Undanfarnar vikur hafa þrír stjórnmálaflokkar, Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, átt í samningaviðræðum um þá hugmynd að flokkarnir bjóði ekki fram við næstu kosningar til borgarstjórnar Reykjavíkur. Út af fyrir sig er sú hugmynd ágæt en að vísu mun fylgja með hugmyndinni að flokkarnir muni í stað eigin framboðs styðja framboð sem kennt verði við R-listann. Viðræðurnar munu hafa gengið vel og hafa flokkarnir þegar „lekið“ í fjölmiðla ýmsum fréttum þess efnis að þeir sjálfir vinni af heilindum í þessu máli og setji fram eðlilegar kröfur sem allar byggist á málefnalegum sjónarmiðum en hinir flokkarnir hafi því miður gengið fram af full mikilli óbilgirni. Engin ástæða er því til að efast um að viðræðurnar muni skila í-raun-óbreyttu R-lista framboði og menn muni einu sinni enn geta sest á listann staðráðnir í því að gera það aldrei aftur. Enda hefur aldrei annað staðið til.
Að vísu eru ýmsir óbreyttir flokksmenn vinstri-grænna enn harðir í tali og segja allt óráðið. Sumir þeirra meina það meira að segja einlæglega. Þeir ýmist telja að vinstri-grænir séu sérstaklega málefnalegir og hugsi aðallega um að ná tilteknum stefnumiðum fram, eða átta sig á því að ein meginástæðan fyrir vaxandi fylgi flokksins er sú, að í samanburði við Samfylkinguna – sem alltaf gerir allt sem hún heldur að dugi til fylgis og áhrifa – þykja vinstri-grænir næstum því hreinir og beinir. Það er ekki síst þrálátt tal um „sérstöðu“ og „stefnufestu“ vinstri-grænna sem þrýstir fylgi þeirra upp og því mjög skiljanlegt að Samfylkingarmenn leggi höfuðáherslu á að rugla reytum með þeim. Með áherslu á sögnina að rugla. Þetta sjá ýmsir stuðningsmenn vinstri-grænna og vilja síður fórna þessari happadrjúgu „sérstöðu“ með því að bjóða allt í einu fram með Samfylkingunni!
En það munu vinstri-grænir engu að síður gera, og ekki mun Vefþjóðviljinn harma það. Um Framsóknarflokkinn er svo það að segja, að hann er við það að leggja sjálfan sig niður á suðvesturhorninu eftir að hafa ekki boðið fram til borgarstjórnar í rúman áratug. Og ekki harmar Vefþjóðviljinn það. Ef einhvers staðar eru til framsóknarmenn sem telja að flokkurinn hafi annan og jafnvel meiri tilgang í höfuðborginni en að útvega Alfreð Þorsteinssyni vel launuð störf, þá kann að vísu að vera að þeim líki þetta miður, en sjálfsagt eru þeir ekki mjög margir. Hagur Samfylkingarinnar af sameiginlegu framboði er svo vitaskuld augljós og skiljanlegt að flokkurinn vilji ekki gangast undir fylgismælingu í Reykjavík. Það er hins vegar merkilegra að vinstri-grænir séu staðráðnir í þessu tvennu: Að bjóða ekki fram undir eigin nafni. Að bjóða fram í þessum félagsskap.
Getur kannski verið að það séu ekki „málefnin“ sem reki vinstri-græna áfram, heldur ekki síður heiftúðugt hatur á núverandi minnihluta í borgarstjórn? Því, ef grannt er skoðað, er ekki eitthvað bogið við það, að þessi einstaklega „málefnalegi“ flokkur, sitji fund eftir fund með Samfylkingu og Framsóknarflokki, en velti ekki einu sinni fyrir sér hugsanlegum möguleikum á samstarfi við núverandi minnihluta eftir kosningar? Gott og vel, á Alþingi er margt sem skilur á milli Sjálfstæðisflokks og vinstri-grænna. En í borgarstjórn? Það er nú það, sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafa undanfarin tíu ár nefnilega verið ótrúlega langt til vinstri. Hefur ekki Ögmundur Jónasson árum saman talað um það að R-listinn sé bara engu betri – frá sjónarhóli Ögmundar – en minnihlutinn? Hefur ekki fjöldi vinstri manna talað og skrifað það sama öll undanfarin ár? Er minnihlutinn í borgarstjórn nokkurn tímann á móti þeim sósíalisma sem R-listinn knýr í gegn? Situr kannski af og til hjá. Já og var það ekki þannig á síðustu valdaárum núverandi minnihluta, á kreppuárunum 1991-1994, að verkalýðsleiðtogar eins og til dæmis Guðmundur J. Guðmundsson áttu vart nægilega sterk orð til að fagna því hve borgaryfirvöld væru „félagslega sinnuð“ og „tækju myndarlega á í atvinnumálunum“. Hvernig er það eiginlega, myndi raunverulega málefnalegur vinstri flokkur fyrirfram útiloka samvinnu, fyrir eða eftir kosningar, við núverandi minnihluta borgarstjórnar Reykjavíkur. Það er vandséð.
Það er nefnilega vandséð að vinstri-grænir eigi í raun sérstaka málefnalega samleið með núverandi R-listaflokkum. Það eina sem sameinar þá í raun er sennilega hatur þessara aðila á Sjálfstæðisflokknum. Og hvað núverandi minnihluta Sjálfstæðisflokkins varðar, þá virðist ekki svo margt skilja hann frá vinstri-grænum að þessir flokkar ættu ekki að geta starfað saman að loknum kosningum. Og þetta segir Vefþjóðviljinn hvorugum þeirra til hróss.