Helgarsprokið 11. nóvember 2001

315. tbl. 5. árg.

Ríkisfjölmiðlarnir áttu venju fremur slakan dag á fimmtudaginn. Hér er því ekki átt við að þeir hafi eins og alla aðra daga verið reknir fyrir fé sem tekið er af almenningi nauðugum og boðið upp á dagskrá sem enginn hefur beðið um. Nei, ekki bara það, á fimmtudag var byrjað á því að hita upp á rokkstöð ríkisins fyrir það sem koma skyldi í fréttatíma og umræðuþætti ríkisins í sjónvarpssal. Hitamál dagsins var „brottkastið“ en skipsverjar á ónefndum báti buðu fréttamanni ríkissjónvarps að taka sjálft brottkastið upp á band. Fréttamaðurinn taldi ekkert rangt við að láta teyma sig áfram með þessum hætti og fór um borð, festi sviðsett brottkastið á filmu og var mættur í síðdegisútvarp ríkisins til að segja mönnum af því að myndirnar yrðu sýndar í kvöldfréttatíma. Það var frétt út af fyrir sig að búin hefði verið til frétt. Svo mikill var spenningurinn yfir því að einhverjir sjómenn höfðu boðist til að setja brottkast á svið og búa til frétt fyrir fréttamanninn. Og svo alvarlegt var brotið að fréttamaðurinn hafði lofað hinum brotlegu að segja ekki til þeirra. Fréttastofa ríkissjónvarpsins hefur glatað öllum trúverðugleika með því að birta sviðsetta „frétt“ af þessu tagi. Fyrir utan þetta geta menn svo velt einu fyrir sér: Er líklegt að ná megi sátt við andstæðinga kvótakerfisins þegar þeir eru tilbúnir að brjóta lög frammi fyrir alþjóð í þeim tilgangi að sverta kerfið? Er til sá maður sem telur líklegt að slíkir menn sætti sig einhvern tímann við leið auðlindaskatts eða hægfara eignaupptöku, þ.e. veiðigjalds eða fyrningar, svo notuð séu hljómfögur orð.

„Já, þær eru þægilegar íslensku lopableyjurnar sem sjaldan eða aldrei eru þvegnar, og þá aðeins úr alíslenskri keytu.“

En aftur að frammistöðu RÚV á fimmtudaginn. Þann dag var líka umhverfisþátturinn Spírall endursýndur þeim sem misstu af honum á sunnudaginn. Það er mikilvægt að endurnýta sorpið, segja þeir í Spíral. Í þessum þætti Spírals var lagt hart að áhorfendum að nota ekki pappír en nota þess í stað tuskur og taubleyjur. Nokkur orðrétt dæmi um boðskapinn:
„Íslendingar yrðu ekki nema sex daga að skeina sig á öllum trjánum á Miklatúni.“
„Ruslpóstur á höfuðborgarsvæðinu er um 17 kg á mann á ári!“
„Barn sem notar bréfbleyjur notar 5000 stykki yfir tímabilið.“
Nú er engin af þessum fullyrðingum rétt og þarf sennilega ekki að koma á óvart úr þessari átt.
Pappírsframleiðendur planta fleiri trjám en þeir höggva í pappírsvinnslu svo þeir eru ekki að eyða neinum skógum, hvorki á Miklatúni né annars staðar.
„Ruslpóstur“ á höfuðborgarsvæðinu er kannski eftir einhverri mjög víðri skilgreiningu 17 kg á hvert heimili en á meðalheimilinu eru fleiri íbúar og þá lækka þessi 17 kg niður í 5 -6 kg á mann. Þessi 17 kg tala úr Spíral er líklega fengin frá söfnun Hreggviðar Jónssonar fyrrverandi þingmanns á „ruslpósti“ sem barst á heimili hans í eitt ár. Ef til vill er Hreggviður ekki mjög umburðarlyndur gagnvart pósti þar sem á sínum tíma koma fram að hann vildi að borgaryfirvöld beittu sér fyrir því að „bannað yrði að setja óumbeðinn ruslpóst í póstkassa og inn um bréfalúgur í Reykjavík.“ Hann er því ef til vill ekki besti maðurinn til flokka ruslpóstinn frá hinum. Skilgreiningar á ruslpósti eru sjálfsagt jafnmargar og mennirnir. Eru auglýsingar um lágt vöruverð ruslpóstur? Er happdrættismiði frá líknarfélagi ruslpóstur? En upplýsingabæklingur um nýja símaþjónustu sem fylgir með símreikningi? Hvað með rukkun afnotagjalda RÚV? Allt kemur þetta óumbeðið inn um bréfalúguna en margir vilja þó fá megnið af þessum póst. Nema að vísu þann síðast nefnda, þeir eru fáir sem vilja hann.
Ef til vill eru til börn sem þurfa nýja bleyju á þriggja tíma fresti allan sólarhringinn allan ársins hring til tveggja ára aldurs eða alls 5.000 stykki. En ætli það sé ekki fremur óvenjulegt og meðalnotkunin því langt undir þessari spíralstölu?

En í þættinum var ekki síður lögð mikil áhersla á að spara vatn og sápu, að ekki sé minnst á orkuna sem þvottavélar nota. Með öðrum orðum má helst ekki þvo tuskurnar og taubleyjurnar sem svo mjög er mælt með. Það er einnig ráðgáta úr hverju bleyjurnar og tuskurnar eiga að vera þar sem í fyrri þáttum Spírals hefur komið skýrt fram að ekki má flytja inn bómull eða önnur efni þar sem það kostar svo mikla orku af flytja vefnaðarvörur á milli landa. Já, þær eru þægilegar íslensku lopableyjurnar sem sjaldan eða aldrei eru þvegnar, og þá aðeins úr alíslenskri keytu.

Í lokin má kannski kynna boðskap frá „umhverfisvænu fjölskyldunni“ sem heimsótt er í hverjum þætti. Gefum húsmóðurinni orðið: „Ég fer frekar í stutta sturtu en í bað, þannig má minnka vatnsmagnið. Ef við þurfum öll á hreingerningu að halda, við erum náttúrulega ansi mörg í þessari fjölskyldu, þá förum við í sund, það er bæði þægilegt og fljótlegt fyrir svo stóran hóp.“ Sannfærandi ekki satt? Hún fer frekar í stutta sturtu en bað til að spara vatnið en þegar þau þurfa öll „á hreingerningu að halda“ fara þau að sjálfsögðu í eitt af stærstu útibaðkörum landsins. Þar er að sjálfsögðu ekki um sóun á vatni og orku að ræða. Á sundstöðum hanga iðulega uppi leiðbeiningar til sundgesta um að þrífa sig vel með sápu í sturtunni áður en haldið er út í laug. Ekki kom fram hvort „umhverfisvæna fjölskyldan“ sleppir sturtunni og sápunni á undan hreingerningarsundinu til að spara vatnið og dekra við náttúruna.