Þau eru ekki fá mikilvægu verkefnin á vegum hins opinbera. Eitt þeirra er tvímælalaust „skiptidvöl norrænna ríkisstarfsmanna“. Þetta merkilega verkefni hefur verið kostað af skattgreiðendum á Norðurlöndunum frá árinu 1979. Tilgangur verkefnisins er að gefa ríkisstarfsmönnum kost á því að kynnast stjórnsýslu annarra Norðurlanda. Á kynningarsíðu verkefnisins kemur einnig fram að „þeirri fjárhæð sem til ráðstöfunar er fyrir Ísland er skipt niður á styrkþega. Vegna takmarkaðrar fjárveitingar getur þurft að velja úr umsóknum eða takmarka dvalartíma hvers og eins.“ Já, þetta er ótrúlegt. Þarna er fundið verkefni á vegum fjármálaráðuneytisins sem hefur ekki ótakmarkaðar fjárveitingar.
Vefþjóðviljinn hefur haft nokkrar áhyggjur af fjölgun opinberra starfsmanna hér á landi á undanförnum árum. Hann vill því vekja sérstaka athygli á því að í reglum um skiptidvöl norrænna ríkisstarfsmanna er ekki gerð krafa um að skiptin séu gagnkvæm.
Eins og menn vita þá hefur hið opinbera sett upp myndavélar á ýmsum gatnamótum í höfuðborginni. Munu þær vera ætlaðar til þess að koma upp um þá ökumenn sem aka móti rauðu ljósi eða fremja ámóta glæpi. En myndavélar sem þessar geta nýst til að hafa hendur í hári fleiri þrjóta. Í Þýskalandi, Bæjaralandi nánar tiltekið, var ökumaður nýlega dæmdur fyrir alvarlegt afbrot sem upplýstist með aðstoð eftirlitsmyndavélar. Ökumaðurinn mun nefnilega ekki hafa verið nema mátulega ánægður með myndavélina og þar sem hann sat í bifreið sinni lyfti hann hönd sinni að vélinni með þeim hætti að heldur meira bar á löngutöng en öðrum fingrum.
Hann var því ákærður og dæmdur fyrir að lítilsvirða lögregluna.