Eini flokkurinn sem farið hefur með aðild Íslands að ESB sem klárt stefnumál í kosningar var Alþýðuflokkurinn í þingkosningum árið 1995. Minnstu mátti muna að flokkurinn þurrkaðist út í kosningunum þótt ýmislegt fleira en Evrópustefnan hafi átt þar hlut að máli. Nú keppa Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn um botnsætið í skoðanakönnunum eftir að ESB aðildardaður þeirra fór að ágerast. Framsóknarflokkurinn var reyndar andvígur aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en nú vill hann ganga alla leið í Evrópusambandið.
Hinir svonefndu Evrópusinnar halda því gjarna á lofti að „Ísland eigi samleið“ með ríkjum ESB. Af tali þeirra mætti ætla að Íslendingar eigi ekki viðskipti við aðrar þjóðir en þessar sem flagga bláa fánanum með gulu gaddavírsgirðingunni. Ísland á að þeirra mati ekki að alþjóðavæðast heldur nægir að Evrópuvæðast. Ísland á ekki að leita eftir frjálsum viðskiptum við allar þjóðir heldur aðeins sumar þjóðir, nánar tiltekið 15 ríki ESB. Landbúnaðarstefna ESB er helsta hindrunin fyrir frjálsum viðskiptum í heiminum í dag og yrðu Íslendingar hluti af henni með aðild ásamt því að fyrr en síðar tæki ESB við stjórn fiskveiða hér við land.
Í svari viðskiptaráðherra við fyrirspurn Svanfríðar Jónasdóttur þingmanns Samfylkingarinnar um erlenda fjárfestingu á Íslandi á undanförnum árum kemur fram að í árslok 2000 áttu útlendingar 40,9 milljarða króna í íslenskum fyrirtækjum. Undir beina fjárfestingu falla einungis stærri fjárfestingar sem fela í sér áhrif á stjórn fyrirtækis eða að fjárfestir á 10% eða stærri hlut í fyrirtæki. Nú mætti ætla að hin mikilvægu ríki ESB eigi bróðurpartinn af þessari fjárfestingu, að minnsta kosti mætti ætla það af málflutningi Evrópusinna. En af þessum 40,9 milljörðum króna eiga fjárfestar innan ESB aðeins 10,9 milljarða eða tæp 27%. Af þessum 10,9 milljörðum er raunar helmingur frá ríkjum sem nota ekki gjaldmiðil ESB. Erlend fjárfesting frá evrulöndunum er því innan við 14%. Bæði Svisslendingar og Norður-Ameríkumenn taka meiri þátt í íslensku atvinnulífi en fjárfestar frá ríkjum ESB.