Steingrímur J. Sigfússon baðaði sig í lófataki samflokksmanna sinna í gærdag og þar með var endurkjör hans til formanns vinstri-grænna í höfn. Hið sama gilti um alla stjórn og varastjórn flokksins, lófatak staðfesti uppstillingu kjörstjórnar. Þarna var engin ástæða til að kjósa og sjá hvort einhver hefði ef til vill aðra skoðun en forystan, enda eru vinstri menn svo lýðræðislegir eins og þeir benda á við hvert tækifæri. Steingrímur fékk ekki rússneska kosningu eins og menn sögðu til dæmis að formaður Sjálfstæðisflokksins hefði fengið á dögunum; Steingrímur þurfti bara alls enga kosningu til að halda áfram sem formaður. Vinstri menn, bæði sem starfa að stjórnmálum og við fjölmiðla, láta iðulega að því liggja að á landsfundi andstæðinga þeirra, þ.e. á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sé aðeins skrautsýning og lítið lýðræði. Þó er það nú þannig að á þeim landsfundi er ávallt kosið skriflega um formann og varaformann, hvort sem einhver lýsir yfir framboði gegn sitjandi forystu eða ekki.
Annar munur er á þessum tveimur landsfundum, en hann er sá að á landsfundi VG fer lítið fyrir málefnavinnu og enginn ágreiningur er um nokkurt mál. Allt er slétt og fellt á yfirborðinu og forystan stýrir því hvert umræður fara. Til að tryggja að allt sé settlegt er jafnvel náð í félaga úr systurflokki frá Noregi til að greina landsfundarfulltrúum frá því hvernig þeir eigi að hugsa. Á landsfundum stóra flokksins, sem vinstri sinnar segja gjarna að séu hallelújasamkomur, er tekist á um málefni og sýnist sitt hverjum um einstök mál eins og fram kemur í fjölmiðlaumfjöllun af þeim fundum. Flestir sætta sig að loknum fundi við lýðræðislega niðurstöðu, en einstaka maður telur lýðræðið full mikið fyrir sinn smekk og hverfur ósáttur á braut.
Fyrir utan stærðarmun landsfunda þessara tveggja flokka, er þetta í hnotskurn munurinn á landsfundunum. Annar landsfundurinn er lýðræðislegur og þar er undantekningarlaust kosið bæði um menn og málefni. Hinn landsfundurinn er klappsamkoma þar sem forystan, með stuðningi fulltrúa erlendra systurflokka, segir flokksmönnum hver línan sé. Þrátt fyrir að munurinn á þessum fundum sé jafn skýr og raun ber vitni er það þó líklega svo að vinstri sinnuðum stjórnmála- og fjölmiðlamönnum mun haldast uppi að gera lítið úr lýðræðislegu samkomunni og láta eins og klappsamkoman sé einhvers virði.
Ekki batnar hinn svonefndi umhverfisþáttur Spírall eftir því sem þáttunum fjölgar. Ef Spegill Ríkisútvarpsins væri mönnum ekki dagleg áminning um svokallað hlutleysi Ríkisútvarpsins kæmi það ef til vill á óvart að svo hlutdrægur áróðursþáttur sé settur á dagskrá ríkisfjölmiðilsins. Í þættinum í gær voru börnin sem ætlast er til að horfi á þáttinn vöruð við því að gæða sér á brauði, grænmeti og nautakjöti sem selt er undir nafninu hamborgari. Ástæðan fyrir því að börn eiga að varast hamborgara er að kálið á þeim er ef til vill ekki lífrænt ræktað og annað hráefni kann að vera flutt langt að eða jafnvel ekki íslenskt.
Því var staðfastlega haldið fram í þættinum að það sé umhverfisvænna að kaupa vörur sem framleiddar í nálægð við neytandann þar sem það spari orku. Þetta er athyglisverð kenning. Ætli paprikur ræktaðar undir sólarljósi suðrænna landa séu síður umhverfisvænar fyrir Íslendinga en paprikur ræktaðar í rafknúnum ljósabekkjum íslenskra garðyrkjubænda? Ætli það væri umhverfisvænna fyrir Íslendinga að hefja bíla- og raftækjaframleiðslu til að þurfa ekki að flytja þessar vörur yfir hafið?