Hópur sem nefnir sig Vini bílsins hefur séð sig knúinn til að svara með blaðaauglýsingum ýmsum óhróðri sem dreift hefur verið um bílinn á undanförnum árum. Þetta er þarft framtak. Bíllinn hefur af einhverjum ástæðum orðið helsti skotspónn þeirra sem hafa horn í síðu vestrænnar menningar eða „neyslusamfélagsins“ eins og andstæðingar þess nefna gjarna efnahagslega velmegun á Vesturlöndum. Nýjasta dæmið um þetta hatur – eða öllu heldur sjálfshatur því flestir gagnrýnendur „neyslusamfélagsins“ taka þátt í því á fullu sjálfir – er þátturinn Spírall í Ríkissjónvarpinu.
Meðal þess sem notað er gegn einkabílnum er að hann sé samfélaginu dýr og er þá vísað til kostnaðar við vegagerð og ekki síður til umferðarslysa. Nú er að kunnara en frá þurfi að segja að bíleigendur greiða margfalt hærri skatta en sem nemur kostnaði við vegagerð. Akstur bíls hefur einnig ýmsa kosti sem menn vega á móti áhættunni af því að vera út í umferðinni. Flestir telja þessa áhættu ásættanlega eða setja hana að minnsta kosti ekki fyrir sig og ekki er víst að áhættan við að koma sér á milli staða yrði minni þótt bílum væri útrýmt. Vafalaust mætti minnka þessa áhættu með því að hinn almenni maður gæti endurnýjað bíl sinn reglulega og haldið honum betur við. Til þess þarf að lækka skatta á bíla og eldsneytið sem þeir ganga fyrir. Með betri vegum mætti einnig minnka þessa áhættu en betri vegir fást annaðhvort með því að bíleigendur greiði beint fyrir þá gegn því að skattar lækki eða stærri hluti skatta á bíla fari til vegabóta.
Í auglýsingunum frá Vinum bílsins er jafnframt bent á að mengun frá bílum hefur snarminnkað á undanförnum árum. Þessi þróun þarf ekki að koma á óvart enda orðið miklar framfarir í hönnun véla, samsetningu eldsneytis og mengunarvarnarbúnaði. Eldsneytisnýting er eitt helsta atriðið sem menn velta fyrir sér þegar bíll er keyptur. Kröfur um hagkvæmni og hag umhverfisins fara því saman sem fyrr.