einbeittir ráðamenn, einarðir þingmenn og gríðarlega stóryrtir veiðimenn mæta í fjölmiðla og segja að nú sé komið að því. Nú hefjist hvalveiðar, grænfriðungar geti átt sig, Íslendingar séu sjálfstæð þjóð sem láti ekki segja sér fyrir verkum. Kristján sé farinn að brýna skutlana og nú fari allt í gang.
En svo gerist ekki neitt. Hvalveiðar hefjast auðvitað ekki, bátarnir liggja á sínum stað, Kristján setur skutulinn aftur á vegginn og Guðjón Guðmundsson þýtur í ræðustól Alþingis og lýsir vantrausti sínu á öllum hlutaðeigandi. Sama sagan er svo endurtekin nokkrum misserum síðar. Menn reka sig nefnilega alltaf á það sama. Fyrir tæpum tveimur áratugum bannaði félagsskapur sem, ótrúlegt en satt, nefnist Alþjóða hvalveiðiráðið, hvalveiðar. Ísland er aðili að þessu félagi og í tvísýnni atkvæðagreiðslu hafnaði Alþingi tillögu þess efnis að landið mótmælti banninu, og því telst Ísland bundið af þessu banni. Á sínum tíma þótti það ákaflega nútímaleg, fagleg og náttúruvæn afstaða að mótmæla ekki banninu og af því súpa Íslendingar seyðið enn, tæpum tuttugu árum síðar.
Það gæti verið fróðlegt fyrir ýmsa að kynna sér umræðurnar um hvalveiðibannið, þegar hart var tekist á um það í íslenskum fjölmiðlum. Margt af því sem þá var sagt, til að rökstyðja það að Ísland mætti alls ekki „skorast úr leik“, er nefnilega nauðalíkt því sem nú er haldið að mönnum sem rökstuðningur fyrir því að Ísland verði endilega að vera með í Kyoto-bókuninni. Og, rétt eins og hvalveiðibannið, þá geta samningar eins og Kyoto-bókunin orðið mönnum fjötur um fót lengur en þeir ætla í upphafi. Að vísu er núverandi útgáfa bókunarinnar ekki alveg sá skaðræðisgripur og fyrri útgáfur hefðu orðið, en engu að síður myndu íslenskir þingmenn gera rétt í því að hafna aðild Íslands að henni.
Ef þingmenn vilja að skorður verði settar við tilteknum iðnaði, við tilteknu magni útblásturs tiltekinna lofttegunda eða við hverju öðru, þá geta þeir sett lög þess efnis. Þeim lögum gætu síðari þingmenn breytt ef aðstæður breyttust, þekking yrði meiri eða fordómar minni. Ísland yrði þá ekki ofurselt duttlungum og kreddum annarra þjóða og þyrfti ekki að fara bónarveg til ráðstefnusala erlendra ofstækismanna eins og raunin er gjarnan í hvalveiðimálinu. Íslenskir þingmenn voru skammsýnir þegar þeir mótmæltu ekki hvalveiðibanninu á sínum tíma og þeir sem nú sitja á þingi mættu læra af þeirri skammsýni.