Samfylkingunni er það mikið kappsmál í orði að fjármál stjórnmálaflokka séu öllum opin og þingmenn hennar leggja fram hvert frumvarpið á fætur öðru um að menn geti ekki stutt stjórnmálaflokka án þess að það sé birt opinberlega. Ef Samfylkingin væri flokkur um hugsjónir en ekki eingöngu um hentistefnu mætti búast við því að í lögum Samfylkingarinnar sjálfrar væri að finna skýr ákvæði um að Samfylkingin birti allt bókhald sitt á almannafæri. Fólkið sem vill setja allri þjóðinni lög um ákveðin atriði hlýtur að setja sjálfu sér slík innanbúðarlög.
En því er ekki að heilsa. Í lögum Samfylkingarinnar er sérstakur kafli um fjármál hennar. Þar er ekki vikið einu orði að því að flagga beri bókhaldi og nöfnum stuðningsmanna opinberlega. Þvert á móti má frekar skilja af lögunum að það beri ekki að gera, þótt ekki sé lagt sérstakt bann við því. Það mætti þó ætla að svo mikilvægt baráttumál, sem berun bókhaldsgagna er Samfylkingunni, myndi rata í lögin sem sérstök fyrirmæli ef þingmenn flokksins meina eitthvað með því sem þeir segja í fjölmiðlum og á Alþingi. En það er svo sem ekkert nýtt að forsjárhyggjuliðinu gengur oft betur að segja öðrum fyrir verkum og mæla fyrir um hegðun manna í lögum frá Alþingi en að fara eftir boðorðunum sjálft.