Eins og fólk veit, þá er stjórnmálaskörungurinn Þórunn Sveinbjarnardóttir ekki aðeins rökvís í besta lagi heldur einnig orðheppin og glögg. Í kastljóss-þætti Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi benti hún til dæmis áhorfendum á það að „fólk á alltaf að gæta sín á alhæfingum“. Vefþjóðviljanum er ánægja að því að taka undir þessa yfirlýsingu Þórunnar. Fólk á alltaf að gæta sín á alhæfingum. Alltaf. Undantekningarlaust.
Stundum má satt kyrrt liggja. Þetta var Vefþjóðviljinn minntur á með baksíðufrétt í DV í gær. Nokkru fyrir síðustu þingkosningar lagði Vefþjóðviljinn fram ágæta tillögu: „Það væri athugandi fyrir Samfylkinguna að fá Svan til að spá sér miklu tapi í þingkosningunum í vor en það myndi sennilega tryggja henni stórsigur.“
Því miður, Samfylkingarmanna vegna, nýttu þeir sér ekki þessa tillögu. Tillagan var að sjálfsögðu sett fram af góðum hug enda byggð á rannsóknum. Nánar tiltekið á rannsóknum á tengslum kenninga prófessors Svans Kristjánssonar við raunveruleikann. Ýmsir höfðu leitað að hinum týnda hlekk milli spádóma prófessorsins og raunveruleikans en ekki fundið þótt hann blasti við hverju mannsbarni. Um síðir upplýstist þó fyrir alþjóð að þetta samband væri öfugt. Því meiri kraft sem Svanur setur í spár sínar um að hlutirnir fari á einn veg því líklegra er að þeir fari í allt annan farveg.
Í gær var svo fyrrnefnd stórfrétt í DV þar sem Svanur segir Samfylkinguna stefna í mesta klúður íslenskrar stjórnmálasögu og að Össur Skarphéðinsson sé mislukkaður formaður. Vefþjóðviljinn veit ekki hve mikið Samfylkingin greiddi Svani fyrir að koma fram með þessa spá enda er bókhald Samfylkingarinnar lokað og læst – öfugt við það sem Svanur telur að sé flokknum til framdráttar.